Leita í fréttum mbl.is

Sníkjudýr karfa við Íslandsstrendur

Ásthildur Erlingsdóttir flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í líffræði. Verkefnið ber heitið Sníkjudýr karfa (Sebastes spp.) við Íslandsstrendur.
 
Föstudagur, 15. maí 2015 - 15:00 Askja Stofa 128.

Ágrip

Krabbadýrið Sphyrion lumpi, er ytra sníkjudýr á karfategundum (Sebastes spp.) við Ísland og veldur efnahagslegu tjóni þar sem það festir sig í vöðva fisksins og veldur þannig afurðaskemmdum. Í þessu verkefni voru áður ógreind langtímagögn er varða sýkingar á úthafskarfa (Sebastes mentella) af völdum S. lumpi við Ísland skoðuð. Í rannsókninni voru frávik á ytra borði fisksins sett í fimm flokka: svartir blettir, rauðir blettir, blandaðir blettir, kýli eða leifar eftir Sphyrion lumpi sýkingar og sníkjudýrið sjálft. Niðurstöður sýndu að smitmagn hefur ekki áhrif á ástand fisksins (K). Á rannsóknartímabilinu lækkaði tíðni sýkinga úr 25% árið 1995 í 9% árið 2013. Marktækur munur er á smitmagni milli kynja hjá S. mentella og einnig á milli stofna úthafskarfa.

Niðurstöðurnar gefa góða mynd af þróun S. lumpi sýkinga við Ísland, ásamt smittengdum hýsilsvörunum karfans, og gætu þær haft áhrif á sýn vísindasamfélagsins á samsetningu karfastofna hér við land. Á sviði fisksjúkdóma á hugtakið smásæ sníkjudýr almennt við slímdýr (Myxozoa), frumdýr (Protozoa) og sníkjusveppi (Microsporidia). Í rannsókninni var fána smásærra sníkjudýra tveggja karfategunda (Sebastes spp.) við Ísland kortlögð. Öll helstu líffæri voru skoðuð með víðsjá og/eða smásjá. Einnig var vefjameinafræðileg skoðun framkvæmd með tilliti til sýkinga. Erfðaefni þeirra sníkjudýra sem fundust var magnað upp með PCR og raðgreint. Slímdýr er fundust í gallblöðru voru greind til tegundanna Myxidium bergense og Ceratomyxa adeli. Líkur benda til að fjórar tegundir gródýra (Apicomplexa) er fundust í görnum og þvagblöðru, séu áður óþekktar en fullnaðargreiningu er ólokið. 

Leiðbeinendur: Árni Kristmundsson, Guðrún Marteinsdóttir og Kristján Kristinsson
Prófdómari: Matthías Eydal


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband