Leita í fréttum mbl.is

Ný-útdauðir frummenn

Steingervingasagan er mjög gloppótt. Engu að síður er hægt að átta sig á stórum dráttum, t.d. tilkomu ákveðinna dýra og plöntuhópa.

Steingervingasaga mannsins er fyllri en margra annara lífvera, líklega vegna áhuga okkar á eigin fortíð (frekar en sögu sæsporðdreka t.d.). Það er staðreynd að maðurinn er skyldastur simpönsum. Reyndar sýna nýjar upplýsingar sýni að hluti af erfðamengi okkar er skyldara górillum en simpönsum, en það er vegna þess i) að genin hafa hvert sína sögu og ii) þess að það leið stuttur tími frá því að forfaðir manna og simpansa skildi við sameiginlegan forfaðir okkar og górilla. 

Ættartré manntegunda er ríkulega greinóttur runni. Þekktustu meiðarnir eru suðurapinn, Homo erectus og Homo neanderthalensis. Neanderdalsmenn eru t.t.l. náskyldir manninum, en dóu út fyrir um 35000 árum (en skildu reyndar eftir erfðaefni í mannfólki utan Afríku. Getur verið að Neanderdalsmaðurinn hafi ekki dáið út heldur blandast nútímamanninum?). Reyndar fannst einnig beinagrind smágerðrar mannveru á eyjunni Flores í Indónesíu en deilt er um hvort um sé að ræða nýja tegund eða afbakað mannveru Dvergar á Flores og á Íslandi).

Nýverið birtist grein í PLoS ONE sem bætir nýrri steingerðri beinagrind í safnið. Sú ku vera um 13000 ára gömul og harla ólík Homo sapiens. Sum einkenni eru áþekk venjulegu mannfólki en önnur segja höfundar greinarinnar að séu of ólík til að um sömu tegund geti verið að ræða. Út frá þeim beinum sem fundust og einkennum þeirra er ekki hægt að skera úr um hvort að þetta sé djúp greina á þróunartré manntegunda (homo greininni okkar) eða hvort að þetta sé bara sérstaklega umbreyttur (úrkynjaður) hópur af tegundinn H. sapiens.

Beinin fundust í tveimur Kínverskum hellum árin 1979 og 1989, en lágu órannsökuð til ársins 2008. Annar hellana heitir Rauða dádýrshellir, og því fengu nýju (eða nýútdauðu) mennirnir heitið Rauðadádýrsfólkið (Red deer cave people). 

Mér finnst alltaf jafn svekkjandi að neanderdalsmenn hafi dáið út. Ímyndið ykkur hversu fjölskrúðugari staður jörðin væri, ef hér byggju 2-5 tegundir manna. Ef til vill var ómögulegt fyrir þær að búa saman í friði, en sem afkomandi hippa má ég alveg leyfa mér drauma.

Frumheimild

Darren Curnoe o.fl.  Human Remains from the Pleistocene-Holocene Transition of Southwest China Suggest a Complex Evolutionary History for East Asians PLoS ONE 7(3): e31918. doi:10.1371/journal.pone.0031918

Umfjöllun the Guardian

 

Red Deer Cave people' may be new species of human The guardian Ian Sample 14 mars 2012

Skyldir pistlar: athugið að í pistlunum hér á eftir er misræmi, sem starfar af því að gögn sem birtust 2010-2011  staðfestu kynblöndun manna og neanderdalsmanna.

Úr Svínadal eða Neanderdal

Adam neanderthal og Eva sapiens

Getur verið að Neanderdalsmaðurinn hafi ekki dáið út heldur blandast nútímamanninum?

Er sjálfsofnæmi arfleifð frá Neanderdalsmönnum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Mér finnst dálítið skrýtið þetta tal um að til sé einhver „tegund“ svonefndra „nútímamanna“, en allir hinir, þ.á m. Neandertalsmenn hafi verið „tegundir“. Ég lærði fyrir löngu að skilgreining „tegundar“ væri að einstalingar, þótt ólíkir virtust, gætu átt fullkomlega frjó afkvæmi saman, t.d. hundar og úlfar væru þannig undirtegundir innan sömu tegundar, en t.d. asnar og hestar, ljón og tígrisdýr væru ólíkar, skyldar tegundir, sem gætu átt afkvæmi, en þau væru ófrjó. Mér sýnist flest benda til að maðurinn hafi verið ein „tegund“ í þeim skilningi að geta átt innbyrðis frjó afkvæmi í afar langan tíma. Raunar finnst mér þetta tal um einhverja „tegund“ „nútímamanna“ vera alveg út í hött og álíka marklaust og að tala um einhverja tegund „nútímahunda“ eða „nútímakatta“, eða jafnvel (meðal villtra dýra) um t.d. „nútímarefinn“ eða „nútímabjörninn“. 

Með þessu tali um nútímamanninn er verið að víkja sér undan því í nafni „pólitískrar rétthugsunar“ að allar stórar, útbreiddar tegundir skiptast í undirtegundir og kynþætti með marvísleg ólík einkenni þótt þær séu innbyrðis frjóar. Kynþættir „nútímamanna“ t.d indíána og Ástralíu- frumbyggja eða Dana og dverg- svertingja eru alveg jafn ólíkar og hinar ýmsu „tegundir“ frumstæðra manna. Mannkynið er ekki eins, og ekkert bendir til að það hafi nokkurn tíman verið eins. Þeir menn af ólíkum kynþáttum/undirtegundum sem uppi voru samtímis í forneskju voru að sjálfsögðu „nútímamenn“ síns tíma. 

Vilhjálmur Eyþórsson, 16.3.2012 kl. 20:53

2 identicon

Þetta er nú ekki alveg rétt hjá þér Vilhjálmur. til dæmis er töluverður líffræðilegur munur á beinagrindum neandertalsmanna og ''nútíma''manna. Kynblöndun á milli þessara tveggja tegunda var þó möguleg og það verður að segjast að skilgreiningin á tegund er vissulega nokkuð óljós. Hugtakið um undirtegundir á nokkuð vel við finnst mér, hvað þetta varðar.

Einnig vitum við til að mynda að neandertalsmenn og homo sapiens þróuðust sjálfstætt úr sömu tegundinni, homo heidelbergensis, úr sitthvorri álfunni. Neander í Evrópu og Sapiens úr Afríku.

Þeir eru semsagt ekki afsprengi hvors annars.

Anyway, þá hugsa ég oft út í þessa pælingu Arnar með það hversu brjálað það hefði getað orðið ef fleiri tegundir mannkyns (neandertals, red deer cave people, floriensis o.s.fr.) væru að deila jörðinni nú í dag. Mjög heillandi og súrrealísk pæling, þó að því miður væri mjög auðvelt að sjá fyrir sér einhvers konar nasista-lega atburðiaf tegundahreinsunum.

Ég hef í tengingu við þetta stundum pælt í því ef við myndum uppgötva vitsmunalíf á öðrum hnöttum og það myndi vera samfélag sem hefði margar vitsmunategundir. Kannski yrði þá einhver tegundin þrælategund eða að þær myndu allar lifa í friði og jöfnuði, hver veit!

Good stuff! 

Jón Ferdínand (IP-tala skráð) 19.3.2012 kl. 10:56

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Vilhjálmur

Þú setur puttann á skemmtilega spurningu, um það hvenær telst einn hópur lífvera ný tegund? Tegund er alltaf skilgreiningaratriði, líffræðilega tegundahugtakið sem þú skírskotar til er bara ein þeirra og virkar ekki fyrir alla lífveruhópa.

Afbrigðamyndun er raunveruleiki, en það er samt þannig að innan h. sapiens er minni breytileiki en innan margra annara tegunda (svo skilgreindra...). 

Hins vegar er skýrt að munurinn á þeim manntegundum sem á undan okkur gengu var meiri en svo að þeir geti talist afbrigði. Það voru fjölmargar aðgreinanlegar manntegundir á jörðinni á síðustu  1-4 milljónum ára, stundum nokkrar á sama tíma.

Engin tegund er eins, af því að allir einstaklingar hverrar tegundar eru ólíkir. Að meðaltali eru þær samt ólíkar hverri annari.

I þessu tilfelli tel ég á mörkunum hvort að rauðadádýrshellisfólkið teljist einstök tegund eða afbrigði eins og meðal górilla eða máva.

Takk fyrir innleggið Jón Ferdinand, það er gaman að velta þessum möguleika fyrir sér. Mér sem aðdáenda fjölbreytileikans, finnst það amk. Það er ekki endilega víst að nasismi (eða þrælahald) yrði ofan á, ef þrjár manntegundir byggju jörðina en það er sannarlega raunhæfur möguleiki. Velkomin á apaplánetuna.

Arnar Pálsson, 19.3.2012 kl. 18:27

4 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Einhver frægur mannfræðingur (ég man ekki hver) hefur sagt, af ef starfsbræður hans mundu finna steinrunna beinagrind af framandi núlifandi kynþætti, t.d. dverg- svertingja eða Andaman- eyjarskegga grafna djúpt í jarðlögum, mundu þeir umsvifalaust lýsa því yfir, að ný „tegund“ væri fundin. Mér sýnist líka ljóst að hinar ýmsu undirtegundir/kynþættir frumstæðra manna hafi blandast mjög lengi, þó ekki friðsamlega. Hitt er líklegra að konur hafi verið teknar herfangi í innbyrðis skærum. Hvað sem því líður sýnist mér alls ekki ólíklegt að Neandertalsmenn hafi einfaldlega blandast Cro- Magnon mönnum í Evrópu og Vestur- Asíu og runnið saman við þá fremur að þeir hafi beinlínis dáið út.

Vilhjálmur Eyþórsson, 19.3.2012 kl. 21:09

5 identicon

Útfrá umræðunni að ofan um skyldleika þeirra tegunda manna sem síðast dóu út er þess virði að benda á grein eftir Stewart og Stringer í Science fyrir nokkrum dögum, þar sem sérstaklega eru tekin fyrir samskipti _Homo sapiens_ við þær manntegundir sem fyrir voru.

Stewart, et al. (2012) Human Evolution Out of Africa: The Role of Refugia and Climate Change, Science 16 March 2012: 1317-1321.

Una Strand Viðarsdóttir (IP-tala skráð) 20.3.2012 kl. 15:38

6 Smámynd: Arnar Pálsson

Vilhjálmur

Vandamálið við steingervinga er hversu treglega þeir æxlast. Þess vegna verða mannfræðingar og steingervingafræðingar að nýta sér aðrar skilgreiningar á tegund, og þeir hafa oft farið villur vegar (t.d. flokkað ungviði og fullorðin dýr sömu tegundar sem ólíkar).

Erfðafræðilegar greiningar (sbr. ítarefni að ofan) hafa sýnt að H. sapiens og H. neanderthalensis áttu afkvæmi saman og þar flugu gen á milli. Kynblöndun skyldra tegunda eða hópa er vel þekkt fyrirbæri, en það er fjáranum erfiðara að henda reiður á smáatriðum atburðarásarinnar. Dóu Neanderdalsmenn út eða samblönduðust þeir forfeðrum okkar? Þeirri spurningu er ekki hægt að svara.

Takk Una fyrir ábendinguna, þetta er forvitnileg grein.

Ég bæti við tengli á þessa heimild.

http://www.sciencemag.org/content/335/6074/1317.abstract

Arnar Pálsson, 21.3.2012 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband