29.8.2012 | 09:37
Þróun í hellum
Rannsóknir á þróun lífsins eru stundaðar á margvíslegan hátt. Hægt er að kanna hvernig skyldar tegundirnar eða stofnar breytast vegna umhverfisþátta. Nálgunin byggist á því að fylgjast með þróuninni þegar hún gerist.
Spurningin sem eftir stendur er hvort að þróunin leiti alltaf á sömu brautir, eða hvort að það geti verið tilviljun háð hvaða lausn verður ofan á. Þetta má skýra með dæmi. Hvað gerist þegar stofn fiska kemur í nýtt umhverfi, þar sem lítil fæða er í boði og hitinn lágur? Búast má við hraðari kynþroska, að fiskarnir verði minni og e.t.v. breytingum á formi þeirra.
Þetta er einmitt það sem gerist í bleikjustofnum hérlendis, í litlum tjörnum og hellum. Bjarni Kr. Kristjánsson, Prófessor við Hólaskóla, hefur rannsakað dvergbleikjur hérlendis undanfarin ár, og nú byrjað að kanna hellableikjuna við Mývatn sem Árni Einarsson og félagar við Náttúrurannsóknarstöðina á Mývatni hafa kortlagt.
Hellableikjan er sérstök að því leyti að umhverfis Mývatn eru margar tjarnir í hraunhellum, og í mjög mörgun finnast dvergvaxta hellableikjur. Þetta er sérstaklega heppilegt fyrir rannsóknir á þróun, af því að mögulegt er að í hverjum helli hafi einangrast stofn sem þróist sjálfstætt. Hellableikjan gæti því verið nokkurskonar náttúruleg tilraun í þróunarfræði, svona dálítið eins og þegar fólk gerir tilraunir í 10 aðskildum túbum af bakteríum á tilraunastofunni.
Fyrstu niðurstöður úr rannsókn Bjarna og félaga voru ræddar í fréttum Rúv 26. ágúst síðastliðinn (Hellableikja rannsökuð í Mývatni.). Þar segir Bjarni frá því að erfðafræðilegur munur hafi fundist milli hellana (25 voru skoðaðir), sem bendir til þess að í þeim séu "erfðafræðilega aðgreindir stofnar af bleikju, þeir eru margir hverjir mjög litlir (50 veiddir)". Fiskarnir eru einnig frekar svipaðir að útliti, sem er vísbending um að samskonar aðlaganir hafi orðið í mismunandi hellum við vatnið.
Spurningarnar sem fyrirhugað er að rannsaka í framhaldinu (með orðum fréttamans RÚV) er "Hvenær og hvernig bleikjan komst í hellana?" og "Hvernig eru hún erfðafræðilega skyld bleikjunni í vatninu og innbyrðis?"
Bjarni er ungur og upprennandi vísindamaður sem fékk einmitt nýstirnisverðlaun Líffræðifélagsins árið 2011.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Dægurmál, Erindi og ráðstefnur | Breytt s.d. kl. 09:43 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Þetta er vissulega áhugavert.
Litil genamengi búin að króa sig af í hellum.
Og vekur upp nokkrar spurningar, t.d.þessar:
1. Er ástæða til að ætla að nokkrar af þessum hellabúableikjum þróist í að verða bona fide tegund, að gefnum löngum tíma? (Líkt og virðist hafa átt sér stað með síklurnar í Tanganíka-vatni).
2. Er vitað hvort hellableikjurnar geti makast við aðrar bleikjur í vatninu, þannig að úr verði frjó afkvæmi?
3. Hefur farið fram einhver rannsókn á morfólógískum skyldleika við dvergbleikjuna í Þingvallavatni?
Mér sýnist hér vera á ferðinni svo markverð uppgötvun að nægi í margar doktorsritgerðir.
Jóhann (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 23:39
Jóhann.
Ég myndi frekar orða þetta. Lítil genamengi króast af í hellum. Króa sig af, gefur til kynna að þeir hafi farið í hellana vísvitandi og meðvitandi.
1. Það er ekki útilokað að þeir geti orðið að þvottekta tegundum, að nægilega löngum tíma liðnum.
2. Þetta er ekki vitað, en Bjarni og félagar hafa örugglega áhuga á að kanna þetta nánar.
3. Margar rannsóknir hafa farið fram á dvergbleikjum, skoðaðu rannsóknir Bjarna, Sigurðar Snorrasonar, Hilmars J. Malmquist og Skúla Skúlasonar (svo einhverjir séu nefndir)
http://www.natkop.is/
http://luvs.hi.is/is/users/sigsnor
Arnar Pálsson, 30.8.2012 kl. 13:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.