Leita í fréttum mbl.is

Kóngar og nafnlausir drengir

Við gerum mjög mikið úr muni á milli einstaklinga, kóngur eða smábóndi, knattspyrnuhetja eða saumakona. Samt er það ófrávíkjanleg staðreynd að menn eru af sömu tegund.

Sagan af Ríkharði III og beinum í Leicester

Fyrir rétt rúmlega ári sögðust vísindamenn við Háskólann í Leicester hafa fundið leifar Ríkharðs 3 konungs. Aldur og eiginleikar  beinagrindarinnar studdu tilgátuna, en flestir sannfærðust af erfðafræðilegum gögnum sem sýndu skyldleika við ættingja Ríkharðs.

Það sem fréttatilkynningin og vefsíða rannsóknarhópsins við Leicester háskóla sagði frá var að þeir hefðu grein hluta af hvatberalitningi úr höfuðkúpunni, og fundið að hún passaði við ættingja  sem rakti móðurlínu sína til móður Ríkharðs*.

En margir erfðafræðingar voru ekki sannfærðir. Þeim fannst of lítill bútur vera athugaður, ekki var sýnt fram á hversu algeng (eða óalgeng) að þessi gerð hvatbera-litningsins væri í fólki af bresku bergi?

Engin ritrýnd vísindagrein hefur birst um þessi erfðafræðilegu gögn. Samt finnst Wellcome trust og nokkrum öðrum aðillum ásættanlegt að verja 100.000 pundum í að freista þess að raðgreina erfðamengi úr þessari hauskúpu.

Í stuttu máli, er ég ekki sannfærður um að beinin séu úr Ríkharði.

Nafnlaus drengur kortleggur sögu Ameríku

Hins vegar bárust fréttir af niðurstöðum stórrar rannsóknar Eske Willerslev við Kaupmannahafnarháskóla og samstarfsmanna hans, sem varpa ljósi á sögu Ameríkubúa.

140212132807-largeMynd Sarah Anzick, af vef Science Daily.

Forsagan er sú að fyrir rúmum 50 árum fannst bein á Anzick landareigninni í Montana. Beinið fannst á sama stað og sérlega vandaðir steinoddar, sem kenndir eru við Clovis-menninguna. Clovis menningin er forvitnileg fyrir sögu Ameríku, því þar fundust fyrst háþróaðir spjótsoddar, sem hægt var að festa á kastspjót. Gripirnir eru um 13.000 ára gamlir, og finnast vítt og breitt um N. Ameríku. Í eldri jarðlögum finnast engar menjar um menn eða verkfæri. Því er talið að Clovis menn hafi verið fyrstu landnemarnir í Ameríku. Einnig hefur því verið haldið fram að Clovis fólkið hafi veitt og útrýmt mörgum stórum landdýrum sem fyrir voru í Ameríku (t.d. stórum letidýrum, amerískum hestum og sverðtígrinum).

Ýmsar hugmyndir voru um uppruna Clovis fólksins, t.d. að það hefði komið frá Síberíu yfir Beringseiðið, eða jafnvel frá Eyjaálfu eða Evrópu.

Raðgreining á DNA í Anzick beininu sýnir hins vegar að drengurinn er náskyldur núverandi íbúum Ameríku. Sérstaklega er mikill skyldleiki við ættbálka í S. Ameríku en einnig við frumbyggja N. Ameríku og austurhluta Síberíu. Gögnin duga ekki til að skera úr um hvort að Ameríka var byggð af einni holskeflu, eða hvort fleiri bylgjur fólks hafi numið þar land.

Erfðamengi úr beinum löngu látins fólks afhjúpar sögu þjóðanna.

Fyrir skilning okkar á sögu þjóðanna er eitt bein úr þessum um eins árs gamla  nafnlausa dreng mikilvægara en beinagrind sem fannst undir bílastæði í Leicester og eignuð hefur verið Ríkharði III.

*Ríkharður átti engin afkvæmi, og þar að auki erfast hvatberar bara frá móður til barna, aldrei frá föður

Pistill þessi er byggður á spjalli við Leif Hauksson í Sjónmáli, og nokkrum heimldum sem fylgja hér að neðan.

Rúv 14. feb. 2014. Frumbyggjar Ameríku komu frá Asíu

http://io9.com/5981784/richard-iii-identified-not-so-fast-say-dna-experts
http://www.theguardian.com/uk-news/2014/feb/11/richard-iii-dna-complete-genome-sequence-dna
http://www.le.ac.uk/richardiii/science.html
http://www.npr.org/2014/02/13/276021092/ancient-dna-ties-native-americans-from-two-continents-to-clovis
http://www.bbc.co.uk/news/science-environment-26172174
http://www.bbc.co.uk/ahistoryoftheworld/about/transcripts/episode5/
http://www.nature.com/nature/journal/v506/n7487/full/nature13025.html
Arnar Pálsson 5. feb. 2013. Tveimur sögum fer af fundi Ríkharðs konungs 

mbl.is Genamengi Ríkharðs 3. raðgreint
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ég skrifaði, vantrúaður, um rannsóknirnar á Ríkharði á Fornleifi:

http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1257348/

http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1281009/

Þeir verða fleiri sem eru í vafa um Ríkharð. 

Fyrst hélt ég að þú teldir Eske Willerslev vera nafnlausan dreng.  Ég er búinn að fá mig fullsaddan af yfirlýsingargleði Willerslevs, t.d.í tengslum við manninn sem fannst í Braña-Arintero i León. Ef sá maður hefur tilheyrt Y-haplogruppu C6, þá finnst mér skrítið að fenótýpan af fólki í dag sem tilheyrir C6 er ekki með blá augu, eins og Willerslev er búinn að ákveða á maðurinn í  Braña-Arintero hafi verið með.

Ég veit vel að Indverjar geta verið bláeygðir og C6 er algeng meðal þeirra.  Eins og þú veist hefur nýlega verið slegið flösu að forfeður frumbyggja í Ástralíu hafi verið frá Indlandi, en bláu augun í Ástralíufrumbyggjum eru hins vegar talin vera vegna síðari tíma blöndunnar: http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC2917718/

Maður finnur heldur ekki stökkbreytingu í OCA2 geninu hjá fólki með C6 í dag, líkt og maður finnur í spænska "negranum" með "bláu augun. "

Það að auki hef ég heyrt því fleygt, að kolefnisaldursgreiningu á þeim bláeyga frá  Braña-Arintero sé eitthvað vafasöm.

Ég er sem sagt hvorki aðdáandi DNA-teymisins í Leicester eða undrabarnsins Willerslevs. 

Én sjáum til...

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 14.2.2014 kl. 19:20

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Biðst afsökunar á þessu hrognamáli, en vona að þú getir raðgreint textann.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 14.2.2014 kl. 22:08

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Vilhjálmur fyrir athugasemdirnar.

Það var gaman að lesa um þína rýni á fréttirnar frá því í fyrra. Mér fannst þetta alltaf vera kynning á undan niðurstöðum, og því grunsamlegt til að byrja með. Það er gott að sjá svona fína úttekt á fornleifa hliðinni á málinu.

Varðandi Eske og þær niðurstöður sem þú tíundar, þá tel ég ekki að þar sé ósamræmi.

Um er að ræða tvo erfðaþætti, á Y litningi og á 15. Þessi tvö gen erfast óháð hvort öðru, samkvæmt öðru lögmáli Mendels. Því getur tíðni annars aukist á meðan tíðni hins minnkar eða stendur í stað. 

Ég hef reyndar ekki lúslesið greinina um 7000 ára evrópubúann (http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/24463515) en parturinn um litargenin virkar sannfærandi. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að hjálpa til við svona litargenarannsóknir á Decode fyrir margt löngu, þannig að þetta er hluti af voru vísindalega heimalandi (ef svo má að orði komast).

Hitt get ég ekki staðfest að kolefnisgreiningin sé rétt. Ef mikill vafi eru um þær mælingar, er líklegast (og æskilegast) að greinar fylgi í kjölfarið sem athugi þær nánar.

E.s. Ekki fannst mér hrognin torlæs, en þú veist nú reyndar hvurslags orðakraðak ég læt frá mér.

Arnar Pálsson, 17.2.2014 kl. 09:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband