9.3.2015 | 09:06
Hvað "í ósköpunum" er íslenskt vísindafólk að rannsaka?
Fyrir tæpum sjö árum var kosningabarátta Obama og McCain að komast á skrið. Varaforsetaefni McCains var fyrrum fylkisstjóri Alaska, Sarah Palin.
Henni fannst það líklegt til vinsælda (atkvæða) að hæðast að rannsóknarverkefnum sem bandaríkjastjórn styrkir. Hún sagði:
You've heard about some of these pet projects, they really don't make a whole lot of sense and sometimes these dollars go to projects that have little or nothing to do with the public good. Things like fruit fly research in Paris, France. I kid you not.
Þar sem frú Palin skildi ekki, var hvernig vísindin virka og hversu mikilvæg tilraunalífvera ávaxtaflugan er. Á þeim tíma skrifaði ég lítinn pistil flugunni til varnar (Óhæfur frambjóðandi) en nú er mér annara um vísindin í heild sinni.
Skoðun frú Palin er reyndar ansi algeng, margt fólk skilur ekki hvað ríkið er að púkka upp á grunnrannsóknir, rannsóknastofnanir eða háskóla. Hluti af ástæðunni er sá að fólk hefur öðrum hnöppum að hneppa, það nennir ekki eða vill ekki setja sig inn í málið. Einnig er nokkuð ljóst að vísindasamfélagið hefur ekki verið nægilega duglegt að kynna rannsóknir og niðurstöður.
Það er meðal annars kveikjan að fyrirlestraröð Háskóla Íslands, Líffræðistofu og lífvísindaseturs um vísindi á mannamáli. Þau erindi eru öllum opin og tekin upp á myndband, sem hægt er finna á vefnum.
Svipaðar ástæður eru líklega á bak við nýjung hjá Rannsóknamiðstöð Íslands, sem stendur fyrir opnum fundi fimmtudaginn 12. mars (sjá hér að neðan).
Íslenskt vísindafólk rannsakar margskonar viðfangsefni, og eigum við fullt af fólki í fremstu röð alþjóðlega. Vonandi komast sem flestir á þennan fund, þótt það viðurkennist að tímasetningin sé ekki beint heppileg dagvinnufólki. Ég er til dæmis að kenna þetta síðdegi.
------------- tilkynning orðrétt -----------------
Hvað er íslenskt vísindafólk að rannsaka? Hvernig verkefni styrkir Rannsóknasjóður? Hvernig skiptast styrkir úr sjóðnum?
Fimmtudaginn 12. mars kl. 14-17 verður opinn kynning á Rannsóknasjóði, úthlutun hans og fjölbreyttum verkefnum sem sjóðurinn styrkir. Kynningin verður haldin á Hótel Sögu, 2. hæð.
Markmið kynningarinnar er að kynna starfsemi sjóðsins og það fjölbreytta vísindastarf sem hann fjármagnar. Á dagskránni verða áhugaverð erindi og veggspjaldakynningar þar sem vísindamenn kynna rannsóknir sínar á öllum sviðum vísinda. Upplýsingar um Rannsóknasjóð hér. Eiríkur Stephensen hjá Rannís veitir allar upplýsingar um sjóðinn og kyninguna. Sími 515 5800, netfang eirikur.stephensen@rannis.is
Fundarstjóri verður Brynja Þorgeirsdóttir, fjölmiðlakona.
Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir!
Dagskrá:
Kl. 14:00-15:30 Opnun og kynningar verkefna
- Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, opnar fundinn.
- Guðrún Nordal, formaður stjórnar Rannsóknasjóðs flytur ávarp.
Verkefnakynningar (í stafrófsröð):
- Forspárþættir heilsu og hegðunar meðal ungs fólks. Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík.
- Meðfædd bakteríudrepandi peptíð gegn sýkingum og ónæmum bakteríustofnum. Guðmundur H. Guðmundsson, prófessor við Háskóla Íslands.
- Rannsókn á einhleypum konum í hópi vesturfara, 1870-1914. Sigríður Matthíasdóttir, fræðimaður við Reykjavíkurakademíuna.
- Vöktun virkra jarðskjálftasprungna og kortlagning jarðskjálftaáhættu í þéttbýli. Benedikt Halldórsson, vísindamaður við Háskóla Íslands.
- Þróun rafefnahvata fyrir vistvæna og sjálfbæra eldsneytis- og áburðarframleiðslu. Egill Skúlason, dósent við Háskóla Íslands.
15:30-17:00 Veggspjaldasýning
Kynnt verða 40 verkefni sem hlutu nýja styrki á árunum 2013 og 2014.
Í lok kynningar verður boðið upp á léttar veitingar.
----------- tilkynningu lýkur --------
Ítarefni:
Arnar Pálsson 31.10.2008 | Óhæfur frambjóðandi
Arnar Pálsson 1.3.2010 | Morgan og hvíta genið
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:35 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.