Leita í fréttum mbl.is

Sálfræðin að baki stríðinu gegn umhverfisvísindum

Hvernig er best að greina rétt frá röngu, t.d. þegar deilt er um hvort skógarhögg muni hafa áhrif á vatnsból, eða þegar stungið er upp á að byggja kjarnorkuver inn í stórborg?

Umræða um slík álitamál fer fram á mörgum sviðum, en á endanum þarf að gera einhverskonar rannsókn, eða finna út staðreyndir málsins. Álitamálin í dæmunum hér að ofan eru í eðli sínu vísindaleg, og því er farsælast að nota aðferð vísinda og vandaða fræðimennsku til að meta stöðuna. 

Síðan er það spurning um hvernig stjórnvöld fara með vísindalegar niðurstöður, eða hagsmunaaðillar sem vilja ákveðna niðurstöðu (óháð sannleikanum).

Í samfélagi nútímans eru fullt af alvarlegum vandamálum og deilum um nýtingu orku, verndun náttúru, skipulag borga, samfélaga og atvinnuvega. Því miður er of algengt að vísindalegar niðurstöður troðist undir í þessum deilum, þær verði stimplaðar sem pólitískar eða trompaðar með einhverjum Morfís-brellum. Skortur á vandaðri orðræðu þýðir að vísindilegar staðreyndir lenda í bakgrunni, þegar þær gætu blásið þokunni burt og vísað okkur veginn til betra samfélags og lausna.

Eitt dæmi um slíka deilu eru loftslagsvísindin. Þar er töluverð óvissa meðal ráðamanna og almennings. En meðal vísindamanna er óvissan hverfandi. Gögnin sýna óyggjandi að mannkynið hefur losað koltvíldi (og aðrar lofttegundir) sem hafa leitt til hlýnunar lofthjúpsins og loftslagsbreytinga. Ástæðan fyrir óvissunni meðal valdamanna og margra borgara er markviss herferð hagsmunaaðilla, t.d. olíufyrirtækja, sem miðar að því að framleiða efa.

Þeir sem vilja fræðast um þessa atlögu olíurisanna gegn samfélaginu og vísindunum ættu endilega að hlýða á erindi Chris Mooney laugardaginn 7. september. Sjá tilkynningu frá HÍ.

Chris Mooney flytur fyrirlestur í Háskólatorgi 105, laugardaginn 7. september kl. 12:00-13:30. Fyrirlesturinn nefnir hann ,,Sálfræðin sem býr að baki stríðinu gegn umhverfisvísindum."

Mooney er þekktur fyrir verk sín um vísindastríðin svokölluðu, en eftir hann eru bækurnar The Republican War on Science (2005); Storm World: Hurricanes, Politics and the Battle Over Global Warming (2007); Unscientific America, ásamt Sheril Kirshenbaum (2009); og The Republican Brain: The Science of Why They Deny Science and Reality (2012).

Meðal dagblaða og tímarita sem Mooney skrifar reglulega í eru The Washington Post, The Los Angeles Times, Mother Jones, Salon og The Atlantic.

Guðni Elísson, forseti Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands, kynnir Mooney og stýrir umræðum.

Fyrirlesturinn, sem er öllum opinn, er hluti af námskeiðunum Menningu og andóf og Loftslagsbreytingar, orðræða og aðgerðastefna sem kennd eru í menningarfræðum við Háskóla Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Vísindaleg sannindi sigra ekki vegna þess að andstæðingum þeirra hafi snúist hugur og þeir séð ljósið, heldur hins, að þeir deyja einn af öðrum og ný kynslóð fæðist"

Max Planck

Jóhann (IP-tala skráð) 3.9.2013 kl. 22:21

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það virðist ekki alltaf þurfa mikið til að framleiða efa - vel valdar fullyrðingar duga oft ansi langt, þar sem fólk virðist ekki alltaf vera mjög gagnrýnið þegar kemur að "efasemdunum". En það verður fróðlegt að heyra hvað Chris Mooney hefur að segja - ég hef persónulega fylgst aðeins með kappanum í gegnum tíðina.

Sveinn Atli Gunnarsson, 4.9.2013 kl. 00:46

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Jóhann

Sannarlega er tregða í fræðasamfélögum, mikið til vegna þess að þau samanstanda af manneskjum, sem eru gallagripir.

En kjarninn í því sem Max Planck sagði er líka sá að samfélagið yfirstígur það sem einstaklingarnir eiga miklu erfiðara með. Að skipta um skoðun, sætta sig við fall eldri tilgátu og að ný tilgáta sé betur studd (af tilraunum, gögnum og staðreyndum).

Sveinn

Loftslagmálin eru þannig vaxin, að breytingarnar eru hægfara, hnattrænar og að mestu utan reynsluheims venjulegs fólks. Manneskjur muna stutt, meðtaka aðallega það sem gerist á þröngum tímaskala og skynja bara nokkrar stærðargráður í kringum eigin rúmmál. Við eigum í mesta basli með veröld örvera, eða veðrakerfi, hvað þá sólkerfi og geim.

Ég er sammála um að það verður gaman að heyra í Chris. Hann sem blaðamaður er örugglega öndvegis fyrirlesari.

Ef hann fylgir bókinn Unscientific America, þá fjallar hann ekki bara um vandamálin, heldur stingur einnig upp á lausnum fyrir samfélög.

Arnar Pálsson, 4.9.2013 kl. 08:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband