11.12.2013 | 14:53
Ávaxtaflugur ná vopnum sínum
Yfir 8 ára tímabil voru ávaxtaflugur mín tilraunadýr. Ég stundaði ævintýralega skemmtilegar rannsóknir á erfðum. Kortlagning gena er dálítið eins og fjársjóðsleit.
Fyrst þarf maður að finna út hvort að fyrirbærið sem við vorum að skoða væri arfgengt, eða undir hvort umhverfisþættir réðu mestu. Í mínu tilfelli vorum við að skoða lögun vængsins. Og sem betur fer skiptu genin langmestu máli fyrir breytileika í formi hans. Um 60-80% af breytileika í lögun var ákvarðaður af genum.
En svo kom erfiði parturinn, hvaða gen af þeim 13000 sem eru í ávaxtaflugum skipti máli fyrir vænginn? Þá þurftum við að kortleggja, og lesa okkur til um þau gen sem aðrir höfðu rannsakað. Þetta lukkaðist allt saman ágætlega, og við fundum að vissar stökkbreytingar í EGFR geninu höfðu áhrif á fjarlægð milli ákveðinna æða í vængnum (sjá mynd í stað andlits á bloggi þessu). EGFR genið er reyndar merkilegt að því leyti, að það á sér hliðstæðu í mönnum. Og ofvirkjun í EGFR getur stuðlað að myndun krabbameins.
En ávaxtaflugan sem ég rannsakaði, Drosophila melanogaster er meinleysis grey. Flugan nærist á rotnandi ávöxtum og matarleifum, oftast í kringum ávaxtaekrur, markaði og ruslahauga. Hún er "mannvinur" og hefur fylgt okkur um hnöttinn, hún nam t.d. land í Ameríku eftir landafundina miklu. Hún veldur hvorki skemmdum á uppskeru né ber sjúkdóma.
Það kom fyrir að ættingjar og vinir gagnrýndu mann fyrir að rannsaka pöddu sem væri ekki hættuleg. Fyrir þeim voru meindýravarnir eina skiljanlega ástæðan fyrir því að vilja rannsaka flugur. En sem betur fer tókst mér (eða ég reyndi amk) að útskýra að flugan væri forvitnileg í sjálfu sér. Og að lærdómur sem dregin væri af ávaxtaflugum hefði þýðingu fyrir aðrar rannsóknir á t.d. sjúkdómum eða þróun lífsins.
Ættartré ávaxtaflugna er stórt, það eru hundruðir tegunda sem margar hverjar eru ansi sérhæfðar. Nýlega fræddist ég um tegundina Drosophila suzukii sem ólíkt flestum öðrum ávaxtaflugum er hin mesta pest. Þær hafa mesta lyst á ferskum ávöxtum og herja á ávaxtaekrur. Þær geta valdið umtalsverðu tjóni. Tegundin er upprunin í suður-asíu, en hefur breiðst til Ameríku og Evrópu á mjög stuttum tíma. Hennar var vart á Hawaii um 1980, og á meginlandi norður Ameríku og Evrópu eftir aldamót.
Nú hefur hin meinlausi flokkur ávaxtaflugna eignast meinvald með slagkraft. Ávaxtaflugurnar hafa náð vopnum sínum, og okkur er hollast að lúta þeim af auðmýkt.
Myndir og meiri upplýsingar um D. suzukii* má sjá á vef Florida háskóla.
spotted wing drosophila - Drosophila suzukii (Matsumura)
Grein um raðgreiningu erfðamengis D. suzukii á vef tímaritsins G3.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:27 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.