17.4.2015 | 16:17
Guðrúnu Nordal til að stöðva atgerviflótta frá HÍ
Í dag hafa mjög forvitnilegar reynslusögur verið senda á starfsmenn Háskóla Íslands, af ungum vísindamönnum sem eru orðnir langþreyttir á ástandinu.
Ég tel nauðsynlegt að fá nýtt fólk í æðstu stjórn skólans, og hvet stúdenta og starfsmenn til að kjósa Guðrún Nordal.
Eitt bréf kom frá Ernu Magnúsdóttur, sem hún gaf leyfi fyrir að ég endurprentaði hér.
----------------
Kæra samstarfsfólk,
Bréfin frá Kristjáni Leóssyni og Sigrúnu Hreinsdóttur hafa vakið mig til umhugsunar og ég finn mig knúna til að leggja orð í belg.
Ég hef starfað sem sérfræðingur við Háskóla Íslands í nær þrjú ár, og tók þá ákvörðun að flytja til Íslands full af bjartsýni eftir meira en áratug í námi og við störf í Bandaríkjunum og Bretlandi. Ég er nefnilega svo heppin að vera lífvísindamanneskja og hafa fengið að taka þátt í þeirri frábæru uppbyggingu vísindasamstarfs sem hefur átt sér stað við Lífvísindasetur Háskóla Íslands undanfarin ár.
Ég verð að vera algerlega hreinskilin og lýsa því yfir að þegar ég hélt utan í nám árið 2001, var ég viss um að ég kæmi aldrei aftur til Íslands, og þá alla vegana ekki til þess að vinna sem vísindamaður. Mér fannst því ótrúlega spennandi að kynnast vinnunni við Lífvísindasetur og finnst þrekvirki að því hafi verið komið á fótinn með þeirri starfsemi sem þar á sér stað, þrátt fyrir aðstæður við Háskóla Íslands og bágan fjárstuðning við rannsóknir af hendi stjórnvalda. Og hingað er ég því komin.
Myndin sem blasir við manni sem ungum vísindamanni sem reynir að feta sín fyrstu spor í sjálfstæðum rannsóknum eftir doktorsnám og nýdoktorsvinnu í rannsóknarhópum erlendis er dökk. Ég hef það oft á tilfinningunni að ég sé eins og guðirnir í Norrænu goðafræðinni. Ég hlusta á kollega mína sem komu á undan mér og berst á hæl og hnakka gegn óumflýjanlegum örlögum.
Ég er nú á ráðstefnu í mínu fagi erlendis og kemst ekki hjá því að bera sjálfa mig saman við þá kollega mína sem hófu störf við aðra háskóla á Norðurlöndunum eftir nýdoktor á sama tíma og ég. Myndin er ansi svart-hvít. Það sama má segja um jafningja mína sem kláruðu nýdoktor á sama tíma og ég af sömu stofnun í Bretlandi. Þau fóru til ýmissa Evrópulanda eins og Svíþjóðar, Þýskalands og Spánar auk Tyrklands. Samanburðurinn er hvergi Háskóla Íslands í hag. Ekki einu sinni í Tyrklandi.
Á meðan félagar mínir í Evrópu fengu heimanmund frá sínum háskóla m.a. á formi kostaðra doktorsnema og aðstoðarfólks á rannsóknarstofu og rannsóknarfjár til þess að kosta efnivið, fékk ég skrifborð og tölvu. Og telst víst heppin að hafa þó fengið tölvu. Á meðan félagar mínir gátu hafið rannsóknir af krafti þurfti ég að verja fyrsta árinu mínu í að skrifa styrkumsóknir og er fyrst að byrja núna eftir að hafa hlotið verkefnisstyrk frá Rannís.
Ég hélt fyrirlestur á ráðstefnunni í gær. Ég kynnti þriggja ára gömul gögn sem ég aflaði í nýdoktorsstöðu minni í Bretlandi, aðstæður hafa ekki leyft mér að koma rannsóknum mínum á þann stað við HÍ, eftir nær þrjú ár í starfi að hafa aflað birtanlegra gagna. Enda hafði ég fyrst bolmagn til að taka að mér doktorsnema fyrir hálfu ári síðan. Kollegar mínir sem hófu störf við sínar stofnanir í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð á sama tíma og ég byrjaði við HÍ eru allir búnir að koma sér up 3-4 doktorsnemum, ráða nokkra nýdoktora og kynntu spennandi ný gögn sem þeir hafa aflað.
Sem ungur vísindamaður finnst mér ég koma að lokuðum dyrum á flestum stöðum innan Háskólans. Sem dæmi þá mátti ég fyrst ekki sækja um doktorsnemastyrk í Háskólasjóð og mátti ekki sækja um í Tækjakaupasjóð heldur, en hef þó alltaf þótt nógu hæf til að dæma umsóknir annarra í Háskólasjóð, sem ég hef gert af skyldurækni í þrjú ár. Og svo núna þegar ég hef hlotið hlutastarf sem aðjúnkt var tekið á móti umsókn minni. En þá á ég ekki séns í að keppa á móti reyndari vísindamönnum innan háskólans. Engin sér-flokkur er fyrir unga vísindamenn að sækja um eins og víða tíðkast annars staðar. Þannig skorast skólinn ekki aðeins undan því að styðja sérstaklega við bakið á okkur ungu vísindamönnunum heldur eru settir sérstakir tálmar á aðstöðu okkar.
Auk þess er ég orðin mjög hikandi við að sækja um akademískar stöður við Háskóla Íslans, því að það virðist engu máli skipta hversu góðar umsóknir maður sendir inn, það er alltaf eitthvað talið til sem ástæða þess að maður komist ekki einu sinni í viðtal. Jafnvel þótt maður heyri frá fólki sem les umsóknir manns að þær hafi verið einstaklegar góðar. Þau skilaboð sem það sendir mér sem ungum vísindamanni er að gæði skipti hreinlega engu máli þegar maður sækir um starf við skólann. Það sé sama hversu mikið maður leggi á sig eða vandi til verka, það er einhvern veginn alltaf ómark.
Þegar maður svo les lýsingar Sigrúnar um kennsluálag við HÍ, þá veltir maður því fyrir sér hvort maður sé ekki bara heppinn að hafa ekki komið til greina sem dósent við skólann, þar sem þá gæti maður bara gleymt því að sinna rannsóknum sínum áfram.
Það þarf að breyta svo miklu ef skólinn á að verða sambærilegur og samkeppnishæfur við þá skóla erlendis sem hann vill líkjast. Ég vil geta hvatt kollega mína erlendis til þess að sækja um störf við skólann vegna þess að hér séu góðar aðstæður fyrir unga vísindamenn að ná fótfestu.
Það er út af ofangreindu sem ég tel lykilatriði að fá inn ferska strauma í stjórn skólans.
Bestu kveðjur,
Erna
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.