Leita í fréttum mbl.is

Undur lífsins

Ríkisútvarpið sýnir þessa dagana stórbrotna þætti frá BBC um undur lífsins (wonders of life). Ég vil þakka RÚV kærlega fyrir að taka þessa þáttaröð til sýningar, hún er að mínu mati hreinasta afbragð.

Í þáttunum er fjallað um eiginleika lífvera og hvernig þeir spretta úr lögmálum eðlisfræðinnar.

Í fyrsta þættinum sem sýndur var hérlendis - stærð skiptir máli* - var fjallað um þær skorður sem lögmál eðlisfræðinnar setja lífverum. Byrjað var á að ræða hvernig stærð trjáa ræðst af samspili þyngdaraflsins og hárpíplukraftsins. Þann síðarnefnda nota tré  til að flytja vatn upp bolinn. Eðlisfræðin setur lífinu strangar skorður.

Einnig var sýnt hvernig lögmál stærðar leiða til breytinga á byggingu og hreyfimöguleikum dýra. Lærleggur risavambans í Ástralíu var 5x lengri en venjulegs vamba. En hann var 40X þykkari, vegna þess að risavambinn var um tvö tonn á móti 20 kg venjulegs vamba.

Einnig fannst mér stórkostlegt sjá myndir af minnstu skordýrum sem þekkt eru.** Það eru litlar sníkjuvespur sem þrátt fyrir smæð sína, eru með 10.000 taugafrumur í taugakerfi sínu. En þær eru færar um heilmikið atferli, geta flogið um og tekið mikilvægar ákvarðanir varðandi líf sitt.

Í þætti gærdagsins var fjallað um uppruna lífsins og um orkuna sem býr í efnafræði jarðhitahvera. Það voru færð rök fyrir því að líf hefði kviknað við neðansjávarhveri, þar sem basískt útstreymi komst í snertingu við súrann sjó. Í þessum muni á sýrustigi liggur orka, sem sýnd var á mjög flottan hátt í þættinum (hann dugði til að drífa rafmagnsviftu). 

Í frumunum heilkjörnunga er svona stigull, frá súru yfir í basískt, notaður í orkukornum (hvatberum) til að  framleiða orkusameindir. Orkusameindirnar, kallaðar ATP, eru helsti gjaldmiðil framkvæmda í frumunum.

Þættirnir tveir hafa verið ljómandi skemmtilegir. Efnið er framsækið, ekki er verið að segja einfaldar sögur af fjölbreytileika lífsins eða dæmisögur úr lífsbaráttunni. Heldur er verið að fjalla um grundvallaratriði lífsins, og frásagnarmátinn er lifandi og myndefnið fyrirtak. Mér þætti reyndar gaman að heyra hvað fólki finnst. Er ég svona hrifinn af því að bakgrunnur minn er líffræði, eða kveikir þátturinn í öðrum?

*reyndar er sá þáttur fjórði  í röðinni, þegar serían var fyrst sýnd á BBC two.

** OK, ég er með flugublæti, enda rannsakaði ég þær í 8 ár meðan ég bjó í Bandaríkjunum.

Ítarefni:

Wonders of Life á vef BBC two

Undur lífsins á vef RÚV


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvað er það lítið sem mannsaugað getur greint með berum augum, t.d. í samanburði við þennan punkt? .

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.9.2013 kl. 15:42

2 identicon

kíktu á þetta, Sigurður:

http://htwins.net/scale2/

Jóhann (IP-tala skráð) 17.9.2013 kl. 16:27

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Athyglisverð pæling og myndband.

Arnar Pálsson, 25.9.2013 kl. 09:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband