Leita í fréttum mbl.is

Tasmaníuskollinn og árásargirnin

Tasmaníuskollinn (ekki djöfull) þjáist af sérkennilegri meinsemd. Smitandi krabbamein hefur breiðst út í stofninum og ógnar tilvist hans. Eins og við höfum áður fjallað um (Smitandi krabbamein).

Um er að ræða rándýr af ætt pokadýra (Marsupials) sem er bundið við eyjuna Tasamaníu, sunnan Ástralíu. Á skollann herjar smitandi krabbamein, sem berst dýra á milli í gegnum skurði og sár í andliti þeirra. Hegðun þeirra og samskipti ýta undir þessa farsótt, því skollarnir eru sífellt að slást, rífa og bíta hvorn annan í andlitið. Það leiðir til þess að frumur flytjast á milli, og þar á meðal frumur sem leiða til myndunar æxla í andliti skollanna.

tasmaniuskolli_mai2010.jpg Mynd af Tasmaníu skolla tók Arnar Pálsson, í dýragarði Kaupmannahafnar 2010 - copyright.

Erfðagreining á æxlunum sýnir að þau eru af annarri arfgerð en hýslarnir, og með því að reikna þróunartré sést að þau eru öll af sama meiði. Gögnin benda til þess að smitandi krabbameinsfrumur hafi orðið til einu sinni.

Hin nýja rannsókn sem morgunblaðið fjallar um sýnir að eldri skilningur á eðli samskipta dýranna og smitsins var ekki réttur. Það eru nefnileg dýrin sem eru minnst bitin, sem eru líklegust til að fá krabbameinið.

Rannsókn Rodrigo Hamede og félaga (sem birtist í British Ecological Society's Journal of Animal Ecology) bendir til að árásagjörnustu dýrin séu í mestri hættu. Þau ráðast á aðra, bíta í æxli þeirra og smitast þannig. Mest smithætta er þegar dýr bítur í æxli, ekki þegar dýr með æxli bítur annað.

Þetta er hin nýja þekking sem rannsóknin leiddi í ljós, nokkuð skýr í titli fréttar CNN en furðulega hulinn í meðförum mbl.is.

Hamede og félagar komust að þessu með því að fylgjast með skollum á tveimur svæðum í Tasmaníu, yfir 4 ára tímabil. Einnig kom í ljós að smitið var mun fátíðara á öðrum staðnum, sem gæti verið vísbending um að farsóttin sé í rénum. Ástæðan gæti verið sú að þar herji vægara afbrigði krabbameinsins, eða að þar hafi þróun átt sér stað í stofni skollana.

Það er nefnilega viðbúið að tíðni arfgerða sem kynda undir árásargirni muni dvína í stofninum, meðan krabbameinið er svona algengt. Með öðrum orðum, lögmál Darwins um náttúrulegt val gæti orðið Tasmaníuskollanum til bjargar. Eins gott að skollin sé ekki hallur undir teboðið, því annars væri hann í vandræðalegri klemmu milli náttúrlögmáls og trúarlegrar sannfæringar.

Ítarefni.

Grein Oliviu Judson í New York Times, Cancer of the Devil 14 okt. 2008.

Tasmanian Devils' best hope for survival could rest on being less ferocious CNN 2012.

BES press release: Less ferocious Tasmanian devils (3. sept 2012)


mbl.is Krabbamein í Tasmaníudjöflum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband