Leita í fréttum mbl.is

Amöbur allra landa - skjálfið

Veirur eru eitt af undraverkum lífheimsins. Líffræðingar þræta um hvort þær séu raunverulega lífverur, eða einhverstaðar á mörkum lífs og dauða. Flestar þeirra eru reyndar hættulegar, og valda frumum skaða, eða hreinlega drepa þær.

Fögurnar sem sýkja þarmagerilinn E. coli fjölga sér svo mikið inni í gerlinum, að á endanum springur hann. Sumar veirur þurfa að komast inn í kjarna frumna, eða amk. stugga þeim út í frumuskiptingu, til að komast í nauðsynleg hráefni og ensím. Aðrar veirur er sjálfbærari, að því leyti að þær geta sýkt frumur sem ekki eru í skiptingu. Stórubólu veiran er ein af þeim. 

Munurinn á stórubólu og t.d. venjulegri kvefveiru er mikill. Sú fyrrnefnda er með mörgun sinnum stærra erfðamengi (um 200.000 basa), og fjölmörg gen. Kvefveirur af ætt rhinoveira eru með um 7000 basa erfðaefni og handfylli gena.

Fyrir um 10 árum uppgötvuðust risaveirur, sem eru með 10 sinnum stærri en bóluveirurnar. T.d. er Pandoravirus salinus með 2473870 bp erfðamengi.

Nú hafa borist fréttir af því að amk. ein slík veira hefur lifað af í Síberíu. Franskir vísindamenn leituðu veira í 30000 ára gömlum sífrera og athuguðu hvort þær gætu sýkt amöbur. Ein mjög sérkennileg risaveira gat sýkt frumurnar, og rannsóknir sýna að þetta er ný gerð veira.

Höfundar rannsóknarinnar gera mikið úr því í greininni og viðtölum að mikil hætta sé af slíkum veiru- uppvakningum. Að mínu viti er þetta full miklar áhyggjur, því líkurnar á að veirurnar hoppi úr frosnum klumpi í lifandi mann eru harla litlar.

Athugasemdir við frétt mbl.is.

Fréttin Hætta á að banvænir vírusar vakni er frekar hrá þýðing á frétt Sky fréttastofunnar og BBC. Í fyrsta lagi þá er talað um veirur hérlendis, ekki vírusa. Einnig lauk fyrstu útgáfu fréttarinnar á hörmunum, sem á auðvitað að vera hörmungum. Einnig finnst mér of mikið lagt upp úr hættunni á faraldri í frétt mbl.is, og þar með étið hráar yfirlýsingar höfunda greinarinnar. Aðrir veirufræðingar hafa ekki jafn miklar áhyggjur, sbr umfjöllun Ed Young í Nature.

Ítarefni:

Matthieu Legendre ofl.  Thirty-thousand-year-old distant relative of giant icosahedral DNA viruses with a pandoravirus morphology PNAS 2014

Ed Yong Giant virus resurrected from 30,000-year-old ice Nature 03 March 2014

http://www.giantvirus.org/top.html

Leiðréttingar. Í fyrstu útgáfu stóð skelfið, ekki skjálfið í titli. Merkingin er sannarlega allt önnur, en samt nokkuð spaugileg líka.


mbl.is Hætta á að banvænir vírusar vakni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband