10.10.2014 | 15:18
Vísindi á mannamáli: Brjóstakrabbamein á Íslandi og leitin að bættri meðferð
Jórunn Erla Eyfjörð, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, fjallar um rannsóknir á krabbameinum og möguleika á að nýta nýja þekkingu til bættrar læknismeðferðar í hádegiserindi í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 21. október kl. 12.10. Erindið er hluti af nýrri fyrirlestraröð sem Háskóli Íslands hleypir nú af stokkunum og ber heitið Vísindi á mannamáli. Fyrirlesturinn er öllum opinn.
Jórunn Erla hefur verið mjög virk í rannsóknum á brjóstakrabbameini og átt í öflugu alþjóðlegu samstarfi. Rannsóknir hennar og samstarfsmanna hafa m.a. snúið að tilteknum genum og breytingum á þeim. Genin nefnast BRCA1 og BRCA2 en þau uppgötvuðust í alþjóðlegum rannsóknum um síðustu aldamót sem íslenskir vísindamenn tóku virkan þátt í. Arfgengir gallar í genunum auka hættu á brjóstakrabbameini, bæði hjá konum og körlum, og tengjast einnig aukinni áhættu á öðrum krabbameinum. Mikill fjöldi stökkbreytinga hefur fundist í þessum genum um allan heim.
Í erindi sínu hyggst Jórunn fjalla um rannsóknir sínar og samstarfsfélaga tengdar þessum tilteknu genum en rannsóknir á brjóstakrabbameini í körlum hér á landi leiddu til þess að stökkbreyting fannst í BRCA2 geninu. Þessi stökkbreyting er nokkuð algeng meðal kvenna og karla með sjúkdóminn og hefur einnig áhrif á eggjastokka-, blöðruháls- og briskrabbamein. Áhrif stökkbreytingarinnar eru mismunandi milli fjölskyldna m.t.t. krabbameinsáhættu, alvarleika sjúkdóms og tegunda krabbameina.
Arfbundnir gallar í BRCA1 geninu eru aftur á móti mun sjaldgæfari hérlendis en hins vegar hafa rannsóknir sýnt að genið er óvirkt í brjóstaæxlisvef í nokkuð stórum hópi sjúklinga. Greining á erfðaefni brjóstakrabbameina sýnir enn fremur að mun stærri hópur sjúklinga en arfberar þessara BRCA-stökkbreytinga hefur svipuð merki um breytileika í æxlisvef, þ.e. hefur BRCA-líkan sjúkdóm.
Auk þess að fjalla um þýðingu þessara rannsókna fyrir skilning á eðli krabbameina mun Jórunn fjalla um hvernig rannsóknir beinast m.a. að því að finna sértæka meðferð fyrir sjúklinga með þessar tegundir krabbameina.
Um Jórunni Erlu Eyfjörð
Jórunn Erla lauk doktorsprófi í sameindaerfðafræði árið 1976 frá Háskólanum í Sussex í Bretlandi. Frá 1977 hefur hún kennt við Læknadeild og Raunvísindadeild Háskóla Íslands og verið prófessor við Læknadeild frá árinu 2005. Frá árinu 1988 stýrði hún erfðafræðirannsóknum á Rannsóknastofu Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði þar til rannsóknastofan flutti starfsemi sína til Læknadeildar Háskóla Íslands árið 2007 þar sem hún er enn. Eftir Jórunni liggur fjöldi vísindagreina í mörgum af virtustu vísindaritum heims en auk þess hefur hún tekið virkan þátt í stjórnunarstörfum innan Háskóla Íslands og setið í fagráðum sænsku og finnsku Vísindaakademíanna.
Um fyrirlestraröðina
Vísindi á mannamáli er ný fyrirlestraröð Háskóla Íslands sem efnt er til að frumkvæði Lífvísindaseturs og Líffræðistofu Háskóla Íslands. Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig vísindamenn háskólans reyna að afhjúpa leyndardóma náttúrunnar og hvaða þýðingu vísindarannsóknir hafa fyrir daglegt líf fólks, t.d. baráttu við sjúkdóma eða náttúruöflin eða til að auka lífsgæði og takast á við nýjar áskoranir tengdar breytingum í umhverfinu.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Erindi og ráðstefnur | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.