21.11.2012 | 13:41
Lífslíkur, litningaendar og heimildavinna
Hvað útskýrir lífslikur?
Svarið er, heilmargt.
Einn þáttur sem sýnir fylgni við lífslíkur er lengd litningaenda (e. telomere).
Litningaendar eru forvitnilegt fyrirbæri og þeir styttast þegar erfðaefnið er eftirmyndað við skiptingar fruma. Þetta er auðvitað vandamál því frumur lífvera eru alltaf að eftirmynda sig. Frumur líkamans skipta sér oft og mörgum sinnum, samanber endurnýjun húðarinnar. En ef litningaendarnir styttast of mikið geta mikilvæg gen skaddast eða hreinlega horfið.
Elisabeth Blackburn uppgötvaði telomerasa sem viðheldur litningaendum. Telomerasi er flóki RNA og prótíns og sem er nauðsynlegur til að viðhalda erfðamengi kynfruma, en það er sjaldan til staðar í venjulegum frumum líkamans. Skortur á virkni flókans er talin vera ein ástæða þess að frumur eldast og deyja. (umritað úr (Þýðingarþjónusta mbl.is).
Nýleg rannsókn bendir til þess að hægt sé að spá fyrir um aldur einstaklinga með blóðsýni og mælingu á lengd litningaendanna. Rannsóknin sem um ræðir (og kynnt er í mbl.is Hægt að meta lífslíkur með blóðprufu), var reyndar framkvæmd á spörfuglum en ekki mönnum. Það er í sjálfu sér ekkert stórvægilegt atriði, því líffræði fugla og spendýra er áþekk að mörgu leyti. Þróunarlegur skyldleiki lykilferla er iðullega hagnýttur í líffræðilegum rannsóknum, telómerasinn sjálfur var t.d. fyrst uppgötvaður í frumdýri.
Telomere length and dynamics predict mortality in a wild longitudinal study Emma L. B. Barrett, Terry A. Burke, Martijn Hammers, Jan Komdeur, David S. Richardson Molecular Ecology DOI: 10.1111/mec.12110
Einhvernveginn tekst fréttamanni mbl.is hvorki að miðla þeirri staðreynd að rannsóknin var ekki gerð í mönnum, né því hverskonar fyrirbæri eru um að ræða. Sagt er í fréttinni:
Prófunin mælir meðallengd eininga í líkamanum sem nefnast telomeres en vitað er að þær styttast í hvert sinn sem fruma skiptir sér á líftíma lífveru. Lengd þessara eininga gerir vísindamönnum kleift að meta með nákvæmari hætti en áður raunverulegan líffræðilegan aldur en fyrri aðferðir.
Einhverjum kann að finnast þetta hártoganir hjá fræðimanni, að ekki skuli hafa verið nákvæmlega með farið. Málið er að litningaendar eru ekki bara áhugasvið fárra sérfræðinga. Nóbelsverðlaunin 2009 voru veitt fyrir rannsóknir á þeim (CCCCAA og Það hófst allt með...), og þeir eru mikilvægur þáttur í rannsóknum á öldrun og krabbameinum.
Það er ekki eins og Morgunblaðið eða mbl.is hafi ekki fjallað um þetta efni áður. Einföld heimildaleit á mbl.is eða google (með mbl.is morgunblaðið og telomere eða litningaendar) afhjúpaði nokkrar ágætar greinar á mbl.is um þetta efni. Það hefði verið hægðarleikur fyrir fréttamanninn að útskýra fyrirbærið betur, tengja við skyldar fréttir eða skaffa víðara samhengi. Því miður virðist enginn tími eða vilji fyrir slíkri heimildavinnu. En hví skyldi það vera, það er ekki eins og líf og dauða sé að tefla...
Viðbót: Viðtal var við Sigríði K. Böðvarsdóttur um litningaenda í morgunútvarpinu 27. nóv. 2012.
Greinar í mbl.is sem fjalla um litningaenda
Sigríður K. Böðvarsdóttir Langlífi og litningaendar - Mbl.is
2005 Reykingar og offita flýta öldrun erfðaefnis í fólki
2008 Hollir lífshættir hægja á öldrun
2008 Merkileg uppgötvun í krabbameinsrannsóknum
2009 Segja unglega_einstaklinga lifa lengur2009 Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir á litningum
Að auki má finna skelfilega skrumskælingu á fræðunum í Smartlandi (sem er alveg sérkapituli og Morgunblaðinu til skammar).
Guðrún Bergmann í Smartlandi Nokkrar mýtur um öldrun
Rannsóknir bæði í Bandaríkjunum og Evrópu hafa leitt í ljós að nánast hvaða hreyfing sem er, á hvaða aldri sem er, hjálpar til að vernda telomeres litlu hetturnar á endum krómósómana á endum hverrar frumu líkamans.
Hér standa litningarnir út úr endanum á hverri frumu líkamans. Það eru tíðindi fyrir heilkjörnunga, sem eru vanir því að geyma litninganna inni í kjarnanum. En heilkjörnunum er hollast að beygja sig undir lýsingar heilsuspekinganna, þeir eru jú að selja töfralausnirnar.
Hægt að meta lífslíkur með blóðprufu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 27.11.2012 kl. 16:13 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.