Leita í fréttum mbl.is

Stærð hrogna þorsksins

Lovísa Ólöf Guðmundsdóttir flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í líffræði,
24. maí 2013 - 12:30 Askja Stofa N-132. Úr tilkynningu.

Eðlisþyngd fiskeggja hefur áhrif á lóðrétta dreifingu þeirra í sjónum og þar af leiðandi dreifingu þeirra með mismunandi straumum og hugsanlega afkomu. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að eðlisþyngd fiskeggja getur verið aðlöguð að umhverfisaðstæðum, til dæmis til að draga úr líkum á óhentugu reki eða til að forðast óhagstæðar aðstæður fyrir þroskun. Sýnt hefur verið fram á að íslenski þorskstofninn er samsettur úr tveimur aðgreindum atferlisgerðum sem nota þó sama hrygningarsvæði. Þessar gerðir eru yfirleitt kallaðar grunnfars- og djúpfarsþorskar og byggist aðgreining á atferli þeirra utan hrygningartíma, þar sem grunnfarsþorskurinn heldur sig á grunnslóð allan ársins hring á meðan djúpfarsþorskur flytur sig á dýpri slóðir í hitaskilin austur og vestur af landinu.

Megin markmið þessarar rannsóknar var að bera sama eðlisþyngd eggja þessara tveggja atferlisgerða til að sjá hvort hún gæti stuðlað að aðgreiningu hópanna. Eggjum var safnað á hrygningarstöðvum suðvestur af Íslandi í apríl 2010 og 2011. Eðlisþyngd eggja mæld á degi 2, 3 og 4 eftir frjóvgun sýndi engin merki aðgreiningar milli atferlisgerðanna en vísbendingar fundust um að egg djúpfarsþorsks væru léttari en egg grunnfarsþorsks á seinni stigum þroskunar. Þvermál eggjanna var einnig breytilegt milli hópa þar sem egg djúpfarsþorsks voru stærri en egg grunnfarsþorsks. Þessar niðurstöður sýna áður óþekktan breytileika í lífsferlum þessara tveggja atferlisgerða og má mögulega eigna umhverfisþáttum eða erfðum.

Leiðbeinendur: Guðrún Marteinsdóttir, Timothy Grabowski og Olav Kjesbu.
Prófdómari: Sveinn Kári Valdimarsson.

Erindið verður flutt á ensku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband