Leita í fréttum mbl.is

Halló þögla hugsun, viltu vera ein?

Hvað gerum við þegar ekkert er að gera?

Hvert leitar hugurinn þegar augun eru ekki að gleypa í sig umhverfið, eyrun samræður eða fingurnir form?

Hvernig líður okkur þegar við erum ein með hugsunum okkar?

Nýleg rannsókn sem birtist í Science tókst á við þriðju spurninguna. Rannsóknin verður rædd hér af áhuga og takmarkaðri þekkingu.

Einangrun sturlar hugann

Fyrir nokkru var sýndur þáttur í sjónvarpinu um franskan frumkvöðul sem vildi rannsaka innri klukku líkamans og hvernig menn brygðust við því að vera einangraðir í helli án þess að sjá klukku eða sólarupprás. Hann lýsti því hvernig einangrunin fór að hafa áhrif á sálarlífið, og hvernig hugsanirnar urðu einfaldari og tímaskynið brenglaðist.

Í þessu samhengi eru einnig minnisstæðar sögur Paul Auster um einfara í New York Trilogy. Þær fjalla um menn sem lenda í þeirri aðstöðu að dvelja einir í lengri tíma. Einn þeirra húkir í húsasundi í fleiri mánuði og bíður eftir því að sjá gamlan mann ganga inn í hús. Hugur mannsins í húsasundinu hrynur. Hann fer ekki einu sinni heim til sín eða baðast. Það er rétt hægt að ímynda sér hvernig einangrun fer með huga, t.d. fanga eða þeirra sem týnast í mörkinni.*

Einveran er böl

Rannsóknin í Science byggðist á því að setja sjálfboðaliða í herbergi án bóka, sjónvarps, síma eða annarra hluta sem við notum til að "drepa tímann". Fólk þurfti að sitja þarna inni í 6-15 mínútur. Í ljós koma að flestum fannst óþægilegt að sitja ein með hugsunum sínum. Mun óþægilegra en að leysa einfalda þraut eða verkefni.

Í einni tilrauninni gat fólk gefið sjálfum sér létt rafstuð. Ótrúlega margir kusu að prufa að gefa sér rafstuð, frekar en að sitja einir með hugsunum sínum. Jafnvel þó að þau hefðu, samkvæmt spurningarlista sem lagður var fyrir í upphafi tilraunar, frekar kosið að borga pening en að fá rafstuð.

Rannsóknin hefur valdið töluverðri umræðu um orsakir og afleiðingar þessara tilhneyginga. Nú er rétt að minna á að ég er ekki sálfræðimenntaður, og get því ekki metið umræðuna sem slíkur. Ég styðst að miklu leiti við greinarstúf Kate Murphy í NY Times (No time to think).

Einvera er blessun

Dauðar stundir og einvera bjóða upp á innhverfa hugsun. Þá gefst okkur tækifæri á að hugsa um líf okkar, fortíð, framtíð og nútíð. Sannarlega leitar hugurinn oft til óleystra vandamála (finnum við betra húsnæði, mun hún elska mig áfram, jafnar afi sig af veikindunum) og gefur okkur þá tækifæri á að meta þau og jafnvel leysa. Í greininni í NY Times er vitnað í Ethan Kross, háskólann í Michigan (University of Michigan).

One explanation why people keep themselves so busy and would rather shock themselves is that they are trying to avoid that kind of negative stuff...

It doesn’t feel good if you’re not intrinsically good at reflecting. 

Niðurstöðurnar má einnig túlka sem merki um eirðarleysi mannfólks. Okkur líður illa í verkfalli, þar sem við þurfum eitthvað við að vera. Þróunarsálfræðingar gætu túlkað niðurstöðurnar þannig að árangur okkar sem tegundar sé tengdur þessu eirðarleysi. Lúsiðnir forfeður okkar voru duglegri að safna mat, reisa hús, skerpa vopn og sauma föt, og því hæfari. Þetta er óprófuð tilgáta, en samkvæmt henni er mögulegt að eirðaleysið finni sér annan farveg í veröld nútímans. Hér er ofgnótt áreitis, sjónvörp, tónlist og netið í símanum, sem heldur okkur frá skapandi iðju og hugsun.

Flestir túlka niðurstöðurnar þannig að hugur í einveru líði kvalir, mögulega vegna ofgnótt vandamála eða vegna þess að einveran er framandi. Ég held að hugurinn þurfi rólegar stundir, til að halda þræði og hugsa um hið mikilvæga lífinu. Sem er að mínu viti ekki tölvuleikir, fótbolti, bíó eða myndband af dansandi hömstrum, heldur persónlegur þroski, samband okkar við ættinga og vini, og velferð mannfólks. 

 

*Það eru vísbendingar um að þeir sem hafa yfirgripsmikla þekkingu og vald á flóknum hugmyndakerfum, t.d. tónlist, ákveðinni fræðigrein eða veröld Tolkiens, þoli frekar einangrun. Þeir geti drepið tíma og sársauka, með því að hleypa huganum inn á slíkar lendur.

Timothy D. Wilson o.fl. Just think: The challenges of the disengaged mind  Science 2014:  Vol. 345 no. 6192 pp. 75-77 DOI: 10.1126/science.1250830

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband