24.10.2012 | 11:31
Athugasemdir vegna þingsályktunartillögu um bann við útiræktun erfðabreyttra lífvera
Í þessu samhengi. Eftirfarandi bréf var sent nefndasviði Alþingis 141.
Varðar, löggjafarþing 20122013, þingskjal 196 193. mál
Athugasemdir vegna þingsályktunartillögu um bann við útiræktun erfðabreyttra lífvera.
Í upphafi árs 2011 var lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um útiræktun á erfðabreyttum lífverum (þskj. 737 450. mál) þar sem gert var ráð fyrir að skipaður yrði starfshópur til að vinna að breytingum á lögum og reglugerðum með það að markmiði að banna útiræktun á erfðabreyttum lífverum. Í kjölfarið bárust Alþingi mótmæli 37 sérfræðinga í erfðafræði og skyldum greinum. Tillagan náði ekki fram að ganga það árið en var lögð fram í breyttri mynd í upphafi árs 2012 (þskj. 1073 - 667. mál). Greinargerðin var í það skiptið nokkuð styttri en í fyrstu útgáfu. Þannig höfðu tilvísanir í greinar í dagblöðum vikið fyrir mun styttri greinargerð um ástæðu þess að banna ætti útiræktun erfðabreyttra lífvera. Enn á ný sendu vísindamenn Alþingi mótmæli og bentu á að ekkert hefði í raun breyst frá því að tillagan var fyrst lögð fram í upphafi árs 2011 og aftur dagaði tillagan uppi.
Þessi sama tillaga hefur nú birst í þriðja sinn (þskj. 196 - 193. mál). Röksemdir flutningsmanna fyrir mikil-vægi þess að tillagan nái fram að ganga eru þær sömu nú og í upphafi árs 2012. Í greinargerð með tillögunni segir: Að mati flutningsmanna er nauðsynlegt að leggja af útiræktun á erfðabreyttum plöntum til þess að vernda hreinleika íslenskrar náttúru og með tilliti til siðferðislegrar skyldu núlifandi kynslóðar til að koma í veg fyrir að einkenni hennar glatist. Þessu til stuðnings vísa flutningsmenn tillögunnar til varúðarreglunnar og alþjóðlegra samninga á borð við Cartagena-bókunina um líföryggi, Codex Alimentarius og Árósa-samninginn.
Í ljósi þess að á Íslandi eru engar villtar tegundir, sem skyldar eru þeim nytjaplöntum sem ræktaðar eru hérlendis, verður að telja það langsótt í meira lagi að áhrif útiræktunar á erfðabreyttum lífverum komi fram á hreinleika íslenskrar náttúru. Þannig er ekki ljóst af greinargerð þeirri sem fylgir þingsályktunartillögunni hvernig útiræktun á erfðabreyttum lífverum getur skaðað hreinleika íslenskrar náttúru eða valdið því að einkenni hennar glatist umfram áhrifin af hefðbundnum landbúnaði. Í greinargerðinni er til stuðnings fyrirhuguðu banni vísað í alþjóðasamninga og -bókanir. Ekki verður séð í fljótu bragði hvernig þessir samningar styðja bann við útiræktun erfðabreyttra lífvera. Til dæmis má nefna að í Cartagena-bókuninni um líföryggi (Cartagena Protocol on Biosafety), sem er viðbót við Samninginn um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity), segir, í lauslegri þýðingu, að aðilar að bókuninni "[v]iðurkenni að nútíma líftækni hefur mikla möguleika fyrir velferð mannkyns ef þróuð og notuð með fullnægjandi varúðar-ráðstöfunum fyrir umhverfi og heilsu" (modern biotechnology has great potential for human well-being if developed and used with adequate safety measures for the environment and human health). Hvergi í bókuninni er hvatt til banns við útiræktun erfðabreyttra lífvera. Ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur, sem m.a. gegnir hlutverki umsagnaraðila um umsóknir til útiræktunar á erfðabreyttum lífverum, hefur tryggt faglega umfjöllun um hverja og eina umsókn. Í bréfi til nefndasviðs Alþingis 10. febrúar 2011 frá 37 sérfræðingum í erfðafræði og skyldum greinum vegna þingsályktunartillögu sama efnis komu m.a. fram eftirfarandi athugasemdir: Við teljum að tillaga þessi sé með öllu óþörf enda gilda þegar ströng lög og reglur um erfðabreyttar lífverur á Íslandi. Meðal annars starfar sérstök nefnd sem fer yfir hverja erfða-breytingu fyrir sig og metur hana og áhættuna af henni í hverju tilviki á vísindalegum forsendum.
Síðan tillaga þess efnis að leggja bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum kom fyrst fram í upphafi árs 2011 hefur ekkert breyst sem gefur tilefni til þess að taka málið fyrir að nýju. Við undirrituð andmælum því tillögunni.
Virðingarfyllst:
Áslaug Helgadóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands
Eiríkur Steingrímsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands
Jón Hallsteinn Hallsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands
Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands
Aðalsteinn Sigurgeirsson, skógerfðafræðingur og forstöðumaður Rannsóknastöðvar Skógræktar Mógilsá
Anna K. Daníelsdóttir, stofnerfðafræðingur
Arnar Pálsson, dósent við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands
Árni Bragason, forstjóri NordGen - Norræna Genbankans
Ástríður Pálsdóttir, sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og aðjúnkt, læknadeild Háskóla Íslands
Björn Sigurbjörnsson, plöntuerfðafræðingur og fv. ráðuneytisstjóri
Edda B. Ármannsdóttir, sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Edda Sigurdís Oddsdóttir, jarðvegslíffræðingur Rannsóknastöð Skógræktar Mógilsá
Eggert Gunnarsson, dýralæknir við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Emma Eyþórsdóttir, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands
Erna Magnúsdóttir, sérfræðingur við læknadeild Háskóla Íslands
Guðbjörg Inga Aradóttir, skordýrafræðingur við Rothamsted Research, Bretlandi
Guðmundur Eggertsson, prófessor emeritus við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Guðmundur Óli Hreggviðsson, lektor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Guðmundur Pétursson, prófessor emeritus við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Guðmundur Þorgeirsson, prófessor og deildarforseti læknadeildar Háskóla Íslands
Guðni Þorvaldsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands Halldór Sverrisson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands og sérfræðingur hjá Rannsóknastöð Skógræktar Mógilsá Hólmgeir Björnsson, prófessor emeritus við Landbúnaðarháskóla Íslands
Ingibjörg Harðardóttir, prófessor í lífefna- og sameindalíffræði við læknadeild Háskóla Íslands
Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent og deildarforseti auðlindardeildar Landbúnaðarháskóla Íslands
Jónatan Hermannsson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands og tilraunastjóri á Korpu
Jórunn E. Eyfjörð, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar
Kristinn P. Magnússon, prófessor við Háskólann á Akureyri og sérfræðingur í sameindaerfðafræði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
Kristín Ólafsdóttir, eiturefnafræðingur og deildarstjóri við Rannsóknarstofu í Lyfja- og eiturefnafræði, læknadeild Háskóla Íslands
Margrét Helga Ögmundsdóttir, nýdoktor við læknadeild Háskóla Íslands
Már Másson, prófessor við lyfjafræðideild Háskóla Íslands
Oddur Vilhelmsson, dósent við Háskólann á Akureyri
Ólafur H. Friðjónsson, Dr.rer.nat. sérfræðingur
Ólafur I. Sigurgeirsson, lektor við fiskeldisdeild Hólaskóla
Ólafur S. Andrésson, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Pétur Henrý Petersen, lektor við læknadeild Háskóla Íslands
Sigríður Guðmundsdóttir sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Sigurður Guðmundsson, sérfræðingur í lyflækningum og smitsjúkdómum, Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands
Snæbjörn Pálsson, dósent við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Stefán Þ. Sigurðsson, dósent við læknadeild Háskóla Íslands
Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri erfðarannsókna, Íslenskri erfðagreiningu og rannsóknardósent við læknadeild Háskóla Íslands
Vala Friðriksdóttir, deildarstjóri Bakteríu-, sníkjudýra- og meinafræðisviðs Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Þórarinn Guðjónsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands
Þórdís Anna Kristjánsdóttir, sérfræðingur við Landbúnaðarháskóla Íslands
Þóroddur Sveinsson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands og tilraunastjóri á Möðruvöllum
Þórunn Rafnar, framkvæmdastjóri krabbameinsrannsókna, Íslenskri erfðagreiningu
Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóganna, Skógrækt ríkisins
Ekki sýnt fram á skaðsemi erfðabreytts maíss | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Ég hef einhvern tímann minnst á þetta áður hérna, en hún er furðuleg þessi flokkaskipting varðandi vísindahræðslu. Vinstrimenn eru hræddir við erfðavísindi, lyfjafræði og rafsegulbylgjur, hægrimenn við hnatthlýnun, þróunarlíffræði og stjörnufræði.
Ég gæti örugglega skipt fólki í pólítíska flokka með svona 85% nákvæmni bara með því að spyrja það um vísindi.
Páll Jónsson, 24.10.2012 kl. 16:19
Það hlýtur þá að vera rétt skilgreint hjá mér þegar ég segist standa við miðjuna í pólitík.
Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 24.10.2012 kl. 20:12
Páll
Hún er sannarlega forvitnileg, og ræðst etv af mismunandi vægi gilda meðal fólks á sitthvorum enda skalans.
Hins vegar held ég að þú hafir bent á lykilatriði, óttann.
Þetta eru nefnilega ekki bara efasemdir, heldur virðist þetta oft grundvallast á ótta.
Ingibjörg
Eins og mörgæsirnar vita þá er þægilegast í miðjunni.
Arnar Pálsson, 25.10.2012 kl. 10:14
Já, þessi hræðsla við vísindi og skipting hennar hægri og vinstri er undarleg...
Ingibjörg - þú hlýtur að vera hægra megin, er það ekki rétt munað hjá mér að þú ert skeptísk á loftslagsvísindi? Kannski er það misminni.
Höskuldur Búi Jónsson, 25.10.2012 kl. 13:16
Höskuldur,
mín einlæga skoðun er sú að hvort sem það sé að eiga sér stað hlýnun af mannavöldum eða ekki, þá töpum við ekkert á því að gera eitthvað í málunum.
Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 25.10.2012 kl. 14:13
Enginn er með rétta vinkil á öll mál.
Og fólki er frjálst að skipta um skoðun, sérstaklega ef það er tilbúið að horfast í augu við þá staðreynd og viðurkenna (margir sópa bara yfir fortíðina og þykjast ekkert kannast við sitt fyrra sjálf).
Ég var t.d. innvígður í jógareglu í kringum tvítugt, Ómaði og gerði margslungnar öndunaræfingar, gleypti allskonar bull um eilífar sálir og alheimslega vitund.
Það er beinagrind sem ég þarf að dansa með alla tíð...
Arnar Pálsson, 25.10.2012 kl. 17:06
Skalt geyma dansinn og geyma hana bara inn í skáp eins og við hin!
Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 25.10.2012 kl. 20:29
Höskuldur Búi Jónsson, 25.10.2012 kl. 22:30
Ég er þeirrar skoðunar að fyrirtæki séu almennt vanhæf til þess að lagfæra skaða af náttúruspjöllum ef það er of dýrt. Hvað stendur eftir ef "lítil" áhætta verður að raunveruleika? eru menn tilbúnir í persónulega ábyrgð, missa rétt til að bera háskólagráður, sitja inni osfrv?
Það sem ég er að meina er eins konar handveð þjóðarinnar í ábyrgðaraðilum ef allt fer á verri veg? Vistkerfi og samfélög hafa oftar en ekki öðru en fjármagni að tapa ólíkt fyrirtækjum.
Sveinn Ríkarður Jóelsson, 29.10.2012 kl. 15:40
Sæll Sveinn
Það mætti útvíkka upphafssetningu þína í :
Þá myndi þessi skoðun ganga jafnt yfir alla, einstaklinga, félagasamtök, fyrirtæki og stjórnvöld. Eða finnst þér að fyrirtæki eigi að bera meiri ábyrgð en einstaklingar?
Þú notagildi þess að hafa handveð í framkvæmdaaðillum.
Aftur skírskota ég til jafnaðarreglu. Hví ættu sum fyrirtæki, eða fyrirtæki sem beita ákveðinni tækni að mæta strangari kröfum um handveð en önnur?
Eins og staðan er núna, er erfðatæknin í spennitreyju, á meðan allskonar nýaldarvísindi blómstra undir lífrænum heilsuhatti.
Arnar Pálsson, 30.10.2012 kl. 08:56
Fyrirtæki bera oft minni ábyrgð en einstaklingar, hvenær skiptir þú um kennitölu síðast, eða eru fyrirtæki í fangelsi? Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þetta eigi að gilda um öll fyrirtæki, þ.e. að það þurfi einstaklinga til þess að bera ábyrgð á ytri kostnaði í þeim tilfellum sem hann reynist rekstrinum ofviða eða glæpsamlegur.
Mörg er dæmin um að fyrirtæki hafi verið notuð til þess að lágmarka persónulega áhættu einstaklinga og í slíku skjóli held ég að það reynist mönnum léttara að tala um litla áhættu út á við.
Fyrir almenning, sem oft hefur takmarkaðann skilning á tækni sem verið er að beita, þá gætu ábyrgðarákvæði á borð við þau sem ég er að hugsa um ef til vill dregið úr óttanum við það óþekkta. En þetta er bara hugmynd sem ég er með í kollinum, og mig grunar að ég sé ekki einn um hana.
Það er margur iðnaður í spennitreyju og oftast vegna þess að flestir vilja það, það er ekki nýtt. Fyrir mig þá eru lífrænar afurðir "siðrænni" en margar aðrar en hafa lítið með daglega heilsu mína að gera, þær tákna öruggari leiðina fyrir mig.
Eins og þú þá féll ég einu sinni fyrir „nýöldinni“ um tíma en held ég hafi jafnað mig. Ég vill þó meina að hagnaðarvonin hafi valdið samfélögum, vistkerfum og fólki töluvert meiri þjáningu, einkum ef hún fær að blómsta óheft.
Sveinn Ríkarður Jóelsson, 30.10.2012 kl. 09:41
Bandarískur læknir segir að með því að sneiða hjá hveiti dragi úr hitaeininganeyslu um 400 á dag því prótínið glíatín, sem finnst í nútíma hveiti, virki eins og ópíum á heilann og auki matarlyst.
Nútíma hveiti er "fullkomið, krónískt eitur", að sögn bandarísks hjartalæknis, dr. William Davis, sem hefur gefið út bók um þessa vinsælustu korntegund heims, Wheat Belly, eða hveitibumba.
Davis segir að hveitið sem ræktað er í dag sé ekki hið sama og ömmur og afar okkar gæddu sér á. "Hveitið sem ræktað er í dag er afsprengi erfðarannsókna sem gerðar voru á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar," segir Davis. Ástæðan fyrir erfðarbreytingu hveitisins er fyrst og fremst sú að gera kornið auðræktanlegra.
"Þetta nútíma hveiti hefur marga eiginleika sem fólki er almennt ekki sagt frá, til að mynda að í því er prótein sem nefnist glíadín, sem er breytt frá því áður," segir hann.
Glíadín virkar eins og ópíum á heilann, að sögn Davis. "Það binst ópíumviðtökum í heilanum og eykur matarlyst hjá flestu fólki á þann hátt að við neytum 440 fleiri hitaeininga á dag" bendir hann á.
Davis færir rök fyrir því að glíadín geti orsakað hegðunarbreytingum hjá börnum með ADHD og einhverfu og segir það geta aukið einkenni hjá fólki með geðhvörf. Einnig geti það ýtt undir maníu hjá ,,bipolar" einstaklingum.
Hann segir að rekja megi þróun offitu í Bandaríkjunum meðal annars til neyslu á þessu nútíma hveiti og áhrifum glíadíns. Ekki eingöngu þó, því einnig hafi aukin neysla maíssýróps með háu frúctósainnihaldi (e. high-fruc-tose corn syrup) mikið að segja, sérstaklega meðal ungra karla. En mynstrið er greinilegt, að hans sögn.
Það er margt að athuga. Kapp er best með forsjá.
Öfgafullur áróður af öllu tagi, er líklega hættulegastur, því fólk verður röklaust heilaþvegið af slíku.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 30.10.2012 kl. 10:14
Anna Sigríður
Þú villt ræða hveiti og landbúnaðarbyltinguna, og gerir það með tilvitnun (sem þú reyndar gafst ekki) í óundirskrifaðan pistili í Fréttatímanum (28.9.2012).
Það er vitað að samfara landbúnaðarbyltingunnii fór að bera á skorti á ákveðnum næringarefnum í fæðu. Vannæring vegna of einhæfrar fæðu, (bara hveiti var fáanlegt) var alvarlegt vandamál.
Nú til dags borðum við fjölbreyttari og ríkulegri fæðu, á vesturlöndum amk. Það að teikna hveiti sem einhvern bölvald er frekar áróðurskennd einföldun, þótt vera megi að ekki þoli það allir jafnvel og aðrir.
Mannkynið hefur nefnilega bara haft 10.000 ár til að aðlagast hveitineyslu, og viðbúið að einhverjir einstaklingar séu erfðafræðilega óheppnir og þoli þá fæðu illa.
Annars lyktar þessi Davis bók sem týpísk heilunarnæringarþerapíubiblía, og Emily Deans á Evolutionary Psychiatry er mjög gagnrýnin á skrifin.
http://evolutionarypsychiatry.blogspot.com/2011/10/slam-dunked-and-wheat-belly.html
Er bók hans dæmi um umræðu eða áróður?
Arnar Pálsson, 30.10.2012 kl. 12:24
Takk Sveinn fyrir greinagott svar
Það hefur reyndar verið umræða um hvernig sporna megi við kennitöluflakki, sem er séríslenskur blettur.
En það firrir ekki fyrirtæki eða stjórnendur þeirra ábyrgð. Ef þau fremja glæpi, á að vera hægt að stefna þeim.
Varðandi tæknina, þá skil ég hvorki farsíma né spjaldtölvur, en mun ekki beita mér fyrir því að þeir verði bannaðir. Það er eðlilegt að óttast hið óþekkta, og í heimi nútímans eru margar óþekktar stærðir og tæknir. En við verðum að passa okkur á því að falla ekki í fornaldardýrkun (almennt talað, ekki beint til þín!) bara vegna ótta við hið óþekkta.
Ég er einnig hallur undir lífræna ræktun, en hún eins og annar landbúnaður hefur sínar slæmu afleiðingar.
Til að búa til lifrænt gras, þarf meira land en þegar tilbúinn áburður er notaður. Lífrænn landbúnaður krefst því meira lands á framleidda einingu af fæðu.
Lífrænt grænmeti er fjöldaframleitt í eyðimörkum Mexíkó, með því að pumpa upp grunnvatni og vökva eyðimörkina. Öllum skilyrðum um lífræna ræktun er uppfyllt, en afleiðignarnar eru þurrkur og landeyðing á svæðunum umhverfis. Lífrænt en ekki sjálfbært.
Næringarlega er enginn munur á lífrænu grænmeti og hefðbundu. Þær leifar af skordýraeitri sem eru á hefðbundnu grænmeti eru ekki nægum styrk til að hafa áhrif á heilsu fólks.
Arnar Pálsson, 30.10.2012 kl. 12:32
Úr the Guardian Organic food: nutrition study
Arnar Pálsson, 30.10.2012 kl. 12:38
Arnar. Ekki veit ég hvort þessi bók Davis, (sem ég las réttilega um í Fréttablaðinu), er dæmi um umræðu eða áróður. Ég skil ekki hvers vegna þú spyrð mig að því? Hvers vegna skrifar þú ekki svargrein í Fréttablaðið, með þínum spurningum og rökum?
Ég vil einungis að allar hliðar mála séu upplýstar og rökræddar. Ég hef ekki trú á áróðurslausnum af neinu tagi.
Það er flestum ljóst, að staðreyndum um eiturefni og ó-upplýstar sannaðar afleiðingar hefur verið, og er enn, skipulega haldið leyndum fyrir almenningi.
Getur þú útskýrt fyrir mér hvers vegna það er gert?
Svo get ég sagt þér þá sannreyndu staðreynd, að raunverulega rétt ræktuð lífræn matvæli eru hollari og meir heilsubætandi fyrir mig. Ef þú vilt ekki trúa mér, þá get ég ekki annað en virt þá skoðun þína.
Ég hef ekki verið þáttakandi í einhverri vísindakönnun pólitískra öfga-afla, og tjái mig einungis út frá eigin reynslu. Það þykir víst ekki öllum nógu fín sönnun í "vísindalegri" sönnunar-ævintýramennsku heimsveldis-stjórnsýslunnar.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 31.10.2012 kl. 17:46
Sæl Anna
Vera má að ég sendi skeyti í Fréttatímann, en ef maður ætlar að eltast við öll hjávísindin sem birtast í íslenskum miðlum þá entist manni ekki ævin.
Ég er fyllilega sammála þér þegar þú segir:
Hins vegar get ég ekki samþykkt næstu setningu á eftir.
Þetta er stór staðhæfing. Jafnvel þó að sum fyrirtæki eða einstaklingar hafi haldið leyndum upplýsingum, þýðir það ekki að ÖLL fyrirtæki og einstaklingar geri það. Að halda slíku fram er rökleysa...og lyktar af einhliða áróðri.
Varðandi muninn á lífrænum mat og hefðbundnum, þá eru vísindi besta leiðin til að meta þá spurningu. Ég vil ekki gera lítið úr þinni upplifun og hvet þig til að borða holla og næringaríka fæðu.
Þú segir:
En sannleikurinn er sá að t.d. sögðu margir reykingarmenn að þeir gætu ekki lifað án sígaretta og að þeir upplifðu sig hressari og skarpari. Vísindin sýna hins vegar óyggjandi að reykingar eru slæmar fyrir heilsu (auka líkur á krabbameinum, lungnasjúkdómum, hjartaáföllum ofl.).
Þetta er eitt af því sem gerir vísindin óaðlaðandi fyrir fólk, þau tala bara um stóra mælanlega drætti en standa oft á gati gagnvart einstökum tilfellum (t.d. þegar þér líður betur á lífrænu grænmeti en hefðbundnu?, eða þegar einstaklingur deyr af óþekktum orsökum).
Ég vill þakka þér fyrir heiðarlega yfirlýsingu um það hvernig vísindasamfélagið birtist þér ("vísindalegri" sönnunar-ævintýramennsku heimsveldis-stjórnsýslunnar).
Það er mér áhyggjuefni hversu tröllsleg vísindin eru máluð (ekki endilega af þér!), og að traust á vísindamenn sé að dvína frá því sem áður var. Hluti af því er örugglega sök vísindamannanna sjálfra, hluti sprettur úr því að aðferð vísinda er flestum framandi, og hluti ástæðunar er sú að lobbísitar hafa kerfisbundið grafið undan trausti almennings á vísindum (samanborið áróður gegn loftslagsvísindum, gegn tengslum reykinga-og-krabbameins, gegn bólusetningum, gegn þróunarkenningunni).
Arnar Pálsson, 2.11.2012 kl. 09:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.