Leita í fréttum mbl.is

Fólk í neti og endalok læknisfræðinnar

Hjartalæknirinn Eric Topol við Scripps stofnunina gaf út merkilegan spádóm fyrir 2 árum. Í bók sem kallast Hin skapandi tortíming læknisfræðinnar (Creative destruction of medicine) rekur hann framfarir í erfðafræði, tölvunarfræði og tækni til að skynja ástand fólks og líffæra.

Hann lýsir því hvernig hægt verður að tengja farsíma og tölvur við skynjara innan okkar, t.d. gangráð eða blóðsykursmæli og fá sístreymi upplýsinga beint í lúku einstaklings (eða læknisins). Ný tækni sem nemur hjartslátt, öndun og svefnstellingar barna er einmitt af þessari kynslóð, og gefur stórkostleg tækifæri til að fylgjast með og greina afbrigðileg tilvik eða hættuleg.

Hann lýsir framtíð þar sem læknar og einstaklingar geta fylgst með lykilstærðum, blóðþrýstingi og insúlín styrk, stresshormónum og PSA (prótín sem fylgir blöðruhálskirtilskrabbameini), jafnvel í rauntíma. Og hann leggur áherslu á að ekkert muni stöðva þessar framfarir, tækninni fleygi fram og við verðum að nýta hana til að bæta líf, líðan og horfur.

Topol hefur ekki miklar áhyggjur af misbeitingu tækninnar, mismun í kostnaði eða mögulegum sálfræðilegum eða félagslegum áhrifum. Mér fannst hann skauta yfir þau atriði í bókinni. Sem er dálítið athyglisvert því að orðspor hans reis, þegar hann og samstarfsmenn fundu út aukaverkanir Vioxx, það jók tíðni hjartaáfalla mjög mikið. Topol hafði áður verið í nánu samstarfi við lyfjaiðnaðinn en tók samt slaginn, og gagnrýndi Merck. Merck sló til baka, og kom því til leiðar að Topol var rekinn frá Háskólanum í Michigan. Hann fékk síðar vinnu við Scripps og hefur unnið að mannerfðafræði samfara því að fjalla um tækniframfarir í læknisfræði.

En mér finnst röksemdir hans ekki fyllilega sannfærandi. Hann ræðir t.d. framfarir í erfðafræði og virðist nokkuð viss um að við getum fundið erfðabreytileika sem tengist lyfjaþoli eða aukaverkunum, og nýtt þá til að bæta heilbrigðiskerfið. Það eru sannarlega til dæmi um nokkrar stökkbreytingar sem hafa sterk áhrif á virkni eða aukaverkanir lyfja, en það þýðir ekki að mynstrið verði einfallt og nothæft fyrir lækna og sjúklinga. Sem erfðafræðingur finnst mér hann ansi bjartur á brúninni. Svona dálítið eins og mannerfðafræðingar síðustu tveggja áratuga sem lofuðu öllu fögru, jafnvel þótt að þeir sem skildu lögmál erfðafræðinnar vissu að verkefnið væri miklu flóknara.

En í það heila útskýrir Topol nokkuð vel nýjustu framfarir og suma af þeim möguleikum sem handan árinnar. Ég lærði heilan helling af bókinni, en ég var einnig uggandi yfir nýju veröld Topols.

En meiri upplýsingar eru til hins betra ekki satt?

Ítarefni:

http://creativedestructionofmedicine.com/


mbl.is Tengir ungabarnið við snjallsímann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er alltaf skepískur á bókatitla með furðunöfnum sbr. þessi.
 Virðist frekar vera lenska nútímamarkaðsfræði, en efnið er þó spennandi.

Samt þetta "handan árinnar". Það hefur nú svo margt verið handan árinnar í gegnum árin.

Arnar Th. (IP-tala skráð) 11.6.2014 kl. 17:49

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll nafni

Nafnið er dálítið sérstakt, sannarlega magnþrungið (svona eins og Giant steps eða Surfer pilgrim), en bókin er frábærlega forvitnileg aflestrar. 

Gott að heyra að orðalagið, handan árinnar, hafi skilað sér. Nennti ekki að tala um kál og ausu, fugl og hendi eða ...hamstra.

Arnar Pálsson, 11.6.2014 kl. 18:05

3 Smámynd: Árni Matthíasson

@Arnar: Áttu við Come On Pilgrim (1987) og Surfer Rosa (1988)?

Árni Matthíasson , 12.6.2014 kl. 09:45

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Ég átti bara diskinn, með báðum plötunum á, og kallaði hann alltaf Surfer pilgrim :)

Arnar Pálsson, 19.6.2014 kl. 14:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband