Leita í fréttum mbl.is

Skortur á virðingu fyrir menntun og fræðum

Niðurstöður PISA könnunarinnar er áfall, en samt fyrirséð. Teikn hafa verið á lofti í mörg ár (sumir segja áratugi), fleiri börn og unglingar eiga í miklu basli með lærdóm og lestur.

Ástæðurnar eru nokkrar, en ein þeirra er skortur á virðingu fyrir menntun og fræðum.

Þetta birtist meðal annars  í launum kennara, almennum viðhorfum gagnvart menntafólki og fræðimönnum og í stefnu ríkistjórnar í vísindamálum (t.d. lágu hlutfalli fjármuna í samkeppnissjóði).

Þetta birtist einnig í afburða lélegum vísindafréttum margra miðla. Tvö nærtæk dæmi af Pressunni eru sérstaklega sláandi.

Í "frétt" frá því um helgina var því haldið fram að mannkynið hefði sprottið úr kynblöndun svíns og apa. Pressan 30. nóv - Ný kenning: Varð mannkynið til við kynblöndun apa og svína? Þar sagði m.a.

Hljómar ótrúlega en einn af virtustu erfðafræðingum heims heldur þessu fram og segir að mannkynið eigi tilveru sína að þakka að karlkyns svín hafi parast með kvensimpansa.

Það er Eugene McCarthy, hjá University of Georgia, sem heldur þessu fram en hann er einn af fremstu sérfræðingum heims í kynblöndun dýra. Máli sínu til stuðnings bendir hann á að við mannfólkið eigum margt sameiginlegt með simpönsum en að margt af því sem einkennir okkur sé ekki að finna í neinum öðrum prímötum.

Zophonías Jónsson skrifaðist á við ritstjóra Pressunar, sem þurftu mjög ítarlegar fortölur áður en þeir sættust á að þessi frétt væri skólp. Þeir drógu hana til baka (eftir að rúmlega 400 saklausar sálir "lækuðu" óskapnaðinn), en hafa ekkert lært, því í gær birtist Nú verða veturnir kannski kaldari og lengri. Þar var vitnað í loftslagsafneitara - sem segir að loftslagsbreytingarnar séu náttúrulegar - þrátt fyrir að yfirgnæfandi sannanir séu fyrir því að þær séu afleiðingar mannana verka.

Orsakirnar eru við

 

Rætur vandans liggja hjá okkur öllum. Ég t.d. skammast mín fyrir það að hafa ekki mætt í mína eigin útskrift eftir meistarapróf (ég kaus frekar að fara í sveitina og planta trjám). En við getum unnið bug á þessari meinsemd á nokkra vegu.

  • Með því að krefjast betra mennta og rannsóknarumhverfis
  • Berum virðingu fyrir kennurum og fræðimönnum
  • Sýnum virðinguna í verki með fjárstuðningi
  • Krefjumst árangurs tilbaka, með betri kennslu og öflugu starfi
  • Hættum að tala niður skólakerfið
  • Hömpum jákvæðum fyrirmyndum, ekki andhetjum sem hatast út í kennarana sína
  • Styðjum við rannsóknir (ekki síst í menntavísindum) með sterkari samkeppnsjóðum

Í samfélagi  nútímans þarf allt að vera skemmtilegt eða hagnýtt, en menntun er oft stimpluð sem leiðinleg.

Menntun er skemmtileg. Hún finnur náttúrulegri forvitni okkar útrás, um leið og hún bætir okkur sem manneskjur.


mbl.is Niðurstöður PISA verulegt áfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Allt er þetta satt og rétt sem skrifað er hér að ofan. Það er ansi umhugsunarverður munur líka sem kemur fram milli höfuðborgarsvæðis og hinna dreifðu byggða. Margir spyrja sig og aðra hver ástæðan sé fyrir því. Þar er efalítið um margt að ræða. Eitt með öðru er að brottflutningur af landsbyggðinni hefur verið að miklu leyti "selektívur", þ.e. brott hefur flutt fólk með menntun og fólk með tekjur. Þeir sem eftir sitja er yfirleitt fólk sem af einhverjum ástæðum hefur orðið útundan í samfélaginu vegna lægra menntunarstig meðal annars. Oft er það einnig þannig að í skörðin hefur verið fyllt með farandverkafólki, börn þeirra eiga oft í erfiðleikum í skóla vegna tungumálaörðugleika og menningarmunar, auk annarra þátta.  Margt fleira mætti nefna í þessu samhengi. Svo er það líka þannig að af sjálfu leiðir að kennarar flýja líka, þannig að þó ekki væri af öðrum orsökum en þeim einum, þ.e. menntuðum kennurum fækkar niður fyrir hættumörk, dygði það í sjálfu sér til að skýra muninn.

E (IP-tala skráð) 3.12.2013 kl. 15:02

2 identicon

Ég hef reynt að kynna mér loftlags breytingar eins og ég get. En ég hef ekki fundið neinar yfirgnæfandi sannanir fyrir því að það sé af mannavöldum.

Mannavalda sinnar voru með eitt sannfærandi gagn, og það var graffið sem sýndi samskonar sveiflur á CO2 og hita, en síðan kom í ljós að CO2 eykst 500 árum eftir að það hitnar og er hluti af sjálfkælingar ferli jarðar. s.s meiri hiti= fleiri ský, fleiri ský= minni CO2 umbreyting í plöntum.

Svo ég sé ekkert yfirgnæfandi þar á ferð.

Karl (IP-tala skráð) 3.12.2013 kl. 18:13

3 identicon

Skólakerfið fær meira en nægann stuðning frá samfélaginu. Vandamálið er að kerfið étur sjálft upp peninginn áður en hann kemst í skólann. Hitt er svo að fólk er fast með skóla, það ríkir engin samkeppni og skólar þurfa ekki að standa sig vel til að halda rekstrinum gangandi. Augljóslega eru þetta aðstæður sem bjóða ekki uppá neitt nema pirring útí skóla yfirvöld og hnygnun.

Páll (IP-tala skráð) 3.12.2013 kl. 18:16

4 identicon

Grilla og græða, ekki lesa og læra.

Þetta kemur mér ekki á óvart. Hef fylgst með námi unglinga og komist að því að öll heimavinna er horfin, jafnvel talin óþörf, ef ekki skaðleg fyrir nemandann. Því vinna margir með náminu eða hanga í tölvunni.

Þá er mikið talað um „námsleiða“ hjá nemendum, hljómar betur en leti, áhugaleysi og/eða vanhæfni. Samt ná flestir prófi, nær allir setja upp stúdentshúfuna. Því þá að kúra, sýna metnað.

Þá kemur í ljós að menn geta orðið forsætis- og utanríkisráðherrar, án nokkurar menntunar.

Greind Íslendinga er í meðallagi, vil ég vona, en ekkert meira. Þessi meðalmennska endurspeglast einnig í pólitískum analabetisma kjósenda. Aftur og aftur verðum við vitni að því, ekki síst við síðustu forseta- og alþingiskosningar.

Líklega er þjóðin í eðli sínu konservatíf, en sá hópur hefur greindarvísitölu undir meðallagi (80-89).

 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.12.2013 kl. 19:10

5 identicon

Síðan "fréttamenn" pressunnar rugluðu saman orðunum orgasm og organism og birtu frétt um að vísindamenn hafi búið til "fullnægingu í glasi" held ég að það sé útséð með gáfulegar vísindafréttir þar á bæ...

Bylgja Hilmarsdóttir (IP-tala skráð) 4.12.2013 kl. 09:18

6 Smámynd: Arnar Pálsson

E

Það er margt athyglisvert og að vissu leyti ógnvænlegt varðandi þróun byggðar, aldursdreifingu á landsbyggðinni og menntunarstig hérlendis.

Ég heyrði í manni frá finnska  menntamálaráðaneytinu í sumar, og hann sagði að þeir legðu áherslu á rannsóknir í menntavísindum, virðingu fyrir kennurum og menntun, og að traust ríkti á milli hlutaðeigandi (ráðuneytis, sveitarfélaga, skóla, kennara og nemenda).

Karl

Ég skora á þig að skoða www.loftslag.is mjög ítarlega.

Páll

Sannarlega má fara betur með fé í skólakerfinu, og breyta því. En ég tel að vandamálið sé ekki skortur á samkeppni, heldur virðing, peningar og etv kröfur í kennaranámi. Um leið og námið nýtur meiri virðingar, og launin hækka, og þegar bara gott fólk kemst í kennaranám, þá er möguleiki á að bæta hlutina.

Nú erum við að renna niður sleipa brekku og við þurfum viðspyrnu. Einkavæðing kerfisins er ekki lausnin.

Haukur

Ég get ekki tekið undir allt sem þú segir, en það er rétt að þjóðfélag sem metur gleðskap meir en menntun, mun renna á rassinn.

Aftur varðandi nám og nemendur. Í Finnlandi eru nemendur ekki endilega lengi í skólanum, eða með mikla heimavinnu. En til þeirra eru gerðar kröfur og þeim er treyst til að leysa verkefni. Finnar eru einnig með öflugt verkmenntakerfi, sem þjálfar fólk sem leiðist hefðbundinn bóklærdómur og stærðfræði.

Ég hjó eftir því í umræðunni að rætt hefði verið um að íslenskir krakkar væru yfirleitt glaðir í skólanum og með gott sjálfstraust. Það er reyndar þannig að fólk með mikið sjálfstraust, telur sig ekki þurfa menntun. Tvær stereótýpur (studdar gögnum) eru kokhrausti blökkumaðurinn í fátæku hverfi og gyðingastrákurinn sem finnst hann flopp af því að hann er bara verkfræðingur en ekki forstjóri eða skurð læknir. Við verðum að gera jákvæðar kröfur til barnanna, hvetja þau áfram til góðra verka. Einhver uppalandi sagði mikilvægt að hrósa börnum fyrir góð "afmörkuð" afrek en halda einnig áfram að hvetja þau áfram. En vitanlega verðum við einnig að passa okkur á því að grafa ekki undan sjálfstrausti þeirra.

Bylgja

Takk fyrir ábendinguna, þetta er stórbrotið og ótrúlega sorglegt dæmi. Félagar mínir hér voru að segja að það væri ekki nóg að Pressan tæki fréttina um svínin, apana og mennina af vefnum. Þeir ættu í raun að biðjast afsökunar á flumbrinu. Annars geta þeir ekki lært af reynslunni.

Arnar Pálsson, 4.12.2013 kl. 11:47

7 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Greinin um löngu veturna á pressunni hefur núna fengið yfir 400 "læk" - sú grein er einnig skólp. Þar er reyndar vísað í allavega einn raunverulegan vísindamann (Mike Lockwood - þekki svo sem ekki öll nöfnin) - en hann spáir engri kólnun þó svo að það sé hugsanlegt að virkni sólar minnki um tíma. Það má lesa eitthvað um tengt efni á loftslag.is - Við minni virkni sólar - þarna kemur m.a. eftirfarandi fram:

Niðurstaðan er því sú að sólvirkni sambærileg við Maunder lágmarkið myndi að öllum líkindum aðeins minnka hlýnunina lítillega og að auki að sú minnkun myndi líklega aðeins vara í nokkra áratugi.

S.s. ekki kólnun heldur minnkandi hlýnun - dæmi: í stað 2°C hlýnun síðar á öldinni, þá gæti niðurstaðan orðið 1,7°C hlýnun (bara sem dæmi) - s.s. hækkandi hitastig en ekki eins mikil hækkun og hefði orðið við óbreytta virkni sólar.

Það er mjög algengt, að því er virðist, að það sé snúið út úr því sem vísindamenn eiga að hafa sagt - eins og að kenna einhverja kólnunarkenningu við Lockwood - sjá meir um það í eftirfarandi tengli, þar sem m.a. er skoðað hvað prófessor Lockwood hefur um málið að segja Climate scientists don’t think we’re heading for another "Little Ice Age". Eða eins og þarna kemur fram:

Having spoken with Professor Lockwood, it's clear he isn't warning of a "new mini-ice age." He tells us a decline in solar activity would have "nothing more than a minor effect" on global temperature.

Merkilegt hversu fréttaflutningur af loftslagmálum er oft á tíðum ónákvæmur - og pressan virðist vera leiðandi í svona ónákvæmum fréttaflutningi um þessar mundir.

Takk fyrir að vísa á loftslag.is Arnar.

Sveinn Atli Gunnarsson, 4.12.2013 kl. 15:51

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Sveinn

Þið verðið að hafa samband við ritstjórn Pressunar og fá hana til að leiðrétta bullið.

Það að draga svona skólp til baka er ekki nóg, miðlarnir þurfa einnig að sýna fagmennsku og viðurkenna mistök!

Arnar Pálsson, 5.12.2013 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband