28.2.2013 | 14:36
Góð ábending frá Sölva
Það er mikilvægt að spyrja hvers vegna geðlyfjanotkun er svona mikil hérlendis?
Því miður er vandamálið ekki bara bundið við Ísland, bandaríkjamenn hafa þurft að kljást við svipaðan vanda og treysta að miklu leyti á lyfjagjöf.
Blaðamaðurinn Robert Whitaker hefur kannað þessi mál í bandaríkjunum og ritað um það tvær bækur ( Mad In America og Anatomy of an epidemic). Þær eru reyndar umdeildar, en mörg af þeim atriðum sem hann tiltekur eru það alvarleg að ekki er hægt að láta kurt liggja.
Hérlendis hefur Steindór J. Erlingsson beitt sér á þessu sviði, og m.a. gagnrýnt misvísandi upplýsingar frá lyfjafyrirtækjum. Ég bendi áhugasömum á fjölda ágætra greina Steindórs um þessi mál.
Besta útlistun á vandamálunum sem plaga lyfjageirann og heilbrigðiskerfið er bók Ben Goldacre's Bad Pharma. Ég las hana fyrir áramót og er byrjaður á ritdómi, en efnið er svo mikið að því verður ekki gerð skil í stuttum pistli á bloggsíðu.
Á geðlyfjum árum saman | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Er ekki staðreyndin sú að meiri hluti íslensku þjóðarinnar er haldinn krónískri geðveiki? Amk. benda gerðir þjóðarinnar til mikillar almennar sturlunar (kjósa alltaf sama spillta 4flokkinn). Það er eðlilegt að slík þjóð þurfi mikilla geðlyfja við
óli (IP-tala skráð) 28.2.2013 kl. 14:44
Sæll Óli
Ég held að heldur sé langt seilt í ályktuninni.
En jafnvel þótt að tilgátan væri rétt, þá er það líka spurning hvaða meðferð sé heppilegust?
Það er eðlilegt að nota meðferðir sem gefa besta raun.
Gögn um sumar gerðir geðlyfja sýna að þau virka lítið eða ekkert, á mildari form geðraskana og þunglyndis.
Pillur eru ekki endilega lausn við þeirri "geðveiki" að kjósa alltaf sömu 4 flokkana! Lausnin á því "vandamáli" er að mínu viti upplýsing, heillindi í orðræðu og minni æsingur.
Arnar Pálsson, 28.2.2013 kl. 14:54
Það er með geðlyfin eins og svefnlyfin. Fólk tekur þetta árum saman þótt þetta eigi bara að vera skammtímalausn.
Ég hef sjálf reynt hvortveggja, þ.e. lyfjameðferð og samtalsmeðferð. Á meðan lyfin hjálpuðu mér mikið á sínum tíma, þá var það samtalsmeðferðin sem gerði það að verkum að ég get verið án lyfjanna í dag.
Hinsvegar hef ég mikið séð það að fólk skammast sín mikið fyrir lyfjainntöku og fæstir viðurkenna að þurfa að taka inn geðlyf. Fólki finnst oft að maður sé ekki veikur nema að maður beri veikindin utan á sér.
Með það í huga, þó læknar séu almennt of latir við að vísa á samtalsmeðferðir með eða án lyfjagjafar, þá eru ennþá færri sem myndu vilja nýta sér þann kost. Það var t.d. einstaklega erfitt fyrir mig að viðurkenna að eitthvað væri að, og hvað þá að tala um það við einhvern sálfræðing sem ég þekkti ekki neitt.
Samtalsmeðferðir eru líka yfirleitt töluvert dýrari og tímafrekari en að taka inn töfrapillu sem manni hefur verið lofað að lækni öll mein.
Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 28.2.2013 kl. 16:07
Fyrst var sett Íslandsmet í pensillín-notkun.
Pensillínið eyðileggur þarmaflóruna með tilheyrandi næringarskorti, því næringarupptaka fer fram í þarmaflórunni.
Þá tók við gúrkutíð geðlyfjasölunnar með tilheyrandi hörmungar-aukaverkunum. Eyðilögð þarmaflóra vegna ofnotkunar pensillíns er nefnilega besta leiðin til vítamín/steinefnaskorts, sem leiðir til geðsjúkdóma af ýmsu tagi.
Þess vegna hefur Ísland líka sett heimsmet í geðlyfjanotkun.
Verst af öllu er að heildrænar lækningar hafa verið fordæmdar og ó-viðurkenndar af íslenska heilbrigðiskerfinu, þrátt fyrir að þær lækningar geri sjúklinga heilbrigða, lyfjalausa og vinnufæra!
Það er kominn tími til að leggja spilin á borðið og viðurkenna læknavísinda-svindlið!
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 1.3.2013 kl. 01:15
Gleymdi að taka fram að sálfræðimeðferð er bara fyrir hálauna-fólk á Íslandi. Það eru nefnilega ekki róandi lyfjamafíutöflur í slíku dæmi!
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 1.3.2013 kl. 01:19
Takk fyrir að deila þessu Ingibjörg
Mig grunar einmitt að pillurnar skaffi þessa patent-lausn sem við þráum svo mörg. Ef það er ekki pilla, þá er það eitthvað sem við getum keypt í heilsubúðinni.
Sum vandamál eru bara það flókin að við þeim er ekki ein einföld lausn. Ég hef blessunarlega verið laus við svefntruflanir, nema þegar stressið í framhaldsnáminu var sem mest. Þá virkaði fótbolti sem ágætis slökun.
En ef samtalsmeðferðin er dýrari og ekki styrkt af ríkinu, þá er heilbrigðiskerfið að beina fólki að einni meðferð. Þá er mikilvægt gögnin sem segi að viðkomandi meðferð virki BEST séu rétt!!
Anna Sigríður
Það er alveg rétt hjá þér að íslenskir læknar hafa farið offörum í útskrift á sýklalyfjum. Of mikil sýklalyfjanotkun er slæm fyrir þarmaflóru, en ég hef ekki séð gögn um að það leiði síðan til geðvandamála. Hins vegar er ljóst, að sem samfélag erum við að naga undan okkur fótinn með því að ofbrúka sýklalyf. Slíkt leiðir til hærri tíðni sýklalyfjaþolinna bakteríustofna, sem gera mikinn skaða. Þetta er vandamál sem þarf að leysa.
Þótt að margt megi betur fara í læknavísindum nútímans, þá er ég ekki tilbúinn að fórna því fyrir græðara og óhefðbundnar lækningar.
Það sem skilur á milli þess sem virkar eða ekki eru vísindalegar tilraunir.
Þegar óhefðbundnar lækningar eru metnar þannig kemur í ljós að þær virka ekki. Áhrifin sem sumir upplifa eru skammlíf lyfleysuáhrif, en ekki raunveruleg líkn eða lækning.
Á sama hátt hefur aðferð vísinda afsannað notagildi margra "lyfja", t.d. með því að sýna fram á alvarlegar aukaverkanir eða eins og í tilfelli SSRi geðrofslyfjanna - veik jákvæð áhrif á batahorfur sjúklings samfara aukaverkunum.
Arnar Pálsson, 1.3.2013 kl. 10:25
Ég held að flestir geðlæknar ávísi líka lyfjum þó þeir beiti samtalsmeðferð. Það sé hluti vandans. Sem sagt svo til allir geðlæknar gefi lyf. Það sé lítið um það að geðlæknar beiti eingöngu samtalsmeðferð. Hvað mig snertir fór ég í gegnum 8 ára sálfræðimeðferð án lyfja sem gjörbeytti öllu til hins betra. Og sálfræðingurinn var svo vinsamlegur að eftir nokkra mánuði felldi hann niður gjaldið af því honum fannst ég svo spennandi tilfelli! Mikið af því sem geðlæknar höndla er ekki raunveruleg eða alvarleg geðveiki heldur ýmis konar sálræn vandræði, áföll og þess konar. En ef ég hefði þurft að borga allt fullum fetum hefði meðferðin bara fallið niður. Það er hrikalegt að hugsa til þess að fólk skuli ekki geta farið í gegnum meðferð sem dugar vegna þess að hún er svo dýr. Og alvöru meðferð vill dragast á langinn. Það tekur langan tíma og mikið þrek að ná taki á sálrænum vandræðum. Skyndilausnir eru ekki til.
Sigurður Þór Guðjónsson, 5.3.2013 kl. 11:12
Takk Sigurður fyrir að deila sögu þinni.
Mannfólkið er mjög fjölbreytt og vera kann að samtalsmeðferðin henti sumum en öðrum ekki. Það er mikilvægt að mat á gæðum og notagildi samtalsmeðferðarinnar sé vísindalegt, alveg eins og við viljum að mat á lyfjum sé vísindalegt.
Við verðum einnig að vara okkur á þeim mistökum sem lyfjageirinn fellur í (eða beitir) þegar meta á notagildi slíkra meðferða.
Það er vitað að lyfjagjöf er mjög mikil hérlendis, og að fólki finnist hún líka of mikil (sbr rannsókn Þórdísar Ólafsdóttur).
http://www.laeknabladid.is/media/tolublod/1436/PDF/f03.pdf
http://www.hi.is/lyfjafraedideild/candpharm_thordis_olafsdottir
Mig minnir að ávísan geðlyfja hérlendis sé einnig mikil - frá hendi heimilislækna eða almennra, en finn ekki heimildir fyrir því í fljótu bragði. En það skiptir náttúrulega öllu máli hverjir skrifa uppá, rétt eins og það er vitað að sumir heimilislæknar skrifa upp á sýklalyf við minnsta hálskitli.
Tveir tenglar á greinar um skyld efni eftir Steindór og Vilhjálm.
http://visir.is/ororka-og-gedlyf/article/2011337842904
http://blog.pressan.is/vilhjalmurari/2011/02/10/ad-nidurlotum-komin/
Arnar Pálsson, 7.3.2013 kl. 10:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.