14.4.2015 | 17:09
Breytinga er þörf í HÍ, kjósum Guðrúnu Nordal
Eftir tæpa viku verður önnur umferð kosninga til rektors Háskóla Íslands, og stendur valið á milli Guðrúnar Nordal og Jóns Atla Benediktssonar.
Undanfarnar vikur hef ég verið að drukkna í kennslu og vinnu og ekki getað spáð mikið í kosningunum eða lagt til umræðunar. Kjör rektors eitt það mikilvægasta sem gerist í Háskólanum, og getur haft miklar afleiðingar fyrir framtíð hans og þjóðarinnar. Ég var lengi að velta fyrir mér hvort ég ætti að taka þátt í báráttunni, því langt er síðan ég hafði ákveðið mig. Af ástæðum, sem ég kýs að halda leyndum að sinni, tregðaðist ég við að lýsa yfir stuðningi. En manndómur hrekkur í allskonar fólk.
Ég kaus og ætla að kjósa Guðrúnu Nordal, af eftirfarandi ástæðum.
Hún hefur yfirsýn á styrk og takmarkanir vísinda og tæknigeirans á Íslandi, ekki bara innan HÍ.
Hún leggur á mikilvægi þekkingar ekki bara hagnýtingar. Þ.e. menntun skilar ekki bara góðum starfsmönnum, heldur einnig betri borgurum.
Hún vill endurskoða gæðamál innan HÍ - mér finnst að framlegð háskóla eigi ekki að meta eins og fiskvinnslu (með því að telja hausa og sporða).
Hún er andvíg skólagjöldum (nemendur eru ekki féþúfur, sbr. mynd af stétt við Michigan State University).
Hún vill sækja á stjórnvöld og alþingi, sem hafa um árabil svelt HÍ (miðað við sambærilega háskóla í OECD).
Ég viðurkenni einnig að hluti af ákvörðun minni er að ég tel tími sé kominn á skipti í brúnni. Með því er ekki verið að kasta rýrð á störf Kristínar Ingólfsdóttur eða Jóns Atla, sem hefur starfað sem aðstoðarrektor frá 2009. Kristín setti Háskóla Íslands háleit markmið og hefur gert margt vel. Jón Atli hefur einnig unnið gott starf í þágu skólans og fræðigreina.
Pétur Henry Petersen fjallaði um þetta í Kjarnanum (Þessu þarf öllu að breyta). Hann segir:
HÍ er þó alls ekki fullkominn skóli, mjög margt þarf að bæta. Margt af því er afleiðing fjárskorts (HÍ er alvarlega undirfjármagnaður) en annað er vegna skorts á lýðræðislegri umræðu, lýðræðislegum vinnubrögðum og þeirrar þróunar að HÍ hefur verið á margan hátt fyrirtækjavæddur litið er á menntun og fræði sem framleiðslugreinar.
Gríðarlegt álag er á starfsfólki, sem vinnur fyrir alltof lág laun, alltof lengi. Nýliðun er lítil og margt ungt fræðafólk vinnur við skólann sem stundakennarar á smánarlegum launum, með lítil réttindi og t.d. án atkvæðisréttar í rektorskjöri. Ungt öflugt fræðafólk hrökklast frá skólanum. Líklega hefur skólinn farið of geyst í útskrift doktorsnema og fjármögnun doktorsnámsins er oft ótrygg. Yfirstjórn skólans hefur verið ofurviðkvæm fyrir gagnrýni. Lítil umræða á sér stað innan skólans. Þessu þarf öllu að breyta. En hver á að breyta því?
Pétur hvetur starfsfólk og nemendur við HÍ til að kjósa Guðrúnu.
Ég tek undir ákall hans.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:20 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.