Leita í fréttum mbl.is

Íslenskar rannsóknir í kennslubók um þróun

Mykjuflugurannsóknir Hrefnu Sigurjónsdóttur má finna í kennslubók í atferlisfræði. Þar að auki hafa nýlegar rannsóknir Ástríðar Pálsdóttur og samstarfsmanna (m.a. á Líffræðistofnun HÍ og Íslenskri erfðagreiningu) á arfgengri heilablæðingu, ratað í nýjustu útgáfu af Þróunafræðibók Herron og Freeman. Frá þessu segir á vefsíðu Keldna.

------------

Niðurstöður úr rannsóknum vísindamanna á Keldum, Ástríðar Pálsdóttur og Birkis Þórs Bragasonar, sem voru unnar í samstarfi við vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu, Læknadeild Háskóla Íslands og Johns Hopkins Háskóla í Bandaríkjunum, hafa ratað inn í nýlega kennslubók í þróun (Evolutionary Analysis, 5th edition, eftir Jon C. Herron og Scott Freeman). Bókin er kennd við marga háskóla í Bandaríkjunum. 

Niðurstöður rannsóknarinnar birtust upphaflega í vísindaritinu Plos genetics árið 2008, og í kennslubókinni er bent á þær sem sláandi dæmi um samspil umhverfis og erfða.  Rannsóknin tók til líftíma íslenskra arfbera stökkbreytts gens, sem veldur arfgengri heilablæðingu. Meðal lífaldur þessara arfbera í dag er um 30 ár, en þar til fyrir um 200 árum var lífaldur þeirra ekki marktækt frábrugðin öðrum. Á 19. öldinni styttist lífaldur arfberanna smám saman í þau 30 ár sem hann er í dag. Líklegasta skýringin á þessu er tilkoma sterkra umhverfisáhrifa, hugsanlega fæðutengt, en á 19.öldinni tók matarræði Íslendinga miklum stakkaskiptum í átt að því sem gerist í nágrannalöndunum m.a. með aukningu í neyslu sykurs, mjölmetis og saltnotkun. Í kjölfar þessarar styttingar í lífaldri hefur arfberum fækkað mikið þar sem margir þeirra hafa látist áður en þeir hafa náð að eignast afkvæmi.

-------

Þetta dæmi er alveg ótrúlega merkilegt, og sýnir okkur hvers mikil áhrif umhverfi hefur á sýnd og tjáningu gena. Og þið getið verið viss um að fyrir hvert eitt gen sem sýnir svona afgerandi áhrif eru hundrað eða þúsund sem eru með vægar, en sannarlega umhverfistengd áhrif.

Greinina má lesa á vef Plos Genetics

Palsdottir A, Helgason A, Palsson S, Bjornsson HT, Bragason BT, et al. (2008) A Drastic Reduction in the Life Span of Cystatin C L68Q Carriers Due to Life-Style Changes during the Last Two Centuries. PLoS Genet 4(6): e1000099. doi:10.1371/journal.pgen.1000099


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband