22.4.2015 | 22:54
Brotalamir í HÍ
Eitt það frábærasta við rektorskjörið við Háskóla Íslands var að fólk fór loks að ræða opinberlega vandamálin sem plaga skólann. Frambjóðendur gerðu sér allir grein fyrir því að margt þurfti að laga, bæði í starfi, skipulagi og fjármögnun skólans. Jón Atli Benediktsson var kosinn rektor og hefur góða innsýn í vandamálin og áskoranirnar.
Ein brotalöm sem afhjúpaðist í umræðunni tengist nýliðun og ráðningum til HÍ. Fyrir nokkru fékk ég að setja inn bréf sem Erna Magnúsdóttir nýdoktor og stundakennari sendi á starfsmenn HÍ. Bréf hennar var sent í kjölfar bréfs sem Kristján Leósson sendi á starfsmenn 16. apríl. Kristján féllst á endurprentun bréfsins og fylgir það hér.
--------------------------------
Kæru fyrrverandi samstarfsmenn
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðum um málefni skólans í aðdraganda rektorskjörs. Sjálfur get ég ekki tekið þátt í þessari mikilvægu kosningu, enda ekki lengur starfsmaður Háskóla Íslands.
Ég vona þó að mér verði fyrirgefin sú framhleypni að senda póst á þennan lista, þar sem ég vil endilega deila með ykkur reynslu minni af því að sækja um fasta stöðu við skólann, nánar tiltekið í rafmagnsverkfræði (þar sem auglýst var eftir lektor í rafeindatækni). Ég taldi mig uppfylla öll skilyrði auglýsingar þar sem m.a. kom fram að "Umsækjendur skulu hafa lokið dokorsprófi í rafmagns- og/eða tölvuverkfræði. Auk þess er krafist góðrar samstarfshæfni og lipurðar í mannlegum samskiptum og þurfa umsækjendur að uppfylla skilyrði iðnaðarráðuneytisins fyrir löggildingu í starfsheitið verkfræðingur".
Umsóknarferlið var með eftirfarandi hætti:
11. desember 2013 Umsóknarfrestur rennur út
30. janúar 2014 Staðfesting á móttöku umsóknar (t+50 dagar)
13. maí 2014 Staðfesting á hæfi umsækjanda (t+153 dagar)
26. febrúar 2015 Tilkynning berst um að staða hafi verið lögð niður (t+442 dagar)
Þess má geta að sjö umsækjendur uppfylltu lágmarkskröfur, sex erlendir umsækjendur og undirritaður. Nú veltir maður fyrir sér hvort þetta ferli sé eðlilegt, boðlegt umsækjendum eða líklegt til að auka orðstír skólans á alþjóðavettvangi.
Ég gæti líka hafa hugsað með mér að e.t.v. þætti hvorki ég né nokkur hinna umsækjendanna hæfur til að gegna umræddri stöðu, þrátt fyrir að ég hafi starfað í (tímabundinni) stöðu sem vísindamaður við skólann um árabil og byggt upp öfluga rannsóknaaðstöðu sem hefði nýst vel til framhaldsnáms í umræddri grein (aðstöðu sem nota bene er ítrekað flaggað í auglýsingum og kynningarefni skólans), kennt í fjölda námskeiða, setið sem námsbrautarformaður og sem formaður Hugverkanefndar HÍ/LSH, aflað ásamt samstarfsmönnum um 200 milljóna í rannsóknstyrkjum, leiðbeint meistaranemum, doktorsnemum og nýdoktorum sem sumir hafa haldið til frekara náms og rannsóknastarfa við Harvard, Oxford og helstu tækniháskóla á Norðurlöndum, verið fulltrúi skólans í fjölda útvarps-, sjónvarps- og blaðaviðtala, kennt í Háskóla unga fólksins og svo mætti áfram telja.
Það vildi því svo heppilega til að mér gafst tækifæri til að gera vísindalega samanburðartilraun þegar staða dósents var auglýst við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi (KTH) nú fyrir síðustu áramót. Það umsóknarferli var svo:
7. nóvember 2014 Umsóknarfrestur rennur út
7. apríl 2015 Valdir umsækjendur boðaðir í viðtal (t+151 dagur)
18. maí 2015 Ákvörðun um forgangsröðun umsækjenda liggi fyrir (t+192 dagar)
Þar sem ég er nú einn þriggja umsækjenda sem boðaðir hafa verið í viðtal þarf ég kannski ekki að óttast að ég sé mögulega vanhæfur til að gegna stöðu við öflugan rannsóknaháskóla og í staðinn get ég einbeitt mér að því að undirbúa kennslufyrirlestur egna viðtalsins í næsta mánuði, sem skv. fyrirmælum á að miðast að nemendum á fyrra ári í meistaranámi í rafmagnsverkfræði, rafeindatækni og eðlisfræði.
KTH er í sæti númer 126 á hinum margumtalaða Times Higher Education lista. E.t.v. mætti lesa það úr fyrra ferlinu sem rakið er hér að ofan að HÍ stefni í hóp 100 bestu háskóla heims með því að setja ráðningarviðmið sín skör hærra en hjá skólum í sætum 101+.
Eða maður getur lesið það út að pottur sé brotinn í rafmagnsverkfræðideild, í gæðamálum skólans og í áherslum varðandi framhaldsnám og þverfaglegar rannsóknir.
Ef ég hefði haft atkvæðisrétt í rektorskjöri 2015, þá hefði Guðrún Nordal fengið mitt atkvæði. Ég er viss um að hún getur lagt sitt af mörkum þannig að finna megi (og hér fæ ég að láni orð hins ágæta þingmanns Helga Hrafns Gunnarssonar) ...hógværar, ódýrar og einfaldar lausnir sem myndu koma okkur fram á veg. Þá getum við kannski hætt þessum andskotans sandkassaleik. Fyrirgefið dónaskapinn.
Með vinsemd og virðingu
Kristján Leósson, B.Sc.Eng, B.A., M.Sc., Ph.D.
Framkvæmdastjóri Efnis-, líf- og orkutæknideildar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands
http://uni.hi.is/kleos
------------------
Svör rektorsframbjóðenda voru frekar almenn, en málið snertir Jón Atla beint, því ráðningin átti að vera við deildina sem hann starfar við. Hann sór af sér ákvörðunina, þar sem hann sem aðstoðarrektor hefur ekki tekið þátt í stjórnun deildarinnar, og vísaði til sjálfstæði deilda við ráðningar.
Nokkrir kennarar furðuðu sig á þeirri ákvörðun rafmagnsverkfræðideildar að ráða ekki Kristján, m.a. vegna þess að hann er öflugasti vísindamaður á sviði örtækni hérlendis.
Sjálfur hef ég lent í áþekkri stöðu, þegar ég sótti um stöðu lífupplýsingafræðings sem átti að vera með tengsl við Kerfislíffræðisetur. Ég var metinn hæfur, en eftir langa bið barst bréf þess efnis að ákveðið hafi verið að ráða ekki í stöðuna.
Bréfið frá Sviðsforseta Verk og náttúruvísindasviðs var á þá leið.
Fulltrúi stjórnar Kerfislíffræðinnar kom til mín í erindagerð um að það
hefði metist hæft fólk í starfið en að þeir væru ekki á því sviði sem þeir
hefðu viljað til að byggja upp grúppuna. Eftir langar umræður féllst ég á
að þeir auglýstu aftur, en þá með nánari lýsingu á þekkingu og reynslu
þeirra sem þeir eru að leita að.
Sem er ansi merkilegt, því að ég var ekki einu sinni boðinn í viðtal, þar sem meta hefði mátt samstarfsmöguleikana og samlegð. Ég mun ekki fyrir mitt litla líf halda því fram að rannsóknir mínar séu á sama pari og Kristjáns Leóssonar, en tveimur árum síðar var ég ráðin í stöðu lífupplýsingafræðings við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ.
Það hafa verið gerðar breytingar á ráðningarferlum við Háskóla Íslands, en augljóst er að margt er óunnið enn. Nýr rektor hefur einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða á þeim vettvangi. Starfsmönnum Háskólans ber líka skylda til að taka þátt í umræðu og starfi til að lagfæra þessa brotalöm og aðrar. Látum tíma nýs rektors einkennast af beinskeyttri, heiðarlegri og uppbyggilegri umræðu um hlutverk, skyldur og sóknarfæri Háskóla Íslands.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Það eru nú til dæmi um skrítið ráðningarferli innan líffræðinnar, t.d. við ráðningu í stöðu dósents í dýrafræði hryggdýra, þar sem ég var umsækjandi ásamt öðrum vel hæfum einstaklingum.
Bjarni
Bjarni Kristófer (IP-tala skráð) 25.4.2015 kl. 17:37
Alveg rétt Bjarni
Ég var mjög ósáttur við þá ákvörðun, röksemdir fyrir valinu og hvernig staðið var að henni.
Þess vegna held ég að annað hvort þurfi deildir (eða námsbrautir) að ræða þetta á fundi, þar sem allir koma að ákvörðun, eða að fjölgað sé í nefndinni sem ákveður. Eins og stendur eru of mörg tilfelli þar sem hæfasti einstaklingurinn er ekki valinn, eða kemst ekki einu sinni í viðtal.
Arnar Pálsson, 30.4.2015 kl. 03:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.