Leita í fréttum mbl.is

Til varnar rannsóknarsjóðum

Berist fjárlaganefnd Alþingis
Athugasemd vegna fjárlagafrumvarps 2014 varðandi niðurskurð til samkeppnissjóða RANNÍS.
Ágætu nefndarmenn,
Við undirrituð lýsum yfir áhyggjum af þeim niðurskurði á fjárlögum til vísindastarfs í landinu sem nú er yfirvofandi. Við teljum það alvarleg mistök að draga svo mjög úr framlögum til RANNÍS eins og gert er með núverandi fjárlagafrumvarpi.


Um 30% niðurskurður fyrirhugaður á nýjum styrkveitingum
Af gögnum á heimasíðu RANNÍS (http://rannis.is) má sjá að með óbreyttu frumvarpi munu nýjar styrkveitingar dragast saman um u.þ.b. 30% að heildarupphæð á milli ára. Þá er ekki tekið tillit til þess að nú voru þeir styrkir sem áður féllu sérstaklega undir Rannsóknanámssjóð auglýstir með úthlutun úr Rannsóknasjóði í huga. Sé það reiknað með er samdrátturinn enn meiri. Niðurskurður á nýveitingum rannsóknastyrkja bitnar sérstaklega hart á ungum vísindamönnum.


30-40 ársverk ungra vísindamanna munu tapast við þennan niðurskurð
Miðað við að áfram fari um 80% af úthlutunum RANNÍS í launagreiðslur liggur fyrir að a.m.k. 30-40 störf muni tapast úr íslensku vísindasamfélagi á næsta ári. Við höfum sérstakar áhyggjur af þessum samdrætti í nýveitingum styrkja þar sem hann mun hafa veruleg áhrif á unga vísindamenn í landinu. Atvinnuöryggi ungra vísindamanna er nú þegar mjög ótryggt og úthlutanir úr sjóðum RANNÍS er helsta leið ungra vísindamanna til framfærslu fyrstu 10-15 árin eftir að grunnháskólanámi lýkur.


Niðurskurður til RANNÍS þýðir niðurskurð á bestu rannsóknunum
RANNÍS hefur yfir að ráða öflugustu og mikilvægustu samkeppnissjóðum landsins. Öflugustu vísindamenn landsins keppa sín á milli um úthlutanir og verkefni eru aðeins styrkt standist þau og aðstandendur þeirra ströngustu alþjóðlegar gæðakröfur. Stuðningur úr samkeppnissjóðum er því besta leiðin til að stuðla að rannsóknum á heimsmælikvarða. Í ljósi þeirra miklu fjármuna sem er veitt til rannsókna og þróunar á Íslandi með öðrum hætti en gegnum samkeppnissjóði er það óskiljanleg ákvörðun að skerða mikilvægasta samkeppnissjóð landsins á sviði vísinda.


Margföldunaráhrif verða af tapi á mannauði
Tekið getur áratugi að byggja aftur upp það sem nú á að skera niður. Það er háalvarlegt mál að vísindasamfélagið verði fyrir slíkum skakkaföllum nú eftir viðvarandi niðurskurð undanfarins áratugar, enda hefur lengi legið fyrir að vísindakerfið á Íslandi hefur verið undirfjármagnað. Ekki verður staðar numið í uppbyggingu vísindastarfs tímabundið til að halda áfram þar sem frá var horfið nokkrum árum síðar. Fyrir hvert ár með skertu fjármagni verður margra ára afturför í vísindastarfi, m.a. vegna taps á mannauði úr samfélaginu.


Raunlækkun styrkja verður enn meiri en 30%
Hækkun sú er varð á framlögum úr ríkissjóði til RANNÍS á síðasta ári var leiðrétting á þeirri skerðingu sem sjóðirnir hafa orðið fyrir gagnvart launavísitölu. Eins og kemur fram að ofan rennur um 80% af úthlutunum úr Rannsóknarsjóði í laun. Miðað við launavísitöluþróun undanfarinna 10 ára, að viðbættum hækkunum á tryggingagjaldi, mun raunskerðing á fjárframlögum úr RANNÍS nema fimm prósentustigum árlega umfram ofangreindan niðurskurð.
Árið 2016 verða því nýjar úthlutanir komnar niður í um 60% af því sem þær voru árið 2005, og þó hefur alltaf staðið til að efla samkeppnissjóðina.


Niðurskurðurinn gengur þvert á stefnumótun Vísinda og tækniráðs
Þetta gengur þvert á stefnu Vísinda og tækniráðs, sem hefur gert ráð fyrir eflingu samkeppnissjóða á Íslandi með það að markmiði að fjármögnun rannsóknaháskóla úr samkeppnissjóðum nái sama hlutfalli og að meðaltali í OECD árið 2016. Til þess að það takist þarf að verða 4-7 földun á framlögum úr sjóðunum næstu 2-7 ár í stað þess niðurskurðar sem nú er boðaður. Nánar má lesa um þetta í skýrslu Forsætisráðuneytisins frá desember 2012, „Ný sýn - Breytingar á vísinda- og nýsköpunarkerfinu“.
Við viljum að lokum árétta að fjárfesting í grunnrannsóknum er forsenda hagvaxtar vestrænna þjóða, þar sem þekkingarsköpun styður við verðmætasköpun sem byggir á hugviti. Keðjuverkandi áhrif af niðurskurði í samkeppnissjóði geta því orðið mikil.

147 vísindamenn skrifa undir þessa athugasemd.

Vísindamenn skora á fjárlaganefnd að endurskoða fjárlög fyrir samkeppnissjóði Rannís


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband