Leita í fréttum mbl.is

Snákaolía og sannleikurinn á völtum fótum

Það er auðvelt fyrir okkur að hlæja að fólki sem fyrir 100 árum keypti snákaolíu í þeirri trú að hún myndi lækna meinsemdir.

Staðreynd málsins er að nútildags eru mörg þúsund vörur á markaði, sem eru einfaldlega snákaolíur i nýjum umbúðum. Heilsubúðir og vefsíður eru stappfullar af allskonar pillum, smyrslum, djúsum og fótaböðum sem gegna sama hlutverki. Það er að segja, færa seljandanum hagnað og kaupandanum andlega vellíðan. En það er ákaflega sjaldgæft að þessar meðferðir skili raunverulegum bata. Þær byggja nær allar á lyfleysuáhrifum, sem eru bara byggð á upplifun og væntingum til meðferða eða lækninga. Vísindalega gögn skortir um notagildi meðferðanna, og þegar þær hafa verið prófaðar, falla þær iðullega kylliflatar.

Vegna þessarar ofboðslegu markaðsvæðingar óhefðbundinna meðferða og mixtúra mun samfélag manna breytast. Eins og Carl Sagan ræddi í Demon haunted world, þá er veruleg hætta á því að stór hluti mannkyns muni afneita upplýsingunni, vísindalegum staðreyndum og lækningum. Og þetta mun ekki bara gerast meðal þeirra sem við upplýstir vesturlandabúar álítum "van"þróunarlönd, þetta er að gerast hér og nú.

Því er aldrei mikilvægara að þeir sem vilja viðhalda þekkingu, berjast gegn hindurvitnum og verja heilbrigðiskerfið fyrir atlögum galdralækna og sjálfskipaðra heilsupostula, að taka höndum saman og spyrna gegn flóðbylgjunni.

Nokkrir íslendingar hafa verið ötull á þessum vettvangi undanfarna áratugi. Einn þeirra er Magnús Jóhannesson læknir, sem lét af störfum hjá HÍ nýverið - vonandi með þá von í hjarta að hann geti varið meiri tíma í fræðslu og til að verja heilbrigðiskerfið.

Efnt til málþings til heiðurs Magnúsi núna á fimmtudaginn (18. apríl 2013, 16 - 17:30 í sal 105 á Háskólatorgi). Á málþinginu mun þekktur andstæðingur óhefðbundinna meðferða Edzard Ernst, halda erindi. Ég hvet alla til að fara á þessa málstofu.

Úr tilkynningu:

Nánar um Magnús:

Magnús Jóhannsson, prófessor emerítus við læknadeild HáskólaÍslands hefur verið ötull í almannafræðslu, birti m.a. um áratuga skeið fræðslupistla um lyf og heilsu í Morgunblaðinu. Hann hefur einnig rannsakað náttúrulyf og m.a birt greinar um aukaverkanir tengdar þessum efnum. Magnús mun á málþinginu fjalla um sínar rannsóknir og koma með hugleiðingar um efnið.
trick-or-treatment-cover-vsÁ málþinginu mun einnig halda erindi merkur vísindamaður, Edzard Ernst, læknir og emeritus professor við University of Exeter (http://edzardernst.com/). Hann er einn þekktasti læknir og fræðimaður heims á sviði rannsókna á hómópatíu og ýmsum náttúruefnum sem notuð eru við hjálækningar. Hann er mjög krítískur á þau fræði og hann er einnig mjög áhugaverð persóna. Hann skrifaði bókina “Trick or Treatment” ásamt blaðamanninum Simon Singh (http://www.amazon.com/Trick-Treatment-Undeniable-Alternative-Medicine/dp/0393337782) sem vakti mikla athygli. Hann hefur einnig vakið athygli í bresku pressunni vegna harðvítugrar deilu við bresku konungsfjölskylduna, sérstaklega Karl bretarpins sem hefur markaðsett í sínu nafni ýmis konar lækningajurtir. Sjá umfjöllun um þessa deilu hér: http://www.guardian.co.uk/lifeandstyle/2011/jul/30/edzard-ernst-homeopathy-complementary-medicine


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband