24.4.2015 | 02:53
Enga mengun í heimabyggð, iðnaðarfjörður í boði Reykjavíkur
Öðlingurinn Einar Tönsberg tónlistarmaður og jarðfræðingur ritar stórgóða grein í Kjarnann um skipulag höfuðborgarsvæðisins og mengunarstefnuna sem Reykjavíkurborg hefur rekið í Hvalfirði.
Járnblendisverksmiðja var byggð á Grundartanga, og álver fyrir síðustu áramót. Á þeim tíma stóðu Kjósverjar á móti þessum fyrirætlunum, af þeirri ástæðu að frá verksmiðjum bærist mengun sem ekki sé samrýmanleg landbúnaði. Andóf þeirra duggði lítt, álverið var stækkað og nú er Kísilverksmiðja í kortunum.
Rökin sem oftast eru notuð, eru þau að mengunin sé lítil sem engin og engum hættuleg innan þynningarsvæðis.
Ef það er svo lítil mengun af þessum verksmiðjum, af hverju eru þær ekki settar í Fossvog eða Garðarbæ?
Grein Einars byrjar á þessum orðum:
Mikil vinna hefur verið lögð í nýtt skipulag fyrir höfuðborgarsvæðið er ber yfirskriftina Höfuðborgarsvæðið 2040. Sjö sveitarfélög mynda höfuðborgarsvæðið samkvæmt skipulaginu og er eitt þeirra Kjósarhreppur.
Lykilatriði í stefnunni er að vöxtur svæðisins verði hagkvæmur og ekki verði gengið á umhverfisgæði þeirra sem þar búa fyrir.
Í skýrslunni er talað um að gera umhverfið þannig úr garði að það auki vellíðan, bæti andlega heilsu og hvetji til hreyfingar. Umhverfi er talið heilsuvænt ef það t.d. tryggir hreint vatn og loft, er almennt ómengað og kveiki jákvæðar hugsanir og tilfinningar. Talað er um gott ræktarland sem verðmæti og að mikilvægt sé að öflugur landbúnaður sé innan 50 km frá markaði.
Stefna Reykjavíkurborgar í uppbyggingu á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga brýtur öll þessi fögru fyrirheit. Þaðan berst nú þegar mikil mengun, allt í senn loft,- sjón- og hljóðmengun, og svæðið hefur mjög neikvæð áhrif á andlega heilsu margra Kjósverja.
Ég hvet fólk til að lesa greinina.
Einar Tönsberg 23. apríl 2015 Iðnaðarfjörður í boði Reykjavíkur.
Til upplýsingar, ég er kjósverji í aðra ættina og alfarið á móti því að byggja stíflur um allt land til að selja ódýra orku frekum iðnaði.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:58 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Sæll Arnar.
Annað hvort er Einar mjög illa upplýstur um iðnaðarsvæðið á Grundartanga, mengunareftirlit þar, mengun frá svæðinu, starfsleyfi fyrirtækja þarna og reyndar um flest þau atriði sem hann ritar um þetta svæði, eða þá hann velur að fara með rangt mál.
Ef þetta er kunnáttuleysi hjá manninum má svo sem afsaka það, en kannski hefði verið viturlegt hjá honum að leita sér upplýsinga áður en hann ritaði greinina. Ef þetta er val um að fara fram með rangar staðreyndir er málið alvarlegra.
Þú segir í lok greinar þinnar að þú sért alfarið á móti því að stíflur séu byggðar vítt um landið til að fóðra stóriðju á rafmagni. Undir þetta get ég tekið. Þó stóriðjan sé ágæt sem einn af kostum okkar til gjaldeyrisöflunar, má vel segja að af henni sé komið nóg, a.m.k. í bili. Sú kísilverksmiðja sem til stendur að byggja á Grundartanga flokkast þó ekki undir stóriðju, í þeirri merkingu sem við höfum haft. Þarna er vissulega um stóra byggingu að ræða að flatarmáli, en orkuþörf hennar er lítil meðan mannaþörf er mikil, sérstaklega fyrir menntað fólk.
En hvernig er það, vilt þú að stíflur verði byggðar til að senda rafmagn um sæstreng til Bretlands?
Gunnar Heiðarsson, 24.4.2015 kl. 06:57
"Ef það er svo lítil mengun af þessum verksmiðjum, af hverju eru þær ekki settar í Fossvog eða Garðarbæ?"
Kísilverksmiðjan sem er fyrirhuguð þarf mikið pláss, höfn og nálægð við álver. Frekar lítið af þessu í Fossvoginum.
ls (IP-tala skráð) 24.4.2015 kl. 15:59
Að líkja saman Grundartanga og Fossvogi eða Garðabæ er út í hött í þessu samhengi. Allir vita að svona stórar verksmiðjur eru óaðlaðandi, ef ekki beinlínis ljótar og passa engan vegin nálægt íbúabyggð. Þess vegna er kjörið að hafa þetta t.d. á Grundartanga.
Einhverjir vilja meina að hestar í sveitinni hafi orðið fyrir mengunaráhrifum, gott ef ekki vegna flúors. Erfitt virðist þó að sanna það svo óyggjandi sé.
Umræða um mengandi iðnað verður að byggjast á staðreyndum en ekki upphrópunum. Upplýst umræða er því lykilatriði.
Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, fór því miður með fleipur í bloggi sínu um fyrirhugaða Kísilmálmverksmiðju á Grundartanga. Menn sem ríghalda í að telji sig virta, eiga ekki að láta svona frá sér.
Gunnar Th. Gunnarsson, 29.4.2015 kl. 08:48
Sæll Gunnar Heiðarsson
Það er mengun frá verksmiðjum, en auðvitað eru kerfi til hreinsunar og þynningarsvæði og slíkt.
Aðalpunktur minn er sá að borgarbúar eru til í að byggju undir orkufrekan iðnað, ef hann er ekki í þeirra heimahögum.
Það kann að vera að mengun sé lítil af kísilverksmiðju, en það er iðnaðaruppbygging í landbúnaðarhéraði sem Einar og ég setjum spurningarmerki við.k
Ef það fæst betra verð fyrir rafmagn í bretlandi en í álveri, þá eru rök fyrir því að byggja nokkrar stíflur. En ég myndi vilja að rammáætlun væri fylgt í því máli.
Þú lýsir því yfir að Einar fari rangt með umhverfismálin og mengunina. Þú gætir sent honum réttar upplýsingar eða deilt þeim með fólki.
Sæll Is og Gunnar Th.Fossvogurinn var nefndur sem dæmi um auðan blett í borg, sem hægt væri að hola niður verksmiðju á. Annar möguleiki er hraunið við Straumsvík.Þetta snýst ekki um ljóta kassa, íslendingar eru mjög ríkir af ljótum kössum og búa margir hverjir í svoleiðis.Staðurinn sjálfur skiptir ekki öllu máli, heldur nálægðin við borgarbúana. Þeir vilja ekki sjá strompa og reykský út um gluggann sinn, betra að setja svoleiðis í Hvalfjörð. Það er kjarninn í umræðunni hér, við viljum ekki mengun nálægt húsinu okkar.
Ég er sammála Gunnari Th. um að þetta þurfi að vera upplýst og grandvör. Einmitt mikilvægt að fjalla um efnisleg atriði og staðreyndir. Það er óþarfi er að nafngreina menn og segja að þeir telji sig virta, því efnisleg rök eiga að skipta öllu máli.
Með kærri kveðju
Arnar Pálsson, 30.4.2015 kl. 00:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.