7.3.2012 | 11:19
Vænglausir harðhausar
Vísindamenn við University College í London (UCL) hafa komist að því að prótínið Dkk1 stuðlar að uppsöfnun mýlildis í heilum Alsheimersjúklinga.
Þeir komust að þessu með því að setja mótefni gegn Dkk1 inn í mýs, og kanna þversneiðar af heilum þeirra nokkru síðar. Hópur músa sem fékk mótefnið var með marktækt minna af mýlildi en þær samanburðarmýs, sem engin mótefni fengu.
Dkk1 er skammstöfun á Dickkopf-1, sem útleggst sem harðhaus. Genið var fyrst uppgötvað í afríska klófroskinum (Xenopus leavis) sem er í miklu uppáhaldi þroskunarfræðinga. Prótínið virkar sem neikvæður stjórnþáttur á Wnt boðefni. Frumur dæla báðum gerðum prótína út úr sér, og er hlutverk Dkk1 að draga úr virkni Wnt boðefnanna. Wnt er stór fjölskylda boðsameinda sem eru virkjuð við myndun ólíkustu vefja. Þau fundust fyrst í músum og í ávaxtaflugum sem vantaði vængi. Þegar erfðagalli flugunar var greindur kom í ljós galli í geni sem hlaut nafnið Wingless. Í manninum eru 19 Wnt gen, sem skipta með sér verkum og eða starfa saman t.a.m. við þroskun og viðhald taugakerfisins. Mynd af vænglausri ávaxtaflugu og villigerð af vef Biology Arizona.
Undir venjulegum aðstæðum stjórnar Dkk1 virkni Wnt boðefna, tryggir að áhrif þeirra séu ekki of mikil. Þessar nýju niðurstöður benda hins vegar til að í einhverjum tilfellum séu áhrif Dkk1 of mikil - og að það ýti undir uppsöfnun mýlildis.
Rannsóknin sem um ræðir staðfestir mikilvægi Dkk1 og líklega Wnt sameinda fyrir tilurð alsheimer mýlildis. Í fréttatilkynningu segir einn höfunda (Professor Salinas):
Despite significant advances in understanding the molecular mechanisms involved in Alzheimers disease, no effective treatment is currently available to stop the progression of this devastating disease.
This research identifies Dkk1 as a potential therapeutic target for the treatment of Alzheimers disease.
Vitanlega er ALLTAF möguleiki að þróa lyf gegn genum og prótínum sem tengjast tilurð sjúkdóms. En sem kennari í þroskunarfræði, þá finnst mér mjög hæpið að ætla að fara að möndla með starfsemi gens eins og Dkk1. Vegna þess að þetta gen kemur að svo mörgum öðrum ferlum. Ef við drögum úr virkni prótínsin í heila, kann að vera að aukaverkanir birtist í öðrum vefjum þar sem Dkk1 er til mótvægis við Wnt boðefnin.
Leiðréttingar:
Frétt MBL.is er helbert kjaftæði.
Í titli og megin máli er gefið í skyn að mótefnið finnist í músum. Það er rangt, mótefnið (antibody) var hluti af meðhöndlun vísindamannanna.
Mbl.is segir:
Mótefnin stöðva ákveðið prótein er nefnist Dkk1 en það veldur því að mýlildisflákar hætta að byggjast upp í heilanum.
Í þessari setningu er orsök og afleiðing á reiki. Veldur mótefnið eða Dkk1 því "að mýlildisflákar hætta að byggjast upp í heilanum"? Samkvæmt rannsókninn stuðlar Dkk1 að myndun mýlildis, og mótefnið dregur úr því.
Ítarefni:
Mótefni í músum gegn Alzheimers | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.