28.7.2014 | 14:51
Afneitunarhyggja og flóttinn frá raunveruleikanum
María lætur ekki bólusetja barnið sitt. Hans afneitar erfðabreyttum maís. Jakóbína afneitar þróunarkenningunni, og trúir að guð hafi skapað líf á jörðinni fyrir fjórum milljörðum ára. Trilli afneitar gögnunum úr lyfjaprófinu og heldur áfram að selja pillur með alvarlegum aukaverkunum. Blómberg afneitar loftslagsvísindunum og trúir því að breytingar á loftslagi séu óháðar athöfnum mannsins.
Þetta eru nokkur dæmi um afneitunarhyggju (denialism), þar sem hluti samfélagsins afneitar veruleikanum og sættir sig við þægilega lýgi í staðinn.
Ekkert okkar er fullkomlega rökfast eða höfum rétt fyrir okkur í öllum málum. Þannig að stundum getum við tekið rangar ákvarðanir, höldum t.d. að morgungull með erfðabreyttum maís sé slæmt þegar enginn gögn styðja þann grun. En menn eru ekki eylönd. Og afneitanir geta ferðast manna á milli, rétt eins og góðar fréttir af útsölum eða nýju sýklalyfi. Þar á ofan myndast oft einarðir hópar í kringum vissar afneitanir og lífskoðanir.
Ef við höldum okkur við afneitun á erfðabreyttum maís, þá er augljóst að fólk sem markaðsetur lífrænan lífstíl, matvöru, hjálpartæki og "lyflíki" hagnýtir sér þetta mál til að þétta raðir og vinna nýja liðsmenn.
Afneitunarhyggja
Í hinum vestræna heimi er ákveðin mótsögn. Við byggjum velferð okkar á framförum tækni og vísinda, og grunngildum upplýsingarinnar. En margar af afurðum tækni og vísinda vekja okkur ugg. Michael Specter fjallar um þetta í bók frá árinu 2009, sem heitir Afneitunarhyggja (denialism). Hann vitnar í dæmi Michael Lipton um rafmagn. Ef rafmagn hefði fyrst verið notað í stuðprik og rafmagnsstóla, í stað ljósapera og vifta, er mögulegt að samfélagið hefði afneitað tækninni.
Bók Specters fjallar um afneitanir forkólfa lyfjafyrirtækja á eigin gögnum. Hann rekur dæmið um Vioxx, sem hafði jók tíðni hjartaáfalla hjá þeim sem tóku það, en Merck reyndi að hylja þá staðreynd með spuna og öðrum óþverrabrellum. Lyfið var á endanum tekið af markaði.
Hann fjallar líka um trúnna á vítamín og lífrænan mat, sem eins og áður sagði byggir á að fá viðskiptavini til að gangast undir ákveðna afneitun á gæðum annarar fæðu og kostum hefðbundins landbúnaðar.
Menn smíða gervilíf
Einn kaflinn hreyfði samt við mér. Hann fjallaði um gervilíf, synthetic biology. Hann lýsir þar möguleikum nýrrar tækni til að erfðabreyta lífverum. Þessi aðferð er frábrugðin hefðbundinni erfðatækni að því leyti að fleiri breytingar eru gerðar og þær samhæfðar, t.d. á ákveðin efnaskiptakerfi. Þegar ég las þann kafla, þá fann ég til tilfinningalegra ónota. Þannig skildi ég (að vissu leyti) andstæðinga erfðabreyttra matvæla og lífvera. Viðbrögð þeirra hljóta að vera líkamleg og tilfinningaleg, og ansi sterk.
Sálfræðingar hafa sýnt fram á að við erum ekkert sérstaklega rökvís, og að djúpgreypt fælni eða skoðanir geta mótað hegðan okkar. Daniel Kahneman fjallar um þetta í bókinni "Að hugsa hratt og hægt" (Thinking fast and slow), sem við rituðum um fyrir nokkru (alger perla sú bók fyrir þá sem hafa áhuga á mannlegri hugsun).
Gallar í bók Specters um afneitun
En umfjöllun þó Specters um gervilíf sé snörp og hreyfi við manni, þá er hún ekkert sérstaklega nákvæm. Hann er sekur um einfaldanir og óraunhæft mat á möguleikum tækninnar. Og að vissu leyti er það gallinn á bókinni allri. Hún er mjög snaggarlega skrifuð, uppfull af skörpum setningum og oft mjög háðskum. En rökflæðið er ekkert svakalega sterkt. Einnig afgreiðir hann afneitara á of einfaldann hátt.
Hann reynir ekki að skilja hvað fær fólk til að afneita tækni eða þekkingu?
Hvað er það í mannlegri hegðan sem fær okkur til að afneita vísindalegri þekkingu?
Hvað er það við miðlun þekkingar sem gerir fólki kleift að afneita henni?
Einnig spáir hann ekki í því hvernig við getum hjálpað fólki að yfirvinna fordóma á tækni eða félagslegum nýjungum?
En fyndnasti parturinn er að Michael Specter var afneitari sjálfur. Eins og DARSHAK SANGHAVI rekur í bókadómi í New York Times, þá hafði Specter sem blaðamaður ritað um kosti lyfjafyrirtækja og hvernig "óhefðbundnar" lækningar lofuðu góðu fyrir framtíðina. Í bók sinni hefur hann alveg söðlað um, og skammar Merck lyfjafyrirtækið fyrir að einblína á hagnað og fólk sem fellur fyrir boðskap um óhefðbundnar meðferðir og heilsubótarefni. Hann nýtir sér ekki tækifærið til að kafa í eigin afneitanir, og hvað hann þurfti til að sá villu síns vegar.
Bók Specters er hraðlesin og frísklega skrifuð. Hann vísar í ágætar heimildir og tekst á afneitunarhyggju, sem birtist á marga vegu í samfélagi nútímans. Hann hefði e.t.v. getað rýnt dýpra í ástæður fyrir afneitun og hvernig við sem einstaklingar og samfélag getum tekist á við fordóma okkar og afneitanir.
Þeir sem hafa áhuga á að fræðast um bókina bendi ég á tvo, ansi ólíka ritdóma í NY Times.
Ég get ekki beinlínis mælt með henni, nema í samhengi við aðrar betri bækur um skyld efni, bók Kahnemans og bækur Shermers (að neðan).
Hér er smá raunveruleiki, sem væri sniðugt að flýja frá. Mynd AP.
Ítarefni.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Bækur, Erfðabreytingar og ræktun | Breytt s.d. kl. 17:09 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Þegar maður með þína menntunn er farinn að vísa á "þægilegan" rugludall eins og Shermer þá er tími til kominn að horfa aðeins í eiginn barm. Þú endar á JREF spjallborðinu með þessu áframhaldi. Einu sinni vöktu pistlar þínir mikla athygli en nú nenna fáir...
símon (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 18:54
Takk kærlega fyrir hrósið Símon.
Arnar Pálsson, 29.7.2014 kl. 12:53
Smá Tyson
https://www.youtube.com/watch?v=1ecT2CaL7NA
DoctorE (IP-tala skráð) 30.7.2014 kl. 23:01
Dr. E, þú hikar ekki við að mæla með gaur sem ruglar saman venjulegum kynbótum á plöntum og dýrum, og beinum genabreytingum. Og það án þess að roðna. Rosalega fínt innlegg við grein er ber titilinn "Afneitunarhyggja og flóttinn frá raunveruleikanum."
símon (IP-tala skráð) 1.8.2014 kl. 02:32
Kynbætur og genabreytingar eru tvö verkfæri til að ná sama marki.
Dálítið eins og blýantur og ritvél, eða bíll og reiðhjól.
Markmiðið er að breyta erfðasamsetningu nytjategundar, þannig að hún sé betri í ræktun, þolnari gagnvart sýklum eða öðrum umhverfisþáttum, eða næringarbetri.
Arnar Pálsson, 1.8.2014 kl. 13:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.