Leita í fréttum mbl.is

Hvernig erfðafræði hjálpar í baráttu við Ebóluveirunna

Faraldrar á borð við Ebólu eru prófsteinn fyrir samfélög nútímans. Veiran fjölgar sér venjulega í dýrum, en getur sýkt menn og borist okkar á milli.

Í slíkum tilfellum eru sóttvarnir mikilvægastar. Lærdómur frá faröldrum fortíðar og þekking á smiti og áhrifum veirunnar skipta öllu fyrir meðhöndlun sjúklinga og til að aftra útbreiðslu.

Nú er ljóst að um faraldur er að ræða, en ekki einangruð tilfelli á afmörkuðum svæðum. Það er mjög eðlilegt að þjóðir heims taki höndum saman til að veita heimamönnum aðstoð við að meðhöndla sjúkdóminn. Og til að árétta, þá er fyrsta víglína mönnuð læknum og heilbrigðisstarfsmönnum sem beita bestu mögulegu þekkingu og aðferðum.

Þegar ógn sem þessi steðjar að, er einnig eðlilegt að leita að nýjum meðferðarúrræðum eða leiðum til að greina smitið eða sjúkdóminn. Hér mun ég fjalla um rannsókn á erfðamengi Ebólaveirunnar, sem kom út fyrir mánaðarmótin síðustu.

Erfðamengi Ebólu

Ebóla veiran er RNA veira með 7 þekkt gen á innan við 19.000 basapara löngum litningi. Hópar amerískra vísindamanna fóru í samstarf við lækna í Sierra Leone, þar sem Ebóla veiran hefur grasserað. Þau raðgreindu 99 veirustofn úr 78 einstaklingum og gátu dregið nokkrar mikilvægar niðurstöður.

1. Faraldurinn í Sierra Leone og Guineu er allur af sama meiði. Það er ein gerð Ebóla veiru sem er hér á ferðinni.

2. Þessi veira er ólík Ebólaveirum frá þeim tilvikum sem þekkt eru frá síðasta áratug og síðustu öld (og sem hafa verið raðgreind!).

3. Umtalsverður fjöldi nýrra stökkbreytinga hefur orðið á veirunni frá því að faraldurinn hófst. Það getur tengst breytingum á meinvirkni eða sýkingarmætti.

4. Stökkbreytingarnar hafa líka verið á svæðum í erfðamengi veirunnar sem notuð eru til að greina hana með sameindaerfðafræðilegum aðferðum. Þar sem greiningarprófin voru hönnuð fyrir eldri Ebólaveirur, þarf að endurhanna þau með hliðsjón af byggingu nýju veirunnar. Og með hliðsjón af þeim breytingum sem verða á henni á meðan faraldurinn geisar.

Þetta síðasta atriði er ákaflega mikilvægt, og getur hjálpað til við að greina smit fyrr. Því mér skilst að gamla greiningarprófið hafi ekki virkað snemma í sýkingarferlinu, þegar veiran er í lágum styrk í blóði viðkomandi.

Stofnerfðafræði faraldursins

Vitað er að um 3000 manns hafa sýkst og þar hafa um 1900 manns dáið. Meðal annars sex höfundar greinarinnar í Science (sjá neðst). Stofnerfðafræðin kennir okkur að því stærri sem stofn verður, því meiri líkur eru á að stökkbreytingar verði, sem gagnist viðkomandi stofni.

Með öðrum orðum, því fleira fólk sem Ebólaveiran  nær að smita, því meiri líkur eru á að í henni verði stökkbreytingar sem gera hana betri í að fjölga sér og smita fólk. Það er því ákaflega mikilvægt að reyna að hemja faraldurinn í Afríku sem fyrst. 

Og þetta á einnig við um aðra smitsjúkdóma, sama hvort sem þeir eru orsakaðir af veirum, frumdýrum eða bakteríum. Hinir vanræktu sjúkdómar hitabeltisins eru ekki einkamál fólks í suðrænum löndum, heldur viðfangsefni mannkyns alls.

Ítarefni:

Stephen K. Gire, o.fl. Genomic surveillance elucidates Ebola virus origin and transmission during the 2014 outbreak Science 1259657Published online 28 August 2014

NY Times  28. ágúst, 2014 Outbreak in Sierra Leone Is Tied to Single Funeral Where 14 women were infected

NY Times Among a Single Study's Authors, Five Ebola Casualties

Arnar Pálsson 4. ágúst 2014 Ó hví veira, ó hví pest, ó hvít froða

 


mbl.is Telja blóð geta hjálpað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband