15.5.2014 | 17:45
Eru eineggja tvíburar alltaf alveg eins?
Tvíburar eru af tveimur megingerðum, eineggja eða tvíeggja. Tvíeggja tvíburar verða til þegar tvö egg frjóvgast í sama tíðahring og bæði leiða af sér fósturvísa. Eineggja tvíburar koma úr einu frjóvguðu eggi sem myndar tvo fósturvísa. Þannig eru eineggja tvíburar alltaf af sama kyni meðan tvíeggja tvíburar geta verið af sama kyni eða sitthvoru. Samkvæmt lögmálum erfða deila tvíeggja tvíburar jafn mörgum genum og venjuleg systkin, um 50%. En eineggja tvíburar eru frábrugðnir því báðir fá sama erfðamengi frá hinu frjóvgaða eggi; þeir eru því erfðafræðilega eins (100% genanna eru þau sömu). Guðmundur Eggertsson svaraði spurningunni Eru eineggja tvíburar með nákvæmlega eins erfðaefni? árið 2000 á þessa leið:
Eineggja tvíburar eru komnir af einni og sömu okfrumunni og hafa nákvæmlega eins erfðaefni ef undan eru skildar stökkbreytingar sem kunna að hafa orðið í líkamsfrumum þeirra. Þeir eru samt aldrei alveg eins, sem sýnir og sannar að genin ein ráða ekki öllu um þroskun einstaklingsins.
Eineggja tvíburar koma úr einu frjóvguðu eggi sem myndar tvo fósturvísa á meðan tvíeggja tvíburar verða til þegar tvö egg frjóvgast í sama tíðahring og bæði leiða af sér fósturvísa.
Sumir eiginleikar mannfólks eru með sterkt arfgengi og verða það svipaðir milli eineggja tvíbura að þeir virka sem spegilmyndir hvor af öðrum. Aðrir eiginleikar, eins og fæðingarblettir, eru meira tilviljun háðir og munu ekki speglast á milli eineggja tvíbura frekar en milli hægri og vinstri hliðar sama einstaklings.
- Eineggja tvíburar verða aldrei nákvæmlega eins vegna áhrifa tilviljunar, umhverfis og breytinga á líkamsfrumum.
- Eineggja tvíburar eru ekki með nákvæmlega eins erfðaefni í öllum frumum sínum.
- Eineggja tvíburar eru ekki spegilmyndir hvor annars. Það sama á við um tvíeggja tvíbura.
Pistillinn birtist á vísindavefnum í janúar.
Arnar Pálsson. Eru eineggja tvíburar alltaf alveg eins?. Vísindavefurinn 14.1.2014. http://visindavefur.is/?id=53647. (Skoðað 15.5.2014).
Ítarefni:
Upphafleg spurning hljóðaði svo:Eru eineggja tvíburar alltaf alveg eins eða er möguleiki á að vera eineggja tvíburar þegar annar er með fæðingarblett á hægri öxlinni en hinn á vinstri en samt á nákvæmlega sama stað? Spurning mín er eiginlega hvort að eineggja tvíburar geti "speglað" hvorn annan eða eru þeir þá tvíeggja?
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Erfðafræði | Breytt 17.5.2014 kl. 15:18 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.