9.3.2012 | 15:59
Ágengar framandi tegundir í speglinum
Óskar Sindri Gíslason hefur rannsakað framandi tegundir í sjónum við Ísland. Hann hefur einnig kynt sér þætti sem tengjast því hvort tegund verður ágeng eður ei. Hann hélt erindi um þetta efni fyrir Líffræðistofu HÍ 3. mars 2012, og miðvikudaginn 7. mars 2012 var flutt viðtal við hann í Speglinum. Þar segir meðal annars:
Um 10.000 tegundir af plöntum og dýrum berast af manna völdum til nýrra heimkynna á degi hverjum.
Ágengar framandi tegundir eru taldar ein stærsta ógn við vistfræðilegan fjölbreytileika í heiminum í dag. Ágengar framandi tegundir geta valdið verulegum usla í lífkerfum - jafnvel skilið eftir sig sviðna jörð þar sem þær ná algerum yfirburðum og útrýma tegundum sem fyrir eru. Grjótkrabbinn, sem fannst fyrst við Íslandsstrendur fyrir sex árum, virðist vera orðin ráðandi tegund. Óskar Sindri Gíslason sjávarlíffræðingur segir tegundir dýra og plantna flytjast með fjölmörgum hætti - þær séu fluttar í gróðatilgangi, gæludýrum sé sleppt í nýjum heimkynnum en flestar tegundir flytjist líklega í kjölfestuvatni. Það er vatn sem dælt er í skip til að það nái stöðugleika í einni höfn, og svo dælt út einhvers staðar allt annars staðar. Í kjölfestuvatninu geta verið lifrur, sýli, svif, þörungar. Afar erfitt er að halda aftur af útbreiðslu framandi tegunda þar sem þær hafa fest rætur.
Hlýða má á viðtalið á vef RUV.
Mynd af grjótkrabba er tekin af Sindra (höfundaréttur - copyright). Fleiri myndir af grjótkröbbum og aðrar myndir Sindra má finna á Flickr síðunni Sindrinn.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Hvernig geta flutningar 10.000 tegunda á dag verið ógn við fjölbreytileikann. Er ekki einhver haldbetri skýring. Milljónir farþega fljúga á milli áfangastaða á hverjum degi. Vindurinn einn feykir ótöldum lífverum á milli staða. Allar hreyfingar í stjörnuheimi hljóta að vera partur af tilveru tegundanna. Ógn við vistfræðina geta vísindamenn líklega útskýrt. Fyrir leikmann tekur eitt við af öðru. Hreyfing og flutningur lífvera er oft frekar styrkleiki en veikleiki.
Sigurður Antonsson, 9.3.2012 kl. 23:42
Ég er sammála Sigurður, mér finnst þessi setning dálítið sérkennileg.
En kannski erum við ekki sammála um hvað sé sérkennilegt.
Eins og þú segir er far og flæði einstaklinga af ólíkum tegundum staðreynd. Eiginleikar lífveranna eru afleiðing sögu þeirra og þróunar, aðlögun lífveranna að umhverfi sínu - í gegnum aldanna rás.
Lykillinn er vitanlega "af manna völdum". Lífverur sem geta ekki sjálfar borist yfir reginhaf, eru fluttar af okkur (í kjölfestuvatni eða undir strigaskóm) og geta í kjölfarið náð bólfestu í nýjum heimkynnum.
Mér finnst hins vegar merkilegt að hægt sé að slá tölu á 10000 tegundir. Hversu margar tegundir eru í meðal kjölfestu? Erum við bara að tala um dýr, eða einnig um veirur og bakteríur. Ég myndi halda að milljónir tegunda væru á flakki á hverjum degi.
Raunveruleikinn er sá að við höfum gjörbreytt náttúrunni. Við höfum valdið auknu flæði tegunda á milli svæða og þar af leiðir margskonar samskipti og barátta á milli tegunda sem aldrei hefðu hist undir "náttúrulegum" aðstæðum.
Arnar Pálsson, 12.3.2012 kl. 14:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.