Leita í fréttum mbl.is

Hvað getum við lært af skötum?

Í líffræðináminu lærðum við um byggingu hryggdýra með því að kryfja skötur og aðra fiska. Ástæðan er sú að bygging fiska er töluvert einfaldari en bygging okkar, amk. höfuðbein og lega tauga fremst í líkamanum. Byggingin er lík vegna þess að við og fiskar erum af sama meiði, þ.e.a.s. skyld í gegnum hið gríðarlega þróunartré.

Sameiginlegir forfeður okkar og fiska eru vitanlega allir útdauðir, en það er hægt að skyggnast aftur í tímann með því að finna steingervinga. Neil Shubin, steingervingafræðingur við Chicago háskóla, og samstarfsmenn hans leituðu að fiskinum sem gekk á land. Þeir fóru á staði með jarðlög af réttum aldri (um 375 milljón ára), miðað við þekktar leifar fiska og fyrstu landdýranna, sem reyndist vera á Ellesmere eyju norðarlega í Kanada.

Og viti menn, árið 2000 fundu þeir nokkra steingervinga sömu tegundar, fisks sem gat gengið. Frumbyggjarnir lögðu til nafnið Tiktaalik, og niðurstöður rannsóknanna voru kynntar árið 2006.

Síðan þá hefur Neil Shubin ritað ágæta bók um Tiktaalik og rannsóknir á uppruna dýra og þróun, sem kallast Your inner fish. Bókin var þýdd af Guðmundi Guðmundssyn og kom út hérlendis árið 2010, og kallast Fiskurinn í okkur.

Nú hefur Shubin búið til röð þriggja heimildamynda byggða á bókinni og öðrum rannsóknum, sem sýnd verður á PBS nú í Apríl. Blaðamaður NY Times tók viðtal við hann, og með fylgir athyglisvert myndbrot úr þættinum. Úr því að ég mun fjalla um stórþróun í fyrirlestri föstudagsins, mun ég auðvitað senda nemendum tengil á viðtalið.

Skötur geta ekki grafið upp steingervinga eða kennt læknanemum anatómíu, en það getum við. Við ættum að reyna að nýta hæfileika okkar til að læra á veröldina og auka skilning sambræðar okkar á undrum hennar og dýrð.

Ítarefni:

NY Times 7. apríl 2014. What Fish Teach Us About Us

Fiskurinn í okkur Neil Shubin.

Fyrirlestur Shubin á Youtube


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ekki síst höfum við lært af skötunni að liggja eins og skata og hafa það náðugt. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.4.2014 kl. 19:28

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sniðugt Sigurður

Skatan fylgir alltaf botninum.

Skatan er dugleg að fela sig.

Skötur eru silkimjúkar viðkomu, en sumar geta stungið menn til bana.

Skötur pissa í blóðið sitt.

o.s.frv.

Arnar Pálsson, 9.4.2014 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband