28.9.2015 | 11:02
Loftslagsbreytingar: Orsakir og afleiðingar í ljósi viðræðna um nýtt samkomulag - erindi 28. sept
Loftslagsbreytingar: Orsakir og afleiðingar í ljósi viðræðna um nýtt alþjóðlegt samkomulag 2015
Hér birtist tilkynning frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi.
Stefán Einarsson flytur erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags. Erindið verður flutt mánudaginn 28. september kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.
Ágrip af erindi:
Niðurstöður vísindarannsókna sýna að loftslag hefur hlýnað að jafnaði um 0,85°C síðan 1880, að sjávarborð hefur hækkað um 0,19 metra síðan 1901, að ísþekja dregst hvarvetna saman og að höf hafa súrnað sem nemur 26% aukningar í styrk vetnisjónarinnar í sjónum. Þessi þróun mun halda áfram af auknum krafti ef ekki verður gripið í taumana.
Í desember næstkomandi er stefnt að nýju samkomulagi um loftslagsmál á fundi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í París. Samkomulagið mun setja ramma um loftslagsmál frá árinu 2020 og er jafnframt ætlað að stuðla að auknum metnaði í loftslagsmálum fram til 2020. Afar brýnt er að Parísarsamkomulagið verði metnaðarfullt þannig að dregið verði nægilega úr losun gróðurhúsalofttegunda á komandi árum og áratugum til þess að komast hjá alvarlegum afleiðingum loftlagsbreytinga.
Losun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist mikið undanfarna áratugi og hefur aukningin verið örust frá síðustu aldamótum, aðallega vegna losunar frá brennslu jarðefnaeldsneytis og iðnaði. Samanlögð losun koldíoxíðs (CO2) frá árinu 1870 er um 1900 Gt (milljarðar tonna). Ef góðar líkur eiga að vera á að hlýnun jarðar haldist að meðaltali innan 2°C þarf að takmarka losun CO2 við 2900 Gt og er því rýmið sem enn er til losunar um 1000 Gt CO2. Árleg losun CO2 er nú um 35 Gt.
Orkunotkun og orkuframleiðsla veldur um 65% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Úrbætur í orkugeiranum vega því mest og fer mikilvægi þeirra vaxandi vegna aukinnar eftirspurnar eftir orku samfara fólksfjölgun og bættum efnahag. Nauðsynlegt er að minnka losun á hverja kílówattsstund af framleiddu rafmagni og draga úr losun vegna orkunotkunar í byggingum, samgöngum og iðnaði. Þetta má m.a. gera með beislun endurnýjanlegra orkugjafa og bættri orkunýtningu.
Um fjórðungur losunar gróðurhúsalofttegunda stafar frá landbúnaði og annarri landnotkun. Rekja má losunina m.a. til húsdýrahalds, áburðarnotkunar, skógareyðingar og losunar frá framræstu votlendi. Losunin hefur minnkað undanfarið aðallega vegna minni skógareyðingar og aukinnar skógræktar. Fólksfjölgun og breyttar neysluvenjur munu hins vegar kalla á aukið landrými til matvælaframleiðslu.
Stefán Einarsson (f. 1953) lauk BS-prófi í efnafræði og hafefnafræði frá Háskóla Íslands og doktorsprófi í efnafræði frá Háskólanum í Gautaborg árið 1986. Hann hefur starfað sem sérfræðingur í Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu frá árinu 2007.
Sjá nánar á vef HÍN (http://www.hin.is/)
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.