Leita í fréttum mbl.is

Vísindafréttir ársins 2012 samkvæmt Science magazine

Það eru fleiri en poppspekúlantar, íþróttafréttamenn og rósaræktendur sem líta yfir farinn veg í árslok.

Vísindatímaritið Science tilnefnir fund Higgseindarinnar sem vísindaafrek ársins 2012. Sem líffræðingur er ég ekki rétti maðurinn til að útskýra þá uppgötvun af neinu viti, en ég bendi áhugasömum á bókina Máttur tómarúmsins, higgseindin fundin (Higgs Discovery) eftir Lisu Randall sem Baldur Arnarsonar þýddi með liðsinni Sveins Ólafssonar (sjá stutta umfjöllun okkar).

Tímaritið ræðir einnig 9 aðrar uppgötvanir eða rannsóknir sem það telur með þeim merkilegri á árinu. Ég mun útlista örlítið nánar þær uppgötvanir sem tengjast líffræði.

Forn DNA úr útdauðum samtímamanni Neanderdalsmannsins.

Fyrir einstaka þrautsegju tókst nýdoktornum Matthias Meyer og samstarfsmönnum að ná mjög góðu erfðaefni úr einstöku beini sem fannst í Denisovan hellinum í Asíu. Fyrri rannsóknir höfðu bent til að um væri að ræða aðskilin meið á þróunartré manntegunda (homo). Eingöngu hafa fundist tvær tennur og eitt fingurbein úr þessari tegund mannfólks. Erfðaupplýsingar sýndu að fingurbeinið var úr brúneygðri og brúnhærðri stúlku, sem lifði fyrir uþb. 78000 árum. (sjá einnig kynslóð fram af kynslóð)

Markvissar erfðabreytingar á erfðamengjum

Erfðatæknin gerir fólki m.a. kleift að skadda ákveðin gen, eða setja heil gen í stað gallaðra. Nú til dags eru samt frekar fáar lífverur sem hægt er að erfðabreyta á þennan hátt, og það er mjög tímafrekt og dýrt. Það að búa til erfðabreytta mús er meiriháttar verkefni, sem stundum nægir í heilt doktorsverkefni. Ný aðferð, CRISPR auðveldar þetta að vissu leyti. Aðferðin byggir á að nýta sér Cas9 ensím úr bakteríum, sem notar RNA sameindir til að stýra því hvaða erfðaefni það klippir sundur. Með því að gefa Cas9 ákveðið RNA, sem samsvarar ákveðnum stað í erfðamenginu, er hægt að stýra klippingunni og erfðabreyta markvisst ákveðnum genum.

ENCODE - alfræðiorðabók frumunnar

Niðurstöður úr risavöxnu verkefni  voru birtar á árinu. Þar var könnuð lífvirkni erfðamengis mannsins, með því að skoða umritun erfðamengisins í fjöldanum öllum af ólíkum frumugerðum. Að auki var kannað hvaða prótín bundust og hvar, í erfðamenginu. En eins og alþjóð veit þá stýrir binding umritunarþátta því hvaða genum er kveikt á og slökkt. (Decode hvað, ENCODE er miklu stærra):

Ein aðalástæðan fyrir því að farið var út í ENCODE var sú að aðeins um 2% af erfðamengi mynda eiginleg prótín. Hitt dótið var að mestu óskilgreint, þegar erfðamengið var raðgreint fyrir rúmlega 10 árum.

featured-research.jpgMynd af gögnum úr ENCODE.

Vélarm stýrt með heilabylgjum

Skýrt var frá því að tekist hefði að tengja vélarm við heila konu sem lömuð var frá hálsi og niðrúr. Með því að koma fyrir neti skynjara á þeim hluta heilans sem stýrir hreifingu, og einhverjum æfingum, gat konan stýrt arminum að einhverju leyti. Sá galli er á gjöf njarðar að armar þessir eru frámunalega dýrir í framleiðslu (og auðvitað uppsetningu, það er enginn IKEA samsetning á skynjaraneti undir höfuðleðrið), og viðbragðið er frekar hægt. En þetta lofar engu að síður góðu.

Egg framleidd úr stofnfrumum

Japanskir vísindamenn skýrðu frá því í fyrra að þeim hefði tekist að rækta sæðisfrumur úr músa fósturstofnfrumum (Embryonic stem cells). Eggin voru fullkomin, eða amk tóku þau sæðisfrumum fagnandi og úr þroskuðust að því er virtist eðlilegar mýs. Ekki eru hafnar tilraunir á mönnum, enda er spurning hvort það sé siðferðilega rétt. Fyrst þarf að svara þeirri spurningu, viljum við frekar nota stofnfrumur til að búa til egg (eða sæði), en egg (eða sæði) frá gjafa? 

Aðrar uppgötvanir sem komust á lista Science, fjalla um lífefnafræði, eðlisfræði, verkfræði og stjörnufræði. Ég mæli með samantekt tímaritsins. 

Einnig tók the Guardian saman helstu vísindafréttir ársins 2012. Listinn tíundar nokkrar forvitnilegar vísindauppgötvanir og fréttir af vísindalegum toga (ATH. það er munur þar á), skemmtilega skreyttur flottum myndum. Stundum verða myndirnar aðalatriðið, en á öld sjónvarps og myndmiðla, er það alveg eðlilegt því líklega eru sjónstöðvar okkar mun virkari en forfeðranna sem horfðu bara á ský og dali.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband