Leita í fréttum mbl.is

Að stunda vísindi á ísjaka

Grunnvísindi hafa alltaf verið afskipt hérlendis. Til dæmis veitum við mjög lágu hlutfalli rannsóknarpeninga í samkeppnissjóði. Þetta birtist einnig í því að það tók þriggja ára fortölur til að sannfæra fyrrverandi menntamálaráðherra um að hækka styrki til samkeppnissjóða, sem styrkja grunnrannsóknir og tækniþróun.

Nýi menntamálaráðherrann dró þá hækkun til baka undir yfirskini sparnaðar, en mann grunar að meginástæðan sé sú að pólitískur andstæðingur hans stóð fyrir henni. 

Í umræðum á alþingi 4. nóvember 2013 sögðust allir á mælendaskrá að vísindi myndu auka hagsæld og framfarir, en enginn stjórnarliði var tilbúinn að endurskoða niðurskurðinn. Menntamálaráðherra var með gagnslitlar uppástungur:

Vísinda- og tækniráð ítrekar mikilvægi þess, og það hefur komið fram, að íslenskir vísindamenn sæki um í alþjóðlega samkeppnissjóði og byggi þannig upp alþjóðlega rannsóknarhópa.

Vandamálið er að íslenskir vísindamenn þurfa innlenda styrki til að vera gjaldgengir í erlent samstarf. Útlendingarnir vilja ekki vinna með þeim sem hafa ekkert nema hugarafl fram að færa. Peningar og mannafli eru hreyfikraftur vísindalegra framfara, því hugmyndirnar sjálfar þarf að prófa og sannreyna!

Á nýafstaðinni ráðstefnu Rannsóknamiðstöðvar Íslands kynnti Jan Truszczynski (Director General, DG Education and Culture, European Commission) nýja rannsóknaráætlun evrópusambandsins, sem Ísland er aðilli að.

Ég spurði hann hvernig íslenskir vísindamenn ættu að geta sótt um í evrópuáætlanir án þess að hafa stuðning að heiman? Með einfaldri líkingu, hvernig eigum við að fljúga á Evrópskum styrkjum ef Íslensk stjórnvöld plægja upp flugbrautir okkar?

Svar hans var að rannsóknasjóðir Evrópusambandsins eiga ekki að koma í staðinn fyrir samkeppnissjóði einstakra landa (sem taka þátt í rannsóknaráætlunum sambandsins).

Það að stunda grunnrannsóknir hérlendis er dálítið eins og að stunda vísindi á ísjaka. Umhverfið er óaðlaðandi, undirstaðan hverful og glóruleysi stjórnvalda þýðir að stefnan er tekin til botns, því á endanum bráðnar klakinn.

Ítarefni:

Opnunarráðstefna nýrra samstarfsáætlana ESB á Hótel Sögu 22. nóvember

147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum

Hans Guttormur Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti

Stefna Vísinda- og tækniráðs 2010-2012

Erna Magnúsdóttir ofl. Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

Arnar Pálsson Lítil von um hagvöxt, ef rannsóknum er fórnað

Ályktun vegna samkeppnissjóða

Breytingar:

Ágústi eru þakkaðar leiðréttingar á stafsetningu.


mbl.is Fá 1,7 milljónir evra í styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

"Ég vil beita mér fyrir því að ungu fólki séu betur kynntir þeir framtíðarmöguleikar sem felast í vísinda- og tæknimenntun sem getur tengst, ekki bara sjávarútvegi og fiskiðnaði , heldur matvælaiðnaðinum almennt. Þá langar mig til þess að minna menn á mikilvægi þess að búa til ný störf sem skapa nægjanleg verðmæti til að standa undir þeim launum og lífsgæðum sem við sættum okkur við – þau tækifæri eru til staðar í sjávarútveginum. Það verður ekki gert nema við séum ávallt í fremstu röð og getum boðið fram vöru og þjónustu í hæsta gæðaflokki. Þar er stöðugt á brattann að sækja því samkeppnin er mikil.

Ég trúi því og treysti að við ofmetnumst ekki af þeim góða árangri sem við höfum náð til þessa heldur höldum áfram að bæta okkur. Jónas Hallgrímsson sagði í kvæði sínu til vísindamannsins Páls Gaimards árið 1839: ,,Vísindin efla alla dáð, orkuna styrkja, viljann hvessa, vonina glæða, hugann hressa“. Þau orð vil ég gera að lokaorðum mínum hér í dag."

 Úr ávarpi sjávar- og alltmögulegtannaðmálaráðherra á  Íslenku sjávarútvegsráðstefnunni um daginn. Skilst reyndar að hann hafi ekki gefið kost á viðtali að ræðu lokinni...

Haraldur Rafn Ingvason, 26.11.2013 kl. 17:20

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Haraldur fyrir þessa tilvitnun.

Það er nóg af orðagjálfri, en það eru verkin sem tala.

Arnar Pálsson, 27.11.2013 kl. 09:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband