Leita í fréttum mbl.is

Röng eða rétt ákvörðun á augnabliki

Maðurinn er stundum kallaður kóróna sköpunarverksins af trúuðu fólki (eða skáldlegu). Á hinn bóginn setja trúleysingjar og efahyggjufólk andlega hæfileika mannsins einnig á stall, sem stundum birtist sem manngyðistrú.

En þessi fullkomnasta lífvera jarðar er hið mesta ólíkindatól. Líffræðingar og læknar kortlagt veikleika og takmarkanir mannfólks. Við höfum ekkert í blettatígur á hlaupum eða ísbjörn á sundi. Við þolum geislun verr en kakkalakkar, hita verr en sumar fornbakteríur og gagnrýni verr en T. rex.

Tilraunir Kahneman og Tverskys

Sálfræðingar hafa undanfarna áratugi rannsakað veikleika mannlegs atferlis. Daniel Kahneman og Amos Tversky könnuðu hvernig fólk tekst á við óvissu, þegar það stendur frammi fyrir tapi eða gróða. Þeir settu upp tvær tilraunir.

Stúdentum voru gefnir tveir kostir, 1) að fá $3,000 eða 2) hafa 80% líkur á að vinna $4,000 (þá voru 20% líkur á að vinna ekkert!). Flestir nemendur tóku örugga kostinn $3,000.

Öðrum hópi stúdenta voru gefnir aðrir kostir, 1) að tapa $3,000 eða 2) að tapa $4,000 með 80% likum (Þannig að það voru 20 prósent líkur á að tapa engu). Í þessu tilfelli voru fleiri sem völdu áhættusamari kostinn.

Með orðum Vikas Bajaj í New York Times "fólk er tilbúið að taka meiri áhættu í þeirri von að varðveita peninga en til að græða". (á frummálinu "In other words, they were willing to take a bigger risk to avoid losing money than they were when they stood to make more money.")

Þarna er afhjúpaður veikleiki mannlegrar "skynsemi". Líkurnar voru jafn miklar í báðum dæmum, en samt var fólk frekar tilbúið að veðja þegar það sá fram á tap. Skynsamlegra væri að veðja þegar þú sérð fram á gróða.

Ef maður myndi spila svona leik í 10 skipti, þá myndi maður græða meira á því að veðja á kostinn með 80% líkur á $4000, en að velja alltaf $3000.

Röng ákvörðun á augnabliki

200px-Thinking,_Fast_and_SlowÁstæðan fyrir þessu er sú að maður tekur ákvarðanir áður en maður hugsar. Það er fjölmörg dæmi sem sýna að skoðun myndast á augnabliki, löngu áður en viðkomandi hefur minnsta tækifæri til að leggjast ítarlega yfir málið og meta það frá öllum hliðum.

Skýrasta dæmið er fyrstu kynni. Útlit, fas og skapgerð ráða ákaflega miklu um það hvort okkur líkar við persónu sem við vorum að hitta eða ekki. Á örfáum sekúndum myndum við okkur skoðun um persónur, áður en við höfum í raun kynnst þeim eða ígrundað kosti þeirra og galla.

Kahneman tíundar fjölmörg dæmi um aðra veikleika í mannlegri hugsun, í bók sem hann kallar Thinking fast and slow (ritdómur í the Guardian).

Rétt ákvörðun á augnabliki 

Aðrir hafa bent á að þessi hæfileiki, að taka ákvörðun á örskotsstundu, getur reynst vel.

images?q=tbn:ANd9GcRQ6syCUo7fjFLzhDilPB33txVj1mxfET1O4kpH1YXordrayizGpgMalcom Gladwell skrifaði leiftrandi skemmtilega bók um þetta, sem kallast Blink - the power of thinking without thinking. Í fyrsta kafla bókarinnar lýsir hann því  þegar forkólfar Getty safnsins í Kaliforníu keyptu gríska styttu. Efnamælingar sýndu að styttan var hjúpuð calcíti, sem var merki um að gripurinn væri mörg hundruð ef ekki þúsundir ára gamall. Safnið borgaði um 10 milljónir dala fyrir styttuna, sem var álitin vera frá sjöttu öld fyrir krist.

Sagan verður fyrst verulega krassandi þegar sérfræðingar í grískum styttum sáu gripinn - og fengu kláða. Það var eitthvað að. Þeirra fyrsta viðbragð var tortryggni, og nákvæmar athuganir staðfestu að styttan var seinni tíma smíð (e.t.v. hreinræktuð fölsun).

Þetta er kjarninn í bók Gladwells, sérfræðingar geta tekið réttar ákvarðanir á örskotsstundu. Jafnvel án þess að vita hvernig þeir komust að réttri niðurstöðunni.*

Bókin er léttilega skrifuð og er byggð að miklu leyti upp á sögum af persónum og viðburðum. Það er ljómandi frásagnarmáti, og mun aðgengilegri en margar alvarlegri vísindabækur.  Á móti kemur að röksemdafærslan er á köflum dálítið losaraleg, og mörgum spennandi spurningum er ósvarað.

Kostir hraðrar hugsunar

Hin hraða og ómeðvitaða hugsun getur bæði haft jákvæðar og slæmar hliðar. Við getum fallið auðveldlega í gildrur, eins og að kjósa pólitíkusa út frá útliti, brosi eða glansandi loforði. Eins getur snör hugsun sérfræðinga bjargað mannslífum eða leyst erfiðustu þrautir.

Ég held að hröð hugsun sé greinilega kostur. Ímyndum okkur mann sem þarf að ígrunda hverja einustu aðgerð sem hann framkvæmir, persónu sem hann hittir eða viðburð sem yfir hann dynur. Slíkur maður myndi sligast af þreytu, heilinn myndi aldrei tjónka við slíkt álag.

En ég vill einnig leggja áherslu á að hæg og vönduð hugsun er burðarás í samfélagi nútímans. Á öld hraða og flæðis upplýsinga þá tel ég mikilvægt að sem flestir þroski hina hægu hugsun, aga, rökvísi og heillindi. Ein leið til þess atarna er að lesa bækur Gladwells eða Kahnemans, í rólegheitum.

--------------------

*Fyndni vinkillinn er vitanlega sá að það halda svo margir að þeir séu sérfræðingar, jafnvel fólk sem er á öndverðum meiði.

Skyldir pistlar.

Trúlega er það trúlegi heilinn umfjöllun um Believing Brain eftir Michael Shermer.

Heili 1 og heili 2

Texti úr eldri pistli um Ótta og græðgi var endurnýttur hér að ofan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband