Stökkbreytingar eru frávik í erfðaefninu. Þær geta myndað nýjar útgáfa af geni (oft auðkennt sem a) - miðað við upprunalegu (forfeðra) útgáfuna (auðkennt sem A). Á meðan a er fátíð í stofninum, finnst hún nær eingöngu í einstaklingum með Aa arfgerð. Ef a verður algengari aukast líkurnar á að aa einstaklingar verði til. Í lífverum finnst heilmikill erfðabreytileiki sem er upprunalega af völdum stökkbreytinga. Stökkbreytingar má flokka eftir mögulegum áhrifum á hæfni lífvera. Þær geta verið skaðlegar, hlutlausar eða jákvæðar. Jákvæðar breytingar eru hráefni fyrir náttúrulegt val en hlutlausar breytingar hafa engin áhrif. Skaðlegar breytingar draga hins vegar úr lífslíkum eða frjósemi, oftast vegna þess að þær eyðileggja gen eða raska virkni þeirra. Til að vita hvernig gen skemmast þurfum að við að skilja uppbyggingu þeirra. Gen eru samsett úr ólíkum hlutum, til dæmis stjórnröðum og táknröðum. Þær síðast töldu skrá fyrir hlutum prótíns sem genið er forskrift að. Punktbreytingar leiða til skipta á stökum bösum (DNA er samsett úr A, C, G og T bösum). Punktbreyting á basa í mikilvægum hluta gens, getur eyðilagt það. Einnig eru þekktar úrfellingar og innskot á bösum eða jafnvel brot og tilflutningur á litningabútum (litningabreytingar). Ef breyting fellir út hluta gens eða leiðir til skipta á mikilvægri amínósýru, getur það haft alvarleg áhrif og jafnvel óvirkjað prótín-afurð gensins. Segja má að slík gen séu ónýt. Aðrar stökkbreytingar eru vægari. Gen geta því skemmst á ótal vegu, og mismikið.
Rannsóknir á bakteríum, gersveppum og flugum hafa sýnt að ekki eru öll gen lífsnauðsynleg. Gersveppur getur til dæmis lifað ágætu lífi í rækt, þegar hann er arfhreinn um úrfellingu á heilu geni. Reyndar eru innan við 10% af genum sveppsins lífsnauðsynleg. Nýleg rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar sýndi að um 8% Íslendinga eru arfhreinir um sködduð eða ónýt gen. Genin sem um ræðir eru um 6% af erfðamengi okkar, um 1200 gen í allt. Algengast er að finna galla í lyktaviðtakagenum, sem er reyndar einnig algengt meðal ættingja okkar í aparíkinu.
Hér virðist felast mótsögn. Hví hefur maðurinn (eða sveppurinn) ákveðið gen ef hann getur lifað án þess?
Erfðafræðin og þróunarfræðin hefur nokkrar útskýringar á svona fyrirbærum. Í fyrsta lagi er sýnd (e. penetrance) gena og erfðabreytileika misjöfn. Tveir einstaklingar með sömu erfðasamsetningu (til dæmis arfhreinir um skaddað gen aa), fá ekki endilega sömu svipgerð. Í öðru lagi er tjáning (e. expressivity) arfgerða ekki alltaf sú sama. Tveir einstaklingar með sömu erfðasamsetningu fá ekki alltaf jafnsterk einkenni. Þriðja útskýringin er sú að sum gen eru skyld, og geta hjálpast að. Ef eitt gen er gallað, getur nærskylt gen stundum leyst hlutverk þess nægilega vel. Í fjórða lagi getur verið að viðkomandi gen séu ekki mikilvæg við allar aðstæður, til dæmis bara í hörðu ári eða þegar ákveðið sníkjudýr eða pest herjar. Að endingu má segja að lögmál erfða og þróunar, og samspil tilviljana, erfða og umhverfis geti útskýrt af hverju sumir geta lifað ágætu lífi með ónýt gen.Samantekt:
- Ónýt gen eru vegna stökkbreytinga sem eyðileggja mikilvæga hluta gena.
- Slíkar stökkbreytingar geta á arfhreinu formi valdið dauða eða sjúkdómum.
- Stundum lifir fólk góðu lífi þrátt fyrir að vera arfhreint um gölluð gen.
- Ástæður þess eru margar, til dæmis bygging gena, skyldleiki gena, ólíkt mikilvægi gena og heppni.
- Sú staðreynd að við erum tvílitna veitir okkur vernd fyrir ónýtum genum.
- Guðmundur Eggertsson.Hver er munurinn á erfðagalla og erfðasjúkdómi? Vísindavefurinn, 20.11.2002.
- Guðmundur Eggertsson. Af hverju verða stökkbreytingar? Vísindavefurinn, 13.8.2003.
- Winzeler EA, Shoemaker DD og 50 aðrir. Functional characterization of the S. cerevisiae genome by gene deletion and parallel analysis. Science. 1999 Aug 6;285(5429):901-6.
- Patrick Sulem, Hannes Helgason, og 17 aðrir. Identification of a large set of rare complete human knockouts. Nature Genetics, 2015 doi:10.1038/ng.3243
- Mynd: Biology 442, Human Genetics -Mutations. (Sótt 21. 4. 2015).
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Hvað gera bændur við skepnur sem að eru í andstöðu við þeirra þróunnarmarkmið?
http://www.gaysitgespride.com/
Jón Þórhallsson, 7.5.2015 kl. 12:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.