15.3.2012 | 09:38
Visnu og mæðirannsóknir á Keldum fyrir hálfri öld
Það var sem vitrun að læra frumulíffræði hjá Halldóri Þormar prófessor. Hann kenndi mikið út frá spurningum, á borð við:
Hér er fruma, hvernig getum við greint mismunandi hluta hennar?
Er þessu prótíni seytt út úr frumunni eða ekki?
Síðan rakti hann hvernig hægt væri að svara þessum eða áþekkum spurningum. Áherslan var á aðferðir og rökhugsun tilrauna, og í gegnum þær lærðum við líka heilmikið um eiginleika og byggingu frumunnar.
Rannsóknir Halldórs voru mest í veirufræði og mun hann fjalla um þær rannsóknir sem hann stundaði fyrir hálfri öld þegar hann kom til starfa á Keldum í erindi í dag:
Fræðsluerindi á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Fyrirlesari: Halldór Þormar, prófessor emeritus, erindið verður haldið fimmtudaginn 15. mars, kl. 12:20, í bókasafni Tilraunastöðvarinnar.
Visnu og mæðirannsóknir á Keldum fyrir hálfri öld.
Visna og mæði eru smitsjúkdómar í sauðfé sem bárust til Íslands árið 1933 með innfluttu karakúlfé. Mæði er lungnasjúkdómur og visna sjúkdómur í miðtaugakerfi og teljast til hæggengra sýkinga. Sýkingartilraunir í kindum bentu til að visna og mæði væru veirusjúkdómar. Visnuveiran ræktaðist í frumurækt árið 1957 og mæðiveiran árið 1958. Báðar veirur ollu svipuðum sjúklegum breytingum í frumurækt og skoðun í rafeindasmásjá leiddi í ljós svipaðar kúlulaga veiruagnir. Frekari rannsóknir sýndu að um náskyldar eða sömu veiru var að ræða sem síðar var nefnd mæði-visnuveira (MVV). Rannsóknir bentu til að MVV væri náskyld RNA æxlisveirum og sú tilgáta sannaðist við uppgötvun víxlritans (reverse transcriptase) sem skipaði þessum veirum í flokk retroveira. MVV telst til undirflokks lentiveira ásamt HIV.
Halldór er ein af gersemum íslensks vísindasamfélags, og vísindastarf hans er víðfemt, nákvæmt og mikilsvert.
Því veitti Líffræðifélag íslands Halldóri heiðursverðlaun síðasta haust. Halldór er vinstra megin á myndinni, hægra meginn er ungstirnið Bjarni K. Kristjánsson.
Sem dæmi um virkni hans og framsýni, þá gaf hann út bók um fitur og lípíð sem varnarefni gegn sýklum snemma árs 2011.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.