Leita í fréttum mbl.is

Bók um almenna fávisku

Frekar fáir fjölmiðlamenn fatta að þekking og staðreyndir eru skemmtilegar. Þeir halda flestir að fólk vilji bara fá spennu, dramatík og brandara í sjónvarpið sitt (tölvuna eða snjallsímann). En sagan (sjónvarpssagan amk) sýnir að fólk þrífst einnig á góðu fræðsluefni. Það kitlar forvitni, skemmtir og kveikir tilfinningar engu síður en sögur um danska kúkalabba eða lögulegum læknanemum.

Hérlendis er reyndar gaman að því hversu vinsælir heimildaþættir RÚV á mánudögum eru vel liðnir (hin undursamlegu köldu heimskaut er nýjasta dæmið). Einnig sýna vinsældir spurningaþáttanna Gettu betur, Útsvars og Spurningabombunar að íslendingar hafa gaman að staðreyndum, eða allavega því þegar fólk reynir með sér í þekkingu.

Spurningaþættir eru reyndar merkilegir að því leyti að stundum er spurt um fáránlegar staðreyndir. Og þeir sem kunna margar staðreyndir eru ekki endilega skynsamir eða með góða þekkingu.

b006ml0gUppáhaldspurningaþátturinn minn QI er sýndur á BBC. Stephen Fry er stjórnandi, en höfundar efnis eru fjölmargir (m.a. John Lloyd og John Mitchinson). Þemað í þættinum eru staðreyndir, en keppendur fá einnig stig fyrir fyndin eða forvitnileg svör. Keppendur eru flestir grínistar og listamenn, kvikir í huga og snjallir í andsvörum. Alan Davies hefur verið gestur í öllum þáttunum sem ég hef séð, og er hrókur alls fagnaðar (vinstra megin á myndinni, SF er hægra megin, mynd af vef BBC).

Aðal brellan í þættinum er sú að þeir sem giska á augljóst (en vitlaust) svar fá mínus stig.

Spurningarnar fjalla nefnilega ekki endilega um staðreyndir sem fáir vita, heldur um eitthvað sem við höldum að sé staðreynd - en er rangt! Þannig afhjúpast almenn fáviska (general ignorance). Þetta er reyndar kjarninn í vísindalegum vinnubrögðum, að afsanna tilgátur (eða almenna fávisku). 

Charles Darwin orðaði þetta ágætlega:

Þátturinn er nú á tíunda ári, og hefur spannað viðfangsefni frá A til H (þeir eru búnir með Ísland). Jónarnir tveir (Lloyd og Mitchinson) unnu upp úr spurningum þáttarins samantekt um atriði sem við héldum að við vissum en reyndust röng. Saman mynda þau bók um almenna fávisku (Book of general ignorance). Dæmi:

Úr hverju er kaffi búið til? (Ekki baunum heldur fræjum)

Hvað eru mörg boðorð í biblíunni?  (Ekki 10, heldur allt að 613)

Hversu margar gerðir af skynjunum (lykt, bragð...) eru menn með? (ekki 5, heldur amk 9...sumir segja 21!)

Hverjir gleyma á 3. sekúndum? (ekki gullfiskar, þeir eru þrælgreindir og hafa meira að segja lært á matarskammtara)

Hver er þurrasti staður á jörðinni? (Ekki Sahara, heldur Þurrudalir (Dry valleys) á Suðurskautslandinu).

185px-qi-book.jpgJónarnir tveir eru titlaðir fyrir verkinu, en það er bersýnilega afurð breiðari hóps því dæmin spanna sögu, landafræði, jarðfræði, líffræði og læknisfræði.  Það er slatti af sérenskum atriðum, byggð á sögu eða tungumáli, sem auðvelt er að fletta yfir ef áhuginn dofnar. Önnur viðfangsefni eru ekki nægilega vandlega unnin, sumar fullyrðingar þeirra eru hreinlega rangar (sem er sérstaklega vandræðalegt fyrir þátt sem gerir sig út fyrir að afhjúpa fávisku). Nærtækt dæmi er umfjöllun um banana-framleiðslu-lýðveldið Ísland.

En bókin er afbragð aflestrar, læsileg og upplýsandi. Þótt að einhverjar staðreyndir misfarist þá virkar hún jafnvel sem uppspretta spurninga og boðberi sannleikans. Mikilvægasta atriðið er að gera okkur meðvituð um að þekking okkar á veröldinni er ófullkomin. Það er nefnilega hættulegra að vera viss um eitthvað rangt, en að vera óviss.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eru líka búinn að gefa bók númer 2. 

http://qi.com/

 http://www.youtube.com/watch?v=yEOjNZ67iQg&feature=results_video&playnext=1&list=PL2DADEF4F38BB1C29

Þessi þáttur var mjög skemmtilegur sérstaklega að því að það er fjallað um Ísland.

Arnar Magnússon (IP-tala skráð) 26.3.2012 kl. 12:08

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir ábendinguna Arnar og tengilinn!

Ég fékk reyndar uppfærða (the noticably stouter) útgáfu af bókinni um almenna fávisku, en mun ná mér í þessa nýju þegar hún kemur í bóksölu stúdenta.

Arnar Pálsson, 26.3.2012 kl. 13:55

3 Smámynd: Rebekka

Þetta er ótrúlegt þetta með bananalandið Ísland og virðist vera langlíf mýta.  Ég man svo vel eftir því, þegar ég fór eitt sumarið til Nýja-Sjálands og dvaldi þar í skóla í 4 mánuði.  Þar lenti ég á spjalli við einn strák og hann spurði mig einmitt að þessu!  "Er það ekki Ísland sem ræktar einna mest af bönunum í Evrópu?"  Þetta var árið 1995!  Ég er þess vegna mjög hissa á að þessari "staðreynd" hafi enn verið haldið fram árið 2006. 

Hvaða hrekkjalómur ætli hafi komið þessum orðrómi af stað? 

Rebekka, 26.3.2012 kl. 16:00

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Einhver túristi sem datt inn í gróðurhús í Hveragerði, með réttum leiðsögumanni?

Heyrði þetta líka í Ameríku.

Mig grunar að þetta hafi laumast í einhverja landafræði - þjóðfræðibók og síðan öðlast sjálfstætt líf.

Arnar Pálsson, 26.3.2012 kl. 16:41

5 Smámynd: Páll Jónsson

Snilldarþættir og snilldarbók.

Páll Jónsson, 27.3.2012 kl. 16:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband