Leita í fréttum mbl.is

Ljósið var hans fyrsta ást

Leyndardómar ljósins vöktu áhuga fræðimanna á nítjándu öld. En hvernig er hægt að rannsaka ljós? Einnig má spyrja hverjir rannsaka ljós og önnur fyrirbæri?

 

Svarið við seinni spurningunni er vitanlega vísindamenn (e. scientist) þó að hvorki starfsheitið né fagið væru til í upphafi nítjándu aldar. Svokallaðir náttúruheimspekingar (e. natural philosophers) og grúskarar af ýmsu tagi (prestar, efnamenn, læknar og kennarar) lögðu grunninn að vísindunum eins og við þekkjum þau. En það gerðist ekki að sjálfu sér, fræðimenn og heimspekingar mótuðu og skilgreindu vísindin og hina vísindalegu aðferð, sumpart með gjörðum sínum en einnig meðvitað og markvisst.

 

Laura J. Snyder kannar rætur nútíma vísinda í bókinni The philosophical breakfast club. Þar setur hún fjóra fræðimenn í öndvegi, og notar sögu þeirra til að kortleggja og skilja hvað gerðis um miðbik nítjándu aldar. Einn þessara manna var John Herschel, sem vísað er til í titli þessa pistils (light was my first love). Hann stundaði rannsóknir á stjörnum, grösum og efnum, auk þess sem hann var skapandi stærðfræðingur og einn af frumkvöðlum ljómyndunar. William Whewell var sonur smiðs, en barðist til mennta og lagði mest stund á steindafræði og eðlisfræði, og var á tíma rektor Trinity College í Cambridge Englandi. Charles Babbage hannaði fyrstu tölvuna og Richard Jones var einn af upphafsmönnum hagfræðinnar. Á því tímabili sem Snyder rannsakar í bók sinni, frá 1820 til 1870, urðu miklar framfarir í vísindum og tækni. Stærstu uppgötvanirnar voru e.t.v. ljósmyndun, rafmagn, gufuvélin, lestarkerfi og drög að tölvum. Samfara urðu til ný fræðisvið, t.d. hagfræði, efnafræði, félagsvísindi og þróunarfræði.

 

En fagheitið vísindamaður var ekki til í upphafi tímabilsins. Það varð til á fundi Breska vísindafélagsins árið 1833 þegar rætt var um eðli vísinda og viðfangsefni þeirra. Í kjölfar ábendingar um að náttúruheimspekingur væri ekki góð lýsing á því sem margir fræðimenn stunduðu. Whewell sagði að ef náttúruheimspekingur dygði ekki til, mætti með hliðstæðu við listamann, búa til orðið vísindamann („by analogy with artist, we may form scientist“).

 

Á tímabilinu sem í kjölfarið fylgdi þróaðist hin vísindalega aðferð, starfsgreinin skilgreindist og menntastofnanir og stjórnvöld lögðu áherslu á að koma til móts við þá sem vildu leysa stórar spurningar um eðli og eiginleika heims og lífs.

Ítarefni:

Philosophical Breakfast Club | Laura J. Snyder

Ritdómur í Washington Post Books: 'The Philosophical Breakfast Club' by Laura Snyder

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband