Leita í fréttum mbl.is

Hrun í bleikjustofninum

Undanfarin ár hafa borist tíðindi af minnkandi veiði í sjóbleikjustofnum og sumum stofnum vatnableikja.

Bleikjan er kuldaþolnasti laxfiskurinn og einnig harðgerasti, því hún þarf minnst æti og getur framfleytt sér við ótrúlegar aðstæður.

Bjarni K. Kristjánsson prófessor á Hólum hefur rannsakað dvergbleikjur í lindum og litlum tjörnum við hraunjaðra, og ásamt samstarfsmönnum sínum komist að því að þær virðast hafa þróast oft á undanförnum 10.000 árum. En þá lauk síðustu ísöld og ný búsvæði opnuðust fyrir ferskvatnsfiska. Svo virðist sem sjóbleikja hafi þá farið að ganga upp í ár og vötn. Samfara landrisi (vegna þess að jökulhettan hélt ekki lengur niður landinu) einangruðust margir stofnar í vötnum eða ám ofan við stóra fossa. Sjóbleikjan gat ekki lengur gengið þangað upp, og stofninn sem fyrir var þróast í samræmi við aðstæður. Margir stofnar þróuðust í sömu átt, að undirmynntum dvergfiskum.

Í Mývatni  eru nokkrar gerðir af bleikjum, m.a. dvergbleikjur í hellum og hraungangakerfum sem tengjast vatninu. Bjarni og félagar eru einmitt að rannsaka þá stofna núna, og reyna að kortleggja skyldleika fiska í ólíkum hellum og mæla flutning á milli þeirra.

En stóra bleikjan í Mývatni hefur verið í mikilli niðursveiflu. Sögulega hafa veiðst um 27.000 fiskar í vatninu á hverju ári. En síðasta áratug hefur fjöldinn verið minna en 10% af því.

Guðni Guðbergsson sviðstjóra auðlindasviðs Veiðimálastofnunar fjallar um þetta í nýlegri skýrslu, sem rætt var um í Fréttablaðinu:

Guðni er sammála því að varla sé hægt lengur að tala um veiðistofn bleikju í Mývatni og að staðan sé verulegt áhyggjuefni. Í skýrslu sinni mælir hann með því að sem allra mest verði dregið úr veiði, sem hann segir að sé í raun hvatning til þess að veiði sé alfarið hætt um tíma. Dregið hefur verið úr sókn í bleikjustofninn síðustu þrjú ár. Vegna þess hefði mátt búast við hækkandi afla en Guðni segir að þær vonir hafi ekki ennþá ræst ennþá. Ennfremur er ekkert úr netaveiði undir ís fyrrhluta mars í Mývatni sem bendir til að hagur silungsins sé að vænkast, nema þvert á móti þar sem veiðin var lélegri en undanfarin tvö ár.

Guðni hefur einnig miklar áhyggjur af hugmyndum um virkjun í Bjarnarflagi, sem gæti mögulega raskað streymi vatns og jafnvel breytt efnasamsetningu vatnsins.

„Svo eru menn að tala um Bjarnarflag og þá hugsar maður með sér hver verður dropinn sem fyllir mælinn. Í mínum huga þá mega menn ekki tefla á tvær hættur með þessa stofna,“ segir Guðni en Landvirkjun hefur uppi áform um nýja og stærri jarðvarmavirkjun við Bjarnarflag skammt austan Reykjahlíðar. Verulegar áhyggjur hafa komið fram um áhrif virkjunarinnar á grunnvatnsstreymi til Mývatns og efnasamsetningu þess, sem kunni að raska lífríki vatnsins.

Fréttablaðið 25. mars 2014. Vart hægt að tala um veiðistofn í Mývatni lengur

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Bleikjan er kuldaþolnasti laxfiskurinn og einnig harðgerasti"

Getur ekki verið að hlýnandi loftslag sl. 20 ár sé skýringin á hruni í Mývatni? Minnkar ekki súrefnið í vatninu við hækkandi hita?

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.3.2014 kl. 10:22

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Gunnar

Það er góður möguleiki að hlýnun hafi þessi áhrif. Einnig óbein áhrif hlýnunar, t.d. i gegnum sníkjudýr sem blómstra við hærri hita eins og frumdýr sem valda nýrnaveiki eða jafnvel laxalús.

Arnar Pálsson, 25.3.2014 kl. 11:02

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hlýindatímabilið á þessari öld er svipað við Mývatn og var á kreppuárunum og framyfir stríð (hlýindatímabilið núna er tiltölulega sterkara á suðurlandi en fyrir norðan) síðan kólnaði aðeins en hélst hlýtt framyfir 1960. Engar sögur fóru þá af hruni belikju við Mývatn. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.3.2014 kl. 17:04

4 Smámynd: Jón Þórhallsson

Er bleikjan í Mývatni ekki bara að úrkynjast?

Ef að engin ný genablöndun á sér stað (Vatnið er einangrað).

=Of mikil skyldleikaræktun?

=Úrkynjun.

=Vanhæfir fiskar.

=Meiri fiskadauði.

=Minni veiðivon.

Jón Þórhallsson, 25.3.2014 kl. 19:04

5 identicon

Engar líkur á að laxalús hafi áhrif á bleikju í Mývatni þar sem lúsin lifir ekki í ferskvatni. Bleikjunni í Mývatni fækkaði ekki vegna skyldaleikaræktunnar. Þetta var frekar stór stofn miðað við aðra einangraða stofna sem láta ekki á sjá.

Jóhannes (IP-tala skráð) 25.3.2014 kl. 21:27

6 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Bleikjan er mjög frjálslynd þegar kemur að vali á hrygningarstað og aðstæðum til vaxtar og viðgangs. Það er ólíklegt að rætur vandans liggi í hrygningunni sjálfri, þó auðvitað sé auðveldara um að tala en í að komast. Það þarf að fá vitneskju um hvort klak lukkast og hvort ungviði kemst á legg eður ei. Það er grundvallaratriði og hægt að bæta úr með fiskirækt.

Eitt sem kemur ekki fram í skýrslu / fréttariti Guðna er hver raunveruleg aldurssamsetning fiskjarins í vatninu er, eingöngu er minnst á veiðistofninn.

Það er ekki hægt að kenna laxalús um eitt eða neitt í Mývatni. Hvað varðar aðrar þörungategundir þá er full ástæða til að skoða hvort þörungar óheppilegar tegundir séu blómstrandi þessi árin. Hvað varðar sjúkdóma ætti t.a.m. nýrnaveiki að þekkjast með því að skoða og taka sýni úr veiddum fiskum.

Það er ekki algilt að veiði á sjóbleikju hafi farið hnignandi undafarin ár, jú örugglega á ákveðnum svæðum en önnur eru síður en svo í lægð.

Nú er ég ekki nægjanlega vel inni í hvað felst í aðgerðinni: "Vöktun Mývatns", til þess að geta fjallað efnislega um þá vöktun en fróðlegt væri að vita hvort það sé ekki skimað fyrir þörungum og eitt og annað kannað, sem gæti leitt fólk á einhverja slóð.

Sindri Karl Sigurðsson, 25.3.2014 kl. 21:40

7 identicon

Í gegnum aldirnar hefur efnainnihald Mývatns breyst eftir jarðskjálftum, nálægum hverum, eldgosum og foki úr öllum áttum. Hiti hefur hækkað og lækkað. Fæðuframboð hefur bæði verið meira og minna. En sennilega er aðeins eitt sem ekki hefur tekið breytingum, vatnið grynnist með hverju árinu. Hvort það eða eitthvað annað á sök á fækkun fiska og hvarfi kúluskítsins læt ég þá sem give a shit um að finna út.

Hallgrímur (IP-tala skráð) 25.3.2014 kl. 22:16

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk allir fyrir umræðuna. Ég reyni að svara öllum í einni færslu.

Kæri Sigurður Þór

Ég þekki ekki hitasögu Mývatns nógu vel, en það er nokkuð ljóst að vatnið er breytingum undirorpið.

Mér þætti reyndar gaman að skoða erfðabreytileika í bleikunni þar, til að meta hvort að stofninn hafi verið stór yfir lengri tíma, eða hvort að veiðin á síðust öld hafi verið vegna skyndilegrar stækkunar stofnsins.

Sæll Jón

Það er frekar ólíklegt, miðað við stofnstærðina undangengna öld, en eins og áður sagði má athuga stofngerðina og erfðafjölbreytileikann. Sumar tegundir þola innræktun en aðrar ekki. Miðað við það hvað bleikja finnst í mörgum litlum vötnum og lindum, finnst mér líklegt að hún tjónki ágætlega við innræktun.

Takk Jóhannes og Sindri. 

Ég var að hugsa um sjóbleikjustofna þegar ég taldi til laxalúsina, en gleymdi að skrifa það. Það kann að vera að minnkun í sjóbleikjustofnum sé að einhverju leyti tengd henni, þar sem bleikjan ílengist oft við ströndina.

Kæri Sindri

Það getur verið að hrygningin sé að bregðast, á einhvern hátt. Ég veit ekki hvað er til af gögnum um ungbleikju og aldursdreifingu í vatninu. Árni Einarsson á náttúrurannsóknarstöðinni gæti vitað það, og kynni að varpa ljósi á tilgátu þína um þörunga og seiðasamspil.

Varðandi hnignun bleikjunar, þá segja mér menn á Veiðimálastofnun að mynstrið sé mjög sterkt. Sannarlega eru einhverjir stofnar traustir, en langflestir virðast dragast saman.

Sæll Hallgrímur.

Auðvitað er mikilvægt að átta sig á að náttúran stendur aldrei í stað. Hugmyndin um jafnvægi í náttúrunni er heillandi en röng. Það er síðan spurning hvort við viljum gæta náttúrunnar, skilja hana, nýta hana eða bara njóta hennar.

Mér sýnist skýrsla Guðna fjalla um merkilega atburði, en við þurfum náttúrulega að ákveða hvað við gerum í kjölfarið?  Eða ekki.

Arnar Pálsson, 26.3.2014 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband