Leita í fréttum mbl.is

Raunverulegt vandamál, ekki tækifæri

Þriðja loftslagsskýrsla Sameinuðu þjóðanna fjallar um leiðir til að berjast gegn lofgslagsvánni.

Hún virðist fá takmarkaðan hljómgrunn hérlendis. Til dæmis hefur ekki einn einasti bloggari tekið sig til og sett inn athugasemdir eða hugsanir um þessi efni, hér á Moggablogginu.

Mig grunar að þetta sé bara of alvarleg frétt, og að náttúrulegt viðbragð fólks sé að stinga hausnum í sandinn. Eða hrista hausinn bara og segja, þetta drepur mig ekki í bráð, og halda áfram með líf sitt.

15letters-art-master495

Meðfylgjandi mynd er af vef NY Times.

Málið er bara það að líf okkar mun taka stakkaskiptum ef okkur ber ekki gæfu til að spyrna á móti þessari þróun. Loftslag.is hefur sem betur fer tekið á málinu, og fjalla t.d. um yfirlýsingar Bandarísku vísindaakademíunar.

AAAS, The American Association for the Advancement of Science eru alþjóðleg samtök vísindamanna sem, eins og nafnið gefur til kynna, stuðlar að framgangi vísinda, en samtökin gefa meðal annars út hið virta tímarit Science. Í mars opnuðu samtökin heimasíðu og gáfu út bækling sem heitir Það sem við vitum (e. What We Know). Helstu punktarnir eru þessir:

  1. Vísindamenn eru sammála: loftslagsbreytingar eru hér og nú. Á grunni vel ígrundaðra gagna, hafa um 97% loftslagsvísindamanna komist að þeirri niðurstöðu að loftslagsbreytingar séu í gangi, hér og nú. Þessi samhljómur byggist ekki á einni rannsókn, heldur á stöðugum straumi gagna síðastliðna tvo áratugi..
  2. Við eigum á hættu að keyra loftslagskerfi jarðar í átt að óvæntum, ófyrirsjáanlegum og hugsanlega óafturkræfum breytingum með mjög skaðvænlegum áhrifum. Loftslag jarðar er á braut til hitastigs sem er hærra en jarðarbúar hafa upplifað í milljónir ára. Innan vikmarka þess hitastigs sem núverandi losun við bruna jarðefnaeldsneytis munu valda, eru hitar sem taldir eru geta eyðilegt í stórum stíl samfélög og vistkerfi..
  3. Því  fyrr sem við bregðumst við því minni verður áhættan og kostnaðurinn og það er margt hægt að gera. Að bíða með aðgerðir mun auka kostnað, margfalda áhættu og loka á ýmsa möguleika til að takast á við vandann. Það koldíoxíð sem við framleiðum nú, safnast fyrir í lofthjúp jarðar og er þar í áratugi, aldir og lengur.

Yfirlýsingar hæstvirts forsætisráðherra fyrir nokkru, um að loftslagsbreytingar sé sérstakt tækifæri fyrir Ísland er bæði röng og ber vankunnáttu merki.

Stöð tvö ræddi við Hrönn Egilsdóttur doktorsnema og Jón Ólafsson haffræðing. Í fréttinni sagði:

„Ísland er á versta mögulega stað þegar súrnun sjávar er annars vegar.“ Þetta segir doktorsnemi í jarðvísindum. Hún bendir á að ummæli forsætisráherra um sóknarfæri í kjölfar hnattrænna loftslagsbreytinga séu ekki merkilegt faranesti. Hafrannsóknarstofnun getur ekki sinnt grunnrannsóknum á súrnun sjávar vegna niðurskurðar í fjárframlögum. Ásamt því að benda á hættur sem steðja að matvælaöryggi heimsbyggðarinnar ítrekuðu vísindamenn Milliríkjanefndar Sameinuðu Þjóðann á loftslagsráðstefnunni í Japan í vikunni að brýn þörf sé á frekari rannsóknum á súrnun sjávar á norðurslóðum.

Spurð um ummæli Sigmundar D. Gunnlaugssonar, um að loftslagsbreytingar gefi Íslandi tækifæri, svaraði Hrönn

Varðandi ummæli Sigmundar Davíðs þá sér maður það að þekking á vandanum er kannski ekki til staðar hjá ráðamönnum og það er auðvitað ekki séríslenskt fyrirbæri,

http://www.visir.is/surnun-sjavar–island-a-versta-mogulega-stad/article/2014140…


mbl.is Jarðgas hluti af tímabundinni lausn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég spyr bara hvað er vandamálið með þetta fólk. Þeir eru búnir að hræra svo upp í bílaiðnaðinum fram og til baka og auka allan kosnað á framleiðslu og ruglið orðið þvílíkt að maður myndi trúa að þeir færi að slátar mannskap til að minnka mögulega mengun. Munið það er vitað mál að eitt eldgos og svo annað mun vera það sem getur valdið hungursneið. Við verðum bara að taka á því þa. Við verðum líka að taka á því ef jarðeldsneyti þrýtur en þá eru segl notuð og hestar. Verður þetta vandamál.??? Sísus, Vísindamenn eru mestu probaganda serfræðingar í þessum heimi

Valdimar Samúelsson, 16.4.2014 kl. 18:26

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Held þetta sé nú aðallega áhugaleysi á að blogga á moggabloggið en ekki sinnuleysi um loftslagsmálin. Á fasbók hefur sannarlega ekki verið gengið framhjá þessu. Þar varð allt vitlaust út af orðum forsætisráðherra.

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.4.2014 kl. 18:53

3 Smámynd: Þórir Kjartansson

Skriffinnar Moggabloggsins er örugglega einhver ólíklegasti hópur landsins til að viðurkenna einhver loftslagsvandamál.  Enda fáir þar eftir nema Davíðstrúarmenn.

Þórir Kjartansson, 17.4.2014 kl. 10:07

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég hef bloggað um veður (og framan af ýmislegst fleira) á Moggablogginu í sjö ár. En ég trúi samt ekki á neinn Davíð! En ég hef lítið bloggað um "loftslagsmálin", það er hlýnun jarðar. Ég hef séð á öðrum vefjum að slíkt fer alltaf út í illvígar persónulegar deilur og skítkast, en lítið af viti sagt um málefnið, og ég vil ekki að bjóða upp á slíkt. Fyrir skemmstu hætti besti veðurbloggari landsins, Trausti Jónsson veðurfræðingur,   að blogga á Moggablogginu einmitt út af þessu.  þetta er sorglegt en er samt þannig og það fælir eflaust ýmsa frá að fara út i þetta málefni þó þeir vildi eitthvað sagt hafa.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.4.2014 kl. 12:44

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Mig grunar að áhugaleysið um þetta mál hér á moggablogginu sé meira vegna áhugaleysis á þessum vettvangi heldur en endilega málefninu (hverju sem um er að kenna - ætla mér svo sem ekki að hafa skoðun á því hér). Annars gott að þú takir þetta fyrir hérna Arnar - takk fyrir það.

Sveinn Atli Gunnarsson, 18.4.2014 kl. 00:08

6 Smámynd: Hörður Þórðarson

"þetta er sorglegt en er samt þannig og það fælir eflaust ýmsa frá að fara út i þetta málefni þó þeir vildi eitthvað sagt hafa"

Jafnvel besta fólk þreytist á að varpa perlum fyrir svín.

Hörður Þórðarson, 18.4.2014 kl. 07:44

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk allir fyrir athugasemdirnar.

Mikilvæga spurningin er af hverju hreyfa staðreyndir loftslagsvísindanna ekki við fólki?

Er það eðli vandans?

Flækist tímaskalinn fyrir?

Er það spurning um framsetningu?

Eru það áhrif andófs "efaiðnaðarins"?

Eða er skortur á pólitískum stuðningi?

Fólk hegðar sér ekki rökrétt, eða amk ekki með langtíma hagsmuni að leiðarljósi.

----

Varðandi þögnina á moggablogginu um loftslagsmálin, þá held ég að það sé sitthvað til í öllum uppástungum ykkar. Moggabloggið er ekki handahófskennt þversnið af þjóðinni. Ég er samt engin Davíðsmaður frekar en Sigurður Þór.

Úr því að ég tók málið upp vil ég útskýra mína afstöðu. Ástæðurnar fyrir því að ég blogga hér áfram eru tvær. Leti, ég nenni ekki að koma mér upp öðru bloggi, og hér er tækifæri til að leiðrétta og auka við fréttir um mál sem mér er annt um.

Meðal annars loftslagsmál og umhverfismál.

Arnar Pálsson, 21.4.2014 kl. 09:58

8 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Mig langar að spyrja fróða menn. Er ekki verið að gera einhvað í loftslagsmálunum. Sjá menn ekki hvernig bílaiðnðurinn hefir verið að vinna að málunum síðustu 20 ár eða svo. Þeir hafa komið með eyðslugrenni vélar, fólk er farið að nota methane gas. Bandaríkjamenn eru líklega stærstir í þeim efnum en þar eru raforkuver bentengd methane gas lindum og rafmagnið sent inn á veiturnar. Bændur þar hafa síðusti ára tugina nýtt methane gas frá búum sínuo og selt inn á veiturnar. Það er alveg ótrúlegt hvernig maðurin hefir brugðist við en jafn skrítið að engin sér þetta.hvað finnst mönnum hér um þetta.

Valdimar Samúelsson, 24.4.2014 kl. 12:21

9 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Valdimar

Jú sannarlega hafa verið jákvæð skref, en of fá og lítil. 

Heildaráhrif af brennslu kolefniseldsneytis eru að aukast, ekki minnka, þrátt fyrir þessi jákvæðu skref.

Því miður dugar fræðsla ekki og lögmál markaðar. Það þarf pólitískan vilja og samstöðu. Sem hörgull er á.

Arnar Pálsson, 24.4.2014 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband