Leita í fréttum mbl.is

Tilraunameðferðir eða kukl

Vísindi byggja á nokkrum lykilatriðum. Hlutlægni er kjarninn í aðferðinni. Einnig er mikilvægt að settar séu fram skýrar tilgátur, og fundnar leiðir til að meta þær með ákveðnum gögnum (mælingum, talningum eða öðrum upplýsingum). Tilgáturnar þurfa að vera nákvæmar, ekki duga tilgátur sem útskýra allt. Einnig þurfa þær að vera með innra samræmi, bull er ekki efni í vísindalega tilgátu. Tilgáturnar þurfa einnig að tengjast núverandi þekkingu. Eða ef þær ganga í berhögg við núverandi þekkingu, þá þarf að meta rannsóknarspurningarnar í víðara samhengi - til að athuga hvort hrikti í stoðum núverandi þekkingar.

Læknisfræðin er nú orðin tilraunavísindi, að því leyti að nýjar meðferðir, inngrip eða lyf eru prófuð með vísindalegum aðferðum. Þetta hefur ekki alltaf verið svona, í sögu læknisfræðinnar er þúsundir dæma um fáránlegar meðferðir og lyf - sem voru notuð á trú eða sannfæringu - en ekki af því að vísindin sýndu að þau virkuðu.*

Núna er krafan sú að nýjar meðferðir þarf að meta - með hliðsjón af bestu mögulegu meðferð. Ef Jón læknir stingur upp á nýju lyfi gegn sýkingu, þarf að prófa það í samanburði við bestu þekkta lyfi við sömu sýkingu. Og til að niðurstöðunum sé treyst þarf prófið að vera gert á stórum hópi sjúklinga, og tvíblint. Þannig að hvorki læknarnir né sjúklingarnir viti, hvaða lyf var gefið. **

Hví skiptir þetta máli? Nútildags eru margar nýjar meðferðir í heilsu og nýaldargeiranum auglýstar sem töfralækning. En einnig er töluvert um að læknar eða læknisfræðimenntað fólk bjóði upp á tilraunameðferðir, sem hafa ekki verið sannreyndar almennilega.

Slíkar tilraunameðferðir eru í sjálfu sér ekki slæmar, en þær geta verið gagnslausar eða í versta falli hættulegar. Læknadeild HÍ og Siðfræðistofnun HÍ stendur fyrir fundi á morgun um þetta mál, 5. apríl kl. 12:00 í Lögbergi.

Rætt var við Magnús K. Magnússon prófessor í lyfjafræði í morgunútvarpi rásar 2 í dag. Þar var fjallað um línuna á milli kukls og tilraunalækninga, og aðra vinkla á þessu mikilvæga máli (hlýða má á viðtalið á vef ruv.is).

* M.a. vegna þess að hin vísindalega aðferð kom til sögunar löngu á eftir læknafræðinni. Reyndar má svo sem alveg deila um hvað kalla á læknis"fræði," sem stunduð var áður en farið var að beita vísindalegum aðferðum í læknsifræði?

**Þetta er reyndar erfiðara þegar um annarskonar meðferðir er ræða, ef meðferð við exemi er ljósameðferð eða vítamíngjöf, þá veit sjúklingurinn hvað hann er að fá. En þá er mikilvægt að sjúklingum sé beint í þessar ólíku meðferðir af handahófi, til að prófið verði sem öflugast. Alltof oft er treyst á óblindar rannsóknir, og iðullega reynast niðurstöðurnar hreinlega rangar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband