Leita í fréttum mbl.is

Erindi: Kerfislíffræði og sameindaræktun

Mig langar til að benda fólki á tvö erindi um líffræði í þessari viku, bæði um mjög framsækin efni.

Einar Mäntylä frá ORF líftækni mun fjalla um Sameindaræktun í erindi fimmtudaginn 13. september, kl. 12:20, í bókasafni Tilraunastöðvarinnar.

Með sameindaræktun er venjulega átt við notkun plantna sem framleiðslulífvera fyrir verðmætar sameindir, einkum prótein, með hjálp erfðatækni. Í erindinu verður fjallað um ýmsar hliðar sameindaræktunar  og uppbyggingu sameindaræktunar hér á landi. Margvíslegur árangur hefur náðst frá því að menn fyrst sáu fyrir sér hagkvæma framleiðslu stórsameinda með þessum hætti. Eins og aðrar greinar líftækni byggir sameindaræktun á bæði grunn- og hagnýtum rannsóknum í lífvísindum.  Leiðin frá grunnrannsóknum, um tækniyfirfærslu til hagnýtingar í atvinnulífi og verðmætasköpunar í samfélaginu getur verið löng og torfær. En hún er fær.

 

Síðan mun Steinn Guðmundsson fjalla um efnaskiptalíkön, byggð á blágrænþörunginum Synechocystis í föstudagsfyrirlestri líffræðistofu (14. september 2012, kl 12:30, í stofu 130 í Öskju Náttúrufræðahúsi HÍ).
Steinn er lektor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild HÍ og stundar rannsóknir sínar á kerfislíffræðisetri HÍ. Þar hefur að undanförnu verið unnið að rannsóknum á þörungum þar sem markmiðið er að nota þá til að binda koldíoxíð í útblæstri jarðvarmavirkjana og framleiða jafnframt verðmæt efni. Þetta má gera á hagkvæman máta með því að nýta ljósdíóður (LED) til lýsingar.
Við rannsóknirnar eru m.a. notuð stærðfræðileg líkön af efnaskiptum lífveranna, þ.á.m. ljóstillífun. Í þessum fyrirlestri mun Steinn lýsa gerð líkans af efnaskiptum blágrænþörungsins Synechocystis PCC6803 og hvernig nota megi líkanið til að spá fyrir um áhrif ljósmagns á vöxt, afleiðingar þess að slá út gen ofl. Í lokin mun hann fjalla um hvernig slík líkön geta nýst við að hönnun á erfðabreyttum lífverum.
steinng_likan_ljostillifun.pngMynd af líkani um ljóstillífun, himnur, prótín og efnaskipti er fengin frá Steini Guðmundssyni (höfundarréttur er hans).

Önnur erindi líffræðistofu haustið 2012 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir. Nemendur eru sérstaklega hvattir til að mæta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið væri gaman að sjá þetta tekið upp og sett á netið fyrir okkur landsbyggðapakkið ;)

Jónsi (IP-tala skráð) 11.9.2012 kl. 11:09

2 Smámynd: Arnar Pálsson

ég skal athuga málið, það hefur verið flókið að gera slíkt en vel má vera að tæknin sé orðin þjálari.

Arnar Pálsson, 12.9.2012 kl. 10:34

3 identicon

Háskólinn er ótrúlega eftirá með þetta. Það var tekin upp nánast hver einasti tími á Hvanneyri þegar Jónína var þar í námi.

Jóhannes (IP-tala skráð) 12.9.2012 kl. 23:12

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Jónsi

Því miður tókst okkur ekki að koma þessu í gang, myndbandsupptökur eru dýrar, en það er e.t.v. leið til að taka upp hljóðrás og setja slæður með málflutningi á netið. SBR. erindi náttúrufræðistofnunar á Youtube.

Þá missir fólk reyndar af leikrænum tilburðum, teikniæfingum og líkamstjáningu sem oft miðla inntaki erindis (eða geðrænum veilum lesara).

Arnar Pálsson, 18.9.2012 kl. 14:35

5 identicon

Ég myndi pottþétt fylgjast með slíkum erindum á youtube og þykist vita af fleiri áhugasömum í kringum mig allavega hérna í líftækninni fyrir norðan, ég vissi reyndar ekki af þessari síðu náttúrufræðistofnunar en gerist hér með áskrifandi.

Jónsi (IP-tala skráð) 19.9.2012 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband