16.6.2015 | 15:56
Orð á bók og skjá
Er einhver munur á því að lesa á bók eða skjá?
Naomi S. Baron kafar í þessa spurningu í nýlegri bók sem heitir orð á skjá (Words onscreen). Tækniframfarir hafa verið mjög hraðar undanfarna tvo áratugi, veraldarvefurinn(netið), fartölvur, snjallsímar, spjaldtölvur og rafbækur hafa farið sigurför um heiminn. En margir hafa velt fyrir sér hvort að böggull fylgi skammrifi, fylgir hinu mikla aðgengi og hagræði einhverjir gallar eða annmarkar?
Ritmál er nokkur þúsunda ára gamalt en bækur fyrir alla er nýrra fyrirbæri. Þegar prenttæknin og prentun á pappír komst á kjöl brustu allar gáttir. Bækur urðu almúgans, ekki bara presta og bókara höfðingjanna. Hægt var að prenta kver, skýrslur, ljóðabálkar og tímarit í kjölfarið og upplýsingar flæddu greiðlegar um samfélagið.
Hvað lesum við og hvernig?
Í upphafi bókar sinnar, segir Baron frá rannsókn á lesendum, sem fengu annað hvort Chekhov eða léttari lesningu. Þeir sem lásu Chekhov voru næmari á tilfinningar annara og voru færari um meðaumkun/hluttekningu en hinir sem lásu reifara.
Spurningin sem Baron hefur samt mestan áhuga á er sú hvort að miðillinn skipti máli. Lesum við öðru vísi á skjá en á bók?
Flestir þekkja þá upplifun að vafra um netið, glugga á fyrirsagnir og skoða myndir. Lesa upphaf greinar og halda síðan áfram því mynd á spássíu heillaði. Rannsóknir sýna að lestur á netinu fylgir F mynstri. Fólk les fyrstu setninguna eða línuna vandlega, gluggar síðan í upphaf næstu málsgreinar og athyglin er yfirleitt horfin þegar neðst í textan er komið (líkurnar á að meðal lesandinn lesi það sem er í þessum sviga eru ansi litlar).
Það er ekki ætlun mín að endursegja bókina hér, en ég skora þig að kaupa hana og lesa. Helstu ályktanir höfundar eru að fyrir styttri fréttir og samantektir þá skiptir miðillinn ekki máli. En ef fólk vill lesa lengri texta eða sökkva sér í efni, er sniðugra að nota bók en rafbók. Ástæðan er sú að fólk á auðveldara með að einbeita sér að bókinni, það heldur einbeitingu lengur og áttar sig betur á uppbyggingu efnis. Það að halda í bókina, og fletta síðum virðist hafa heilmikið að segja upp á skynjunina, og einnig tilfinninguna. Rafbækur eru einhvern vegin óraunverulegri (því þær eru ekki til, nema sem upplýsingar á diski eða drifi).
Rafbækur eru einnig ósýnilegar, fólk hefur bækurnar sínar upp í skáp, hjá bókafíklum eins og frænku minni og mér í tvöföldum röðum, þversum og í stöflum. Það að sjá kjölinn tengir þig við bókina. Þú færð ekki sömu tengingu við rafbók í möppu í snjallsímanum.
Að læra á bók eða rafbók?
Sem háskólakennari er mér umhugað um að nemendur læri. Þótt háskólanám sé uppbyggt af námskeiðum um tiltekin efni og fagsvið, er í því sameiginlegur þráður. Háskólanemar þurfa að læra og þjálfa fagleg vinnubrögð. Það felur í sér að kafa í texta, kennslubækur, fræðibækur, yfirlitsgreinar og rannsóknargreinar. Og geta melt og greint innihald textans. Þeir þurfa einnig að geta skrifað, t.d. á prófum eða í ritgerðum. Nemendur þurfa einnig að geta unnið að verkefnum, t.d. leysa dæmi, gera tilraunir, greina gögn, taka viðtöl ofl. Slíkt krefst líka skipulags, úrvinnslu og skrifta. Jafnvel fyrirlestra þarf að skrifa, því þeir þurfa inngang, meginmál og ályktanir eins og hvursdagslegir stílar.
Baron vísar í fjölda kannanana og rannsókna sem sýna að nemendur eiga auðveldara með að einbeita sér að prentuðum texta en rafrænum. Það er meiriháttar niðurstaða í veröld þars sem mikill þrýstingur er á að rafbókavæða kennsluefni og kennslubækur. Ef nemendum gengur betur að einbeita sér, skilja, melta og endursegja efni sem prentað er, þá eigum við ekki að leggja ofuráherslu á rafbækur.
Raftæki, spjaldtölvur og farsímar eru vitanlega orðinn veruleiki í vestrænum samfélögum, og það er einnig mikilvægt að skóla kenni börnum að nota þessi tæki rétt. Og slökkva á þeim þegar við á. Sem er í kennslustofunni (og jafnvel skólanum).
Bókin er okkar vængir og rætur
Í síðasta pistli fjölluðum við stuttlega um váleg tíðindi. Fleiri og fleiri íslendingar lesa enga bók á ári. Það er áhyggjuefni því bækur hjálpa okkur að þroskast sem tilfinningaverur, á þeim svífum við um söguna og veraldir heimsins, lærum og eflumst sem þegnar samfélagsins og hugsandi verur.
Þótt það sé skiljanleg mótsögn í því að skammast yfir netlestri á netinu, vil ég hvetja fólk til að fækka flökkustundunum og "klikkunum" og lesa sem flestar bækur. Helst góðar.
Ítarefni og skyldir pistlar:
Steven Poole. Wall Street Journal 19. feb. 2015. The Reader on the Prowl Even the smartphone-toting, text-messaging generation prefers to study using real books. It makes things easier to remember.
Arnar Pálsson | 11. júní 2015 Bókin er vængir og rætur
Arnar Pálsson | 12. janúar 2015 Hin mörgu andlit Plágunar og snilld Alberts Camus
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 18.6.2015 kl. 09:30 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.