8.6.2015 | 09:24
Landnám grjótkrabba við Ísland 9. júní
Andmælendur eru dr. Erik Bonsdorff, prófessor við Åbo Akademi University í Turku í Finnlandi, og dr. Bernd Hänfling, vísindamaður við Háskólann í Hull í Bretlandi.
Leiðbeinandi var dr. Jörundur Svavarsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og dr. Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum.
Dr. Eva Benediktsdóttir, dósent og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.
Ágrip rannsóknar
Í doktorsverkefninu eru landnámi grjótkrabba (Cancer irroratus) við Ísland gerð skil, útbreiðslu hans við landið, þéttleika og erfðabreytileika. Grjótkrabbinn fannst fyrst við Ísland árið 2006 í Hvalfirði. Fundur grjótkrabbans hér við land er um margt áhugaverður, ekki síst fyrir þá staðreynd að þetta er í fyrsta skipti sem tegundin finnst utan sinna náttúrulegu heimkynna sem liggja meðfram austurströnd Norður-Ameríku, frá Suður-Karólínu til Labrador í norðri. Hér er landnámi grjótkrabbans lýst frá því hann fannst fyrst hér við land og hvernig hann hefur breiðst út til dagsins í dag, en rannsóknir á útbreiðslu og þéttleika hafa farið fram bæði á fullorðnum einstaklingum, sem og lirfum. Samhliða rannsóknum á grjótkrabba hafa fengist mikilvægar grunnupplýsingar um þéttleika tveggja algengustu krabbategundanna á grunnsævi við Ísland, þ.e. bogkrabba (Carcinus maenas) og trjónukrabba (Hyas araneus).
Niðurstöður rannsóknanna sýna að grjótkrabbi er orðinn algengasta krabbategundin á mjúkum botni á grunnsævi við Suðvesturland. Útbreiðsluaukning krabbans hefur verið mjög hröð og þekur samfelld útbreiðsla hans nú um 50% af strandlengjunni, frá Faxaflóa til Vestfjarða, auk þess sem hann finnst á blettum allt norður í Eyjafjörð. Erfðafræðilegur breytileiki grjótkrabbans var skoðaður bæði innan hans náttúrulegu heimkynna í Norður Ameríku og við Ísland en þetta er í fyrsta skipti sem erfðabreytileiki innan tegundarinnar er skoðaður.
Niðurstöður rannsóknanna sýndu fram á að erfðabreytileiki innan Íslands er svipaður og í Norður-Ameríku. Jafnframt kom í ljós að erfðafræðileg aðgreining er meðal stofna sunnan og norðan Nova Scotia í Norður-Ameríku sem líklega má rekja til atburða sem áttu sér stað í kjölfar síðasta jökulskeiðs. Landnám og útbreiðsla grjótkrabbans við Ísland hefur gengið hratt fyrir sig og virðist honum vegna vel við Ísland. Hár erfðabreytileiki, skortur á landnemaáhrifum, hröð útbreiðsla og hár þéttleiki bæði lirfa og fullorðinna einstaklinga benda til að tegundin þrífist vel við Ísland og sé komin til að vera.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.