Leita í fréttum mbl.is

Sprengjugengið, vel að hvellinum komið

Í heimi þar sem afþreying, slúður og vinsældir skipta öllu, eiga fræði og vísindi litla von. Nema hugvitsömu fólki takist að fanga athygli fólks og blása í áhuga þess á námi í raungreinum, eða bara á lögmálum og ástandi náttúrunnar.

Einn hópur sem skarað hefur fram úr á þessu sviði er sprengjugengið, hópur nemenda í efnafræði, efnaverkfræði og lífefnafræði við HÍ. Þau hafa á undanförnum 6 árum þróað ansi skemmtilega sýningu sem tvinnar saman Hollywood og efnafræði. Þau fengu verðlaun Rannís fyrir vísindamiðlun fyrir árið 2013, og eru vel að þeim hvelli kominn.

Þau hafa verið með sýningar á Háskóladeginum, Háskólalestinni og auðvitað vísindavökunni, þar sem ég sá þau síðast. Þar var blandað saman lausnum og sprengdar blöðrur með eldfimum gastegundum. Þau framleiddu fílatannkrem og sprengdu flösku með fljótandi köfnunarefni, í heilmiklu sjónarspili undir dúndrandi tónlist (Dagur vonar hvað).

Sýningin var hin skemmtilegasta og börnin mín skemmtu sér konunglega. Mér fannst reyndar að hægt sé að bæta hana töluvert, t.d. með því að hamra á vísindalegu og efnafræðilegu staðreyndunum í skýrum setningum. Einföld slagorð eða dæmi gætu miðlað heilmiklu, sérstaklega því að fólk geislar af áhuga. 

Það er hægt að miðla staðreyndum með eldhafi.

Ég er mjög spenntur fyrir því að sjá hvernig sýning sprengjugengisins þroskast. Á sama tíma var ég að velta fyrir mér hvernig mín fræðigrein, líffræðin kynnt sig á sambærilegan hátt. Mér datt í hug að koma með risaeðluna mína í vinnuna, eða vera með nokkrar Ebolaveirur í krukku. Einnig er möguleiki að túlka pörun litninga með dansi eða vera með getraun um lykilstaðreyndir líffræðinar.

Hver er heildarlengd litninganna 23 í hverri frumu mannsins?

  • A) 2 micrometrar
  • B) 2 centimetrar
  • C) 2 metrar

Bætt við 2. okt.

Rétt svar er C), heildar erfðaefni í einni frumu mannsins er 2 metrar. Þetta er mögulegt af því að DNA er mjög mjó sameind, sem auðveldlega rúllast upp í litnisagnir með aðstoð tilheyrandi prótína.

Ítarefni:

http://www.youtube.com/user/sprengjugengid 

E.s. 

Frétt um verðlaun fyrir vísindamiðlun, er í raun bara endurprentun á fréttatilkynningu.

http://www.hi.is/frettir/sprengjugengi_hi_hlaut_visindamidlunarverdlaun

Hvað þýðir það varðandi miðlun vísinda og fræða á Íslandi?


mbl.is Sprengjugengið verðlaunað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta finnst mér vera hárétt greining hjá þér, Arnar. Samkeppnin um athygli og tíma ungs fólks er mikil og auðvitað spurning í hvaða sæti vísindin lenda. Sýningin sem þú fjallar um að ofan er skemmtileg og vekur athygli en auðvitað er málið mun flóknara eins og þú bendir á. Það er nauðsynlegt að slík umfjöllun fari fram á Ísland t.d. hvernig vísindin eru kennd á öllum skólastigum og hvernig slíkri þekkingu er miðlað út í samfélagið. Í umræðum við R. Dawkins hafa kennarar sem eru í forsvari fyrir vísindakennslu í skólum hér í Bretlandi beinlínis viðurkennt að þeim finnist erfitt að taka afstöðu með vísindum e.t.v. af ótta við að styggja trúaða nemendur og foreldra þeirra.

Mbk.

Snorri Björn      

Snorri Björn Rafnsson (IP-tala skráð) 1.10.2013 kl. 09:35

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Snorri

Þessi mál eru varla til umræðu hér, önnur vandamál talin meira aðkallandi eða skemmtilegri viðfangs. 

Ég skil fyllilega aðdráttarafl sjónvarps, slúðurs og rússíbana, en við verðum að hlúa að undirstöðum samfélagsins, gagnrýnni hugsun, fræðilegri umræðu og vísindum.

Sem betur fer eru trúarhópar ekki jafn fyrirferðarmiklir hér. En engu að síður virðist mannleg náttúra valda því að athygli þjóðfélagsins beinist frekar að glitrandi hlutum en flóknum málefnum.

Arnar Pálsson, 1.10.2013 kl. 10:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband