Leita í fréttum mbl.is

Vel heppnað málþing um Tilviljun og nauðsyn

Þann 8. febrúar 2013 stóð Líffræðistofa HÍ fyrir málþingi um bók Jacques Monod Tilviljun og nauðsyn. Fjölmargir áhorfendur hlýddu á fjögur stutt erindi tengd efni bókarinnar og höfundinum. Hið íslenska bókmenntafélag gaf Tilviljun og nauðsyn út í lok árs 2012.

Þýðandinn, Guðmundur Eggertsson prófessor emeritus, hélt erindi um lífshlaup höfundar og tilurð þýðingarinnar. Guðmundur byrjaði að þýða bókina fyrir þremur áratugum, í samstarfi við Þorstein Gylfason heimspeking. Guðmundur tók síðan upp þráðinn þegar hann hafði lokið við bækurnar Líf af lífi og Leitin að uppruna lífs og kláraði þýðinguna í samstarfi við Björn Þorsteinsson heimspeking, annan ritstjóra lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags, ritstýrði útgáfunni. Guðmundur sagði einn frá sínum persónulegu kynnum af Monod, en hann hélt einmitt erindi við Yale háskóla þegar Guðmundur vann þar að doktorsverkefni sínu.

Ólafur S. Andrésson prófessor í erfðafræði við Háskóla Íslands kynnti vísindi Monods. Hann lýsti rannsóknum Monod á sykurnámi Eschericia  coli gerla, sem hann fékk metið til doktorsprófs frá Sorbonne háskóla. Í kjölfarið gerðu Monod og samstarfsmaður hans Francois Jacob frekari rannsóknir á sykurnámi E. coli, og sýndu að gerilinn stýrði myndun ensíma eftir því hvaða sykur var í umhverfinu. Sú hugmynd að lífverur gætu stýrt tjáningu gena olli straumhvörfum í líffræði. Þeir félagar og samlandi þeirra Andre Lwoff fengu Nóbelsverðlaunin 1965 fyrir að uppgötvanir sínar á genastjórnun. Monod velti fyrir sér sameindalíffræði í víðu samhengi í bók sinni Tilviljun og nauðsyn sem kom út árið 1970.

 

Monod var umhugað um að kveða niður lífhyggju (vitalism) og velti einnig fyrir sér stöðu mannsins í alheiminum. Björn Þorsteinsson sérfræðingur við Heimspekistofnun HÍ ræddi hugtak Monods um „siðfræði þekkingarinnar“. Jafnframt fjallaði Björn um samband hugtaksins við skoðanir Monods á samfélagsmálum.

 

Luc Fuhrmann sendiráðunautur flutti einnig stutta hugvekju um áhrif og félagslegt samhengi bókar Monod á Frakkland á tímamótum gamalla og nýrra gilda.  Eva Benediktsdóttir, forseti Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ var fundarstjóri.

 

Að erindum loknum var boðið upp á léttar veitingar, og gátu gestir rætt og reifað málin.

 

Ljósmynd af Guðmundir Eggertsyni tók Einar Garibaldi - höfundaréttur er Einars. Picture copyright Einar Garibaldi.

 

Guðmundur Eggertsson var í viðtali í Víðsjá 5 febrúar 2013. Þar sagði hann meðal annars að Monod geri mikið úr þætti tilviljunarinnar í þróun lífsins (og etv. starfsemi).  

 

Málþingið var styrkt af

Sendiráði Frakklands á Íslandi

Líffræðifélagi Íslands

Örverufræðifélagi Íslands

Mannerfðafræðifélagi Íslands

Verk og náttúruvísindasviði HÍ

Gróco ehf

ORF líftækni

Hinu Íslenska bókmenntafélagi

GPMLS við HÍ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband