8.10.2013 | 17:35
Vísindi sem hópíþrótt
Í dag fengu tveir eðlisfræðingar Nóbelsverðlaun fyrir Higgs-bóseindina. Í gær fengu þrír frumulíffræðingar verðlaun fyrir rannsóknir á frumubólum.
Ein spurning sem spyrja má er - hvers vegna fengu þessir þrír einstaklingar verðlaunin, en ekki einhverjir aðrir?
Svarið er viðeigandi sænsk eða norsk nefnd eða vísindaakademía velur. Tilnefningar þarf til, en meðlimir þessara nefnda og félaga eru þeir sem ákveða.
Dýpri spurning er, hvers margir mega fá Nóbelsverðlaun í hverjum flokki (efnafræði, eðlisfræði...o.s.frv.)?
Svarið í mesta lagi 3 geta fengið hver verðlaun.
Það er í hæsta máta bagalegt, því að vísindi eru ekki afrek einstaklinga, heldur hópíþrótt.
Peter Higgs og Francois Englert hafa sannarlega staðið sig vel, og uppgötvað og staðfest mörg fyrirbæri og afsannað önnur. En þeir unnu ekki einir.
Higgs bóseindin var ekki fundin af tveimur köllum sem voru að leika sér með flugdreka í þrumuveðri. Eindin fannst eftir margra ára starf hundruða einstaklinga við nokkrar stórar stofnanir í Evrópu.
Það er veruleiki vísinda í dag, þau eru hópvinna sem krefst annara eiginleika en prýddu snillinga fortíðar.
Tilhögun Nóbelsverðlaunanna endurspeglar vísindalega fornöld, þegar sérvitrir snillingar grúskuðu í einrúmi og hrópuðu Eureka um miðja nótt.
Vísindi þarfnast því bæði góðs fólks og góðrar umgjörðar. Umgjörðin samanstendur af bærilegum tækjakosti og húsnæði, en ekki síst fjármagni til að standa undir launum nemenda og aðstoðarmanna, sem og efniskostnaði. Rask á umgjörð vísinda þýðir tap á þekkingu og hægir á þroskun nýrra vísindamanna.
Hugmyndir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014, um 260 milljón króna lækkun á framlögum til rannsóknasjóðs Rannís er í ekki rask heldur aðför að umgjörð vísinda hérlendis.
Ítarefni:
The Guardian 8. okt. 2013 Jon Butterworth 'Nobel falsely promotes view of lone genius'
Niðurskurður í grunnrannsóknum
Verðlaunaðir fyrir Higgs-bóseindina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Þeir eru ekki eins hittnir á friðarverðlaunin blessaðir. Annar hver virðist vera stríðsglæpamaður í þeim hópi. Friður er enda afar afstætt hugtak.
Bíð eftir að þeir gefi einhverjum af Climate Change prestunum vísindaverðlaun. Þá hætti ég endanlega að taka mark á Nóbels fyrirbærinu. ;)
Jón Steinar Ragnarsson, 8.10.2013 kl. 18:59
Æji Jón Steinar - lifirðu enn þá í afneitun á loftslagsvísindunum. Ég held að það væri ráð að þú kynntir þér þau vísindi með opnum huga...þessi endalausa afneitun á einni grein vísinda er kjánaleg, sérstaklega hjá fólki sem ætti að teljast vel upplýst.
Sveinn Atli Gunnarsson, 8.10.2013 kl. 20:24
Sæll Jón Steinar
Það er lofsvert að veita verðlaun fyrir frið, eða friðarumleitanir.
En satt er að listinn er ansi skrautlegur, líklega vegna þess að fólk hefur kannski haldið að friðarverðlaun væri lóð sem dygði til að hvetja fólk til góðra verka.
Ég tek undir með Sveini, það er engin ástæða til að efast um þá ályktun að menn hafi áhrif á loftslag. Gögnin eru óyggjandi, og ættu í raun að vera áminning til okkar allra um að umhverfið er ekki botnlaus svampur, og að okkar gjörðir hafa afleiðingar fyrir lífríki og framtíð okkar og barna okkar.
Arnar Pálsson, 9.10.2013 kl. 09:13
Það á að afreka mesta afreksfólkið. Það er ennþá til og það breytist aldrei. Flestir vísindamenn eru eingöngu hjálparhellur og/eða páfagaukar/sæmilega velforrituð vélmenni, en búa ekki yfir leiftrandi hugsun eins og Einstein og Newton. Skandinavíska hópsálar-syndrómið þröngsýna stjórnar því miður nóbelsverðlaununum og þess vegna er komið fyrir friðarverðlaununum og bókmenntaverðlaununum eins og raun ber vitni, því samkvæmt "Jantelagen" frægu, sem er sá kjarni sem Skandinavísk menning snýst í kringum, og hefur eitrað íslenska þjóð líka með meðalmennsku sinni, er aðeins til ein synd, og hún er sú að skara fram úr á nokkru sviði, hvort sem er vitsmunalega eða á annan hátt, en meðalmennskukoðið er hin Skandinavíska dyggð. "Jantelagen" eru fjandsamleg alvöru vísindaafrekum, en þeir hafa ekki treyst sér í að rústa vísindaverðlaununum ennþá eins og verðlaunabrandörunum sem þeir útdeila á sviði mannréttindabaráttu og lista af fádæma dómgreindarleysi. Það færi betur að Bandaríkjamenn, Japanir, eða einhver önnur þjóð laus undan viðjum "Jantelagen" og óhrædd við alvöru afrek og andlega yfirburði sæi um þetta.
/ (IP-tala skráð) 13.10.2013 kl. 07:07
Jón Steinar, æðsti prestur Climate Change hefur þegar fengið verðlaunin, hann Al Gore kallinn, og það voru einmitt friðarverðlaunin. Kallinn fékk þetta bara fyrir að spjalla smá um loftslagsbreytingar. Þeir treysta sér ekki í að rústa vísindaverðlaununum. Hvaða nóbelsverðlaun er að marka og hver eru frat? Mjög auðvelt að fara í gegnum það. Farðu yfir hlutfall gyðinga á hverjum lista fyrir sig. Þar sem það er afgerandi hátt er um alvöru verðlaun að ræða, það sem það er lægra, á sviðum sem auðveldara er að fella ranga dóm um eins og "frið" og keppni í "skáldskap", þar erum við ekki lengur að tala um nein merkileg verðlaun. Pulitzer verðlaunin hafa til að mynda löngu sannað sig að vera merkari verðlaun en Nóbelinn á sviði bókmennta, og Nóbelinn er í allra skásta lagi sjötta mesta upphefð sem rithöfundum hlotnast, þó margir óverðugir hafi fengið þau líka. Það er ekki þannig á sviði raunvísinda, því þar blasa afrekin meira við hverjum sem er, sem gerir það erfiðara að stunda mútur og frændsemi og láta "Jantelagen" ráða för.
/ (IP-tala skráð) 13.10.2013 kl. 07:13
Að gefa stjórnmálamönnum friðarverðlaun til að "hvetja" til góðra verka er jafn sanngjarnt, réttlátt og skynsamlegt og að gefa rokkurum verðlaunapeninga til að hvetja til siðsamlegs klæðnaðar, hófdrykkju og skírlífis. Skandinavíska forræðishyggjusýkin á hæsta stigi, siðlaus og laus við allt réttlæti sem hún er. Valdamenn verðlaunaðir fyrir að hafa ekki varpað kjarnorkusprengjum á fyrsta degi, og litla fólkið í fremstu víglínu sem hættir öllu sínu hunsað og einskis virt. Skandinavískt siðferði og réttlætiskennd í hnotskurn.
/ (IP-tala skráð) 13.10.2013 kl. 07:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.