26.3.2014 | 11:44
Frétt um erfðablöndun laxa
Í laxeldi er notaður eldisstofn sem ættaður er frá Noregi. Það er vegna þess að ræktun eldisfiska er erfitt verkefni, og norsku fiskarnir hafa verið ræktaðir lengur og með betri árangri en aðrir. Mér skilst að hérlendis hafi verið byrjað á kynbótaræktun laxa á seinni hluta síðustu aldar, en fiskarnir voru bara of litlir og uxu hægar en norskir. Því hafi kynbótum verið hætt og norski stofninn orðið einráður í eldi.
Reyndar er aðra sögu að segja um eldisbleikju, en hún er hérlendis af íslensku meiði og afrakstur eldistarfs starfsmanna á Háskólanum á Hólum.
Erfðanefnd landbúnaðarins fjallar um erfðir villtra og eldislaxa í nýlegu svari við fyrirspurn. Fjallað var um málið í Fréttablaðinu í morgun:
Nefndarmenn fallast ekki á að norskur eldislax sé erfðabreytt lífvera, en erfðaefni í kynbættum norskum eldislaxi hefur ekki verið breytt með öðrum hætti en kynbótum. "Hins vegar sýna erfðarannsóknir að íslenskur lax er mjög frábrugðinn norskum laxi og má því líta á norskan eldislax sem framandi stofn," segir í bréfinu. Laxeldi í sjókvíum sé í dag ein helsta ógnin við villta laxastofna. Rannsóknir sýni að nálægð við laxeldi geti leitt til hnignunar laxa- og urriðastofna. "Erfðanefnd landbúnaðarins telur að erfðablöndun við norskan eldislax geti ógnað íslenskum laxastofnum í grennd við laxeldisstöðvar en mögulegt áhrifasvæði er ekki þekkt," segir þar einnig.
Spurning Óðins er fyllilega sanngjörn, það er eðlilegt að við hugum að mögulegri erfðamengun á milli eldisfiska og villtra fiska, og hvaða afleiðingar það hefur fyrir náttúru og auðlindir. Ég grein samt snert af hræðsluáróðri í fyrirspurninni, þar sem spurt var sérstaklega hvort líta mætti á norskan eldislax sem erfðabreyttan? Mér sýnist sem ætlunin hafi verið að brennimerkja eldislaxinn með erfðabreytta-stimplinum, sem virðist virka mjög stuðandi á fólk og vekja ótta. Eins og við höfum rætt hér ítarlega, þá eru erfðabreytingar ekki hættulegar í sjálfu sér, frekar en ritvélar eru hættulegar í sjálfu sér. Það er hægt að misnota erfðatækni, alveg eins og ritvélar, en mikilvægast er að átta sig á að tæknin er bara hluti af vopnabúri ræktenda, sem eru að reyna að betrum bæta nytjaplöntur eða dýr.
Ég fagna sérstaklega áherslu erfðanefndarinnar á mikilvægi þess að hamla genaflæði úr eldislaxi yfir í villtan. Því slíkt flæði getur dregið úr hæfni villtu stofnanna með ófyrirséðum afleiðingum. Það er raunveruleg ógn.
Líffræðifélag Íslands, ásamt Verndarsjóði villtra laxastofna og Stofnun Sæmundar fróða við HÍ hefur staðið fyrir málstofum um fiskeldi nú í vetur. Næsta málstofa verður 4. apríl og mun fjalla um fiskeldisfrumvarpið sem liggur fyrir þinginu.
319. mál lagafrumvarp 143. löggjafarþingi 20132014.
Ég skora á fólk að kynna sér frumvarpið og fagmenn að senda inn álit.
Ítarefni:
Fréttablaðið 26. mars 2014. Norski laxinn er framandi stofn á Íslandi
Málstofur um fiskeldi í kvíum í sjó og á landi, á vegum NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og Líffræðifélags Íslands.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:49 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Nú eru íslenskir kúabændur að fara að sækja sér NORSKT sæði í sínar mjólkurkýr; til þess að endurnýja íslenska stofninn; í raun er það bara nauðsynleg genablöndun svo að stofninn úrkynjist ekki.
/Dýralæknar leggja blessun sína yfir það.
http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/1310452/
---------------------------------------------------
Finnst okkur í lagi að blökkumenn eignist börn með hvítum íslenskum konum
eða viljum við halda okkar íslenska kynstofni hreinum?
Fram eða afturför í mannrækt?
Jón Þórhallsson, 26.3.2014 kl. 12:33
Í ræktun húsdýra togast tvennt á.
Í fyrsta lagi vill maður ná meiri framleiðni og gæðum.
Í öðru lagi vill maður halda í erfðabreytileika upp á framtíðarræktun.
Það væri misráðið að fórna erfðamengi íslenskra kúa, með því að leggja þær allar í sláturstöðina. Einnig þarf að gæta þess að halda í breytileikann upp á framtíðarræktun ef erlent sæði er flutt inn.
Ég sé ekkert að því að íslendingar eignist börn með erlendu fólki, því við erum ekki að rækta menn.
Arnar Pálsson, 26.3.2014 kl. 14:03
Eins og fram hefur komið að þá er smá genablöndun nauðsynleg bæði öllum dýrum og mönnum svo að stofnar úrkynjist ekki.
Það skiptir væntanlega ekki máli hvort að konur eignist börn með erlendu fólki af sama kynstofni;
málið snýst meira um blöndun á milli kynstofna hjá mannfólkinu.
Yrðir þú alveg sáttur með hálf-asísk barnabörn?
Ég hef meiri áhyggjur af því heldur en genablöndun hjá kúm og laxi.
Jón Þórhallsson, 26.3.2014 kl. 17:04
Sæll Jón
Það eru ekki kynstofnar hjá mönnum. Það er erfðafræðilegur munur á milli hópa og meginlanda, en hann er lítill.
Það eru rúmlega 15.000.000 algengar stökkbreytingar í erfðamengi mannsins. Þeir erfðaþættir sem sýna mun á milli hópa eða meginlanda hlaupa á tugþúsundum eða hæsta lagi hundrað þúsundum.
Langstærsti hluti breytileika milli manna er sameiginlegur okkur öllum.
Hugmyndin um kynstofna mannsins er úr fortíðinni, þegar fólk horfið eingöngu á litarhaft eða útlitseinkenni.
Það er meiri útlitsmunur á mismunandi kúakynjum en á mannahópum eða ættbálkum.
Arnar Pálsson, 27.3.2014 kl. 09:09
Sæll Arnar!
Hérna er grein sem þú gætir haft áhuga á:
http://thjodarskutan.blog.is/blog/gudspekifelag_s/entry/1292101/
Jón Þórhallsson, 27.3.2014 kl. 15:48
Höskuldur Búi Jónsson, 27.3.2014 kl. 16:17
Sæll Jón
Takk fyrir ábendinguna. Nú sé ég spurningar þínar í skýrara samhengi.
Sæll Höskuldur
Takk fyrir táknið.
Arnar Pálsson, 28.3.2014 kl. 11:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.