Leita í fréttum mbl.is

Fín grein hjá rektor HÍ

Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands birti grein í Fréttablaði dagsins, undir yfirskriftinni Borðum ekki útsæðið.

Þar rekur hún þá beinhörðu verðmætasköpun sem verður í Háskóla Íslands, og telur til framlag alþjóðlegra styrkja, einkaleyfi og sprotafyrirtæki. Í greininn segir:

---------------------

Eftir niðurskurð fjárveitinga í kjölfar efnahagshruns, hefur rekstri Háskóla Íslands verið haldið innan ramma fjárlaga með lækkun kostnaðar og ströngu aðhaldi. Skólinn leggur einnig mikla áherslu á að sækja styrki úr samkeppnissjóðum til að tryggja framgang vísindastarfs. Árangur þeirrar sóknar byggist á markvissri uppbyggingu rannsóknastarfs við skólann undanfarin ár og áratugi.

Vísindamenn Háskóla Íslands afla nú um 1,8 milljarða króna á ári úr alþjóðlegum samkeppnissjóðum, sem koma inn í íslenska hagkerfið sem gjaldeyristekjur. Styrkirnir eru notaðir til tækjakaupa, rekstrar og til að greiða laun vegna nýrra starfa. Leiðandi einstaklingar og hópar innan skólans eru í sívaxandi mæli gjaldgengir í þessari hörðu alþjóðlegu samkeppni.  

.....

Auk þessara fjármuna kemur svipuð fjárhæð í erlendum gjaldeyri inn í landið vegna þátttöku vísindamanna HÍ í verkefnum annarra innlendra stofnana og fyrirtækja. Þannig má ætla að vísindastarfsemi við skólann skapi á fjórða milljarð króna í beinar gjaldeyristekjur.

Fjárhæðir rannsóknastyrkja til HÍ úr innlendum samkeppnissjóðum eru mun lægri en úr þeim erlendu. Þannig veitti Rannsóknasjóður Vísinda- og tækniráðs samtals 416 mkr. til íslenska vísindasamfélagsins í heild árið 2012. Hlutdeild vísindamanna HÍ var 315 mkr. Þótt styrkirnir séu verulega lægri en þeir erlendu, skipta þeir sköpum, ekki síst fyrir unga vísindamenn. Verkefnin eru styrkt í harðri samkeppni og leiða til nýrrar þekkingar. Oft eru þeir grundvöllur þess að hægt sé að sækja erlent styrktarfé. 

--------------

Hér útlistar rektor ítarlega og á skýran hátt rökin fyrir því að verja samkeppnisjóði Rannís og vitanlega einnig að skerða ekki framlög til Háskóla.

Við fögnum þessari grein rektors HÍ og tökum undir málflutning hennar og ályktanir heils hugar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Samkeppni og vísindi fara skringilega saman. Annað hvort eru kenn góðir vísindamenn eða ekki. Háskólinn er uppfullur af fastlaunuðum steintröllum sem engu skila, enda er hann í 300 sæti að virðingu og sá lélegasti í Evrópu af ríkisháskóla að vera.

Er ekki spurning um að hann fari í sjálfskoðun og hundahreinsum áður en hann heimtar meiri peninga?

Þið eruð með happdrætti og spilakassa til auðgunnar. Það eru ekki litlir peningar. Þeim er varið í steinsteypu og mikilmennskubrjálaða glerganga utan um ekkert.

Sjálfsmat stofnunnarinnar er ekki í neinu samræmi við getu. Samkeppnishæfni ræðst einmitt af þessari getu.

Jón Steinar Ragnarsson, 31.10.2013 kl. 11:56

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Jón Steinar

Samkeppnissjóðir eru ekki gallalaus aðferð til að útdeila peningum í rannsóknir, en samt sú skásta sem við höfum.

Það er nóg af vandamálum við menntakerfið á Íslandi, og HÍ er þar ekki undanskilinn.

Hluti af vandanum er að HÍ er með 50% af þeim pening sem sambærilegir skólar á norðurlöndunum og á Bretlandseyjum fá til reksturs.

Ég vildi óska að HÍ þyrfti ekki happadrætti til að fjármagna húsbyggingar eða tækjakaup. Sum árin er blótað, því að of margir stórir vinningar eru dregnir út, og minna til skiptanna fyrir húskostinn. Í alvöru landi þyrfti besti háskóli landsins ekki að stóla á spilafíkla til að byggja yfir starfsemina.

Reyndar er ég þér sammála um að húsbyggingar HÍ hafa ekki verið til að hrópa húrra yfir, sérstaklega dýrar og flóknar arkitektúr hallir sem henta ekki endilega fyrir vísindi eða kennslu.

Ég er líka sammála um að stofnunin er ofmetin, og skrið inn á topp 300 er mótað af skynsamri pólitík -  því að skipa fólk frá Hjartavernd og Íslenskri erfðagreiningu gestaprófessora og þannig telja greinar þeirra til tekna HÍ, eins og ég hef skrifað um hér

Decode dregur upp Háskóla Íslands

Til að starfsfólk HÍ og annara stofnanna hérlendis geti iðkað góð vísindi, þarf öfluga samkeppnissjóði. Hérlendis er mjög lítið hlutfall ríkistekna varið í samkeppnissjóði (miðað við norðurlönd t.d.), mestur hluti fer í stofnanir og sérverkefni, þar sem ekki er krafa um vísindaleg gæði.

Arnar Pálsson, 31.10.2013 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband